sunnudagur, apríl 10, 2005

Falleg framtíðarsýn

Já ég eins og aðrir, fagna öllum eftirlitsstofnunum sem hið opinbera setur á stofn. Hvar værum við án Samkeppnisstofnunar sem sér til að við getum verslað í samkeppnisumhverfi, Heilbrigðiseftirlits sem sér til að við borðum ekki einhvern óþverra sem gæti drepið okkur, Fiskistofu sem sér til að við veiðum ekki of mikinn fisk og að hann fái viðunandi meðferð, Vinnueftirlit sem gerir skýrslur ef við slösum okkur á búnaði sem þeir áttu að vera búnir að banna fyrir löngu og svo er það nýja stofnunin sem ekki hefur fengið nafn enn. Systurstofnun nýju stofnunarinnar var með höfuðstöðvar í Berlín, þýska systurstofnunin átti líka búnað til að hlera síma eins og sú Íslenska á að gera og þeir áttu líka færanlegar eftirlitsmyndavélar sennilega til að gæta alls velsæmis verst að netið varð ekki almenningseign fyrir lok þýsku stofnunarinnar því þá hefði mátt nota gamla aflagða neteftirlitsbúnaðinn.

Það held ég nú. Það verður nú ekki ónýtt þegar maður getur hringt í eftirlitsmálaráðherrann og spurt hann hvort hann geti ekki haft uppi á vefsíðu sem maður skoðaði fyrir tæpu ári síðan því það er bara alveg stolið úr mér hvað hún heitir, þá flettir ráðherrann bara upp í gagnagrunninum og á örskotsstund fær maður link á týndu síðuna sína aftur.

Það verður heldur ekki ónýtt ef maður gleymir einu eða tveimur atriðum sem viðmælandi manns sagði í síðasta símtali, þá frekar en að hringja til baka og bera upp erindið aftur hringir maður bara í eftirlitsmálaráðherrann og fær upptöku af símtalinu.

Síðast en ekki síst, hver hefur ekki tekið vitlausa beygju á sveitavegi og er ekki alveg viss hvar hann er staddur? jebb Sturla er með svarið því hann ætlar að setja staðsetningarbúnað í alla bíla, þá má bara hringja í hann og spyrja til vegar.

Svo að síðustu á að setja upp útvarpsnefnd sem á að fylgjast með því að útvarpsstöðvar haldi sig við áður auglýsta dagskrá og dagskrárstefnu. ljómandi ljómandi þá þarf maður ekki að hafa áhyggjur af því að fm957 fari að halda uppi áróðri gegn ríkjandi stjórnvöldum as if.