mánudagur, mars 28, 2005

Þá er það komið

Þá er Anna orðin Frú og lítið annað um það að segja. Við gerðum allt of mikið í gær, það kom fullt af fólki í heimsókn, við gátum trakterað það á afgöngum úr veislunni.

Við horfðum á upptöku af athöfninni í gær, ég er ekki frá því að það hafi heyrst betur í mér þegar já-ið kom en ég þorði að vona, mér fannst þegar ég ég sagði já-ið að það hefði komið út eins og ræsking en á vídeóinu hljómaði þetta betur.

Spennufallið kom strax um kvöldið, þegar við vorum búin að fá okkur að borða heima hjá mömmu og pabba. Reyndar var það byrjað að láta á sér kræla um leið og veislunni lauk því ég gat ekki ákveðið einföldustu hluti eins og hvort ég ætti að bera dúk eða köku út í bíl.

Ég segi nú bara eins og amma segir gjarnan á aðfangadag strax eftir matinn: þá er bara moldviðrið eftir.

**********

Rétt fyrir athöfnina sjálfa var ég gjörsamlega að fara á límingunum, ef athöfnin hefði farið fram í kirkju hefði ég sennilega dáið úr stressi því þá hefði ég ekki getað talað við þá sem voru mættir til að samfagna okkur, það lækkaði stessstuðulinn um allan helming þegar fólk kom og spjallaði smá því þá gat maður leitt hugann pínulítið að öðru. Munnurinn var þurr og hjártslátturinn eins og keppni væri framundan.