fimmtudagur, janúar 31, 2008

Eins og mig langar stanslaust að fara aftur til Kína og þá sérstaklega til Wuhan í Hubei héraði, þá hefur löngunin dvínað lítillega síðustu daga. Það er nefnilega allt á svarta kafi í snjó þarna austurfrá. Nú geisa mestu vetrarhörkur síðustu 50 ára í mið- og suðurhéruðunum. Hér má sjá meira um málið

***

Það tekur heldur betur á að vera heimavinnandi húsfaðir sem reiðir fram tvær heitar máltíðir á dag, þvær stundum upp og er kominn í fjarnám í stærðfræði.

Ég skráði mig í tvo stærðfræðiáfanga um daginn og byrjaði í þeim báðum fyrir rúmri viku síðan. Ég er ekkert kominn af stað í öðrum áfanganum en í hinum er ég á blússandi siglingu.... eða þannig

sunnudagur, janúar 27, 2008

Í haust fór ég á útsölu og keypt nýja borðtölvu. Sú gamla var orðin þreytt og hægvirk þannig að það var annaðhvort að ráðast í miklar beturumbætur á gömlu vélinni eða bara kaupa nýja. Seinni kosturinn varð ofan á. Þegar ég kom í búðina voru allar vélarnar seldar nema sýningarvélin sem stóð frammi í búð, sölumaðurinn bauð mér að fá hana annars var allt búið, ég þáði það og fór nokkuð ánægður heim en ekkert alsæll. Tölvan var svona skítsæmileg og ekkert meira en það, um daginn þurfti ég svo eitthvað að nota geisladrifið í henni en þá virkaði það ekki þannig að ég brunaði með tölvuna í viðgerð. Ég hélt að það yrði bara skipt um geisladrif og þar með væri allt klárt, svo var ekki. Þegar gripurinn hafði verið nokkra daga í viðgerð hringdi einhver starfsmaður af verkstæðinu í mig og spurði hvað ég vildi geyma af gögnum úr tölvunni, ég svaraði um hæl að ég vildi geyma allt og spurði svo afhverju hann þyrfti að vista gögnin þegar geisladrifið væri bilað. Þá hafði komið í ljós að móðurborðið var ónýtt.

Eftir nokkur símtöl og talsverða bið var tölvan loksins tilbúin og ég fór heim með hana og stakk í samband. Þegar ég ætlaði að vitja gagnanna sem þeir höfðu geymt fyrir mig kom í ljós að þeir höfðu geymt draslið hennar Önnu en mitt finn ég hvergi en aftur á móti áskotnaðist mér myndaalbúmið hennar Siggu sem er sennilega sextán ára og hún og vinkonur hennar byrjuðu greinilega að drekka áfengi í sumar því myndirnar eru þannig. Ég vona að Sigga sé ánægð með það sem hún fékk úr minni tölvu því þar voru myndir af Natalíu Yun og sitthvað fleira sem ég get ekki ímyndað mér að saxtán ára stelpa hafi áhuga á.


Eitt lærði ég á þessu, þegar maður kaupir sér vírusvörn eða önnur forrit á netinu án þess að fá uppsetningardisk þá er rosa sniðugt að kaupa sér pakka sem inniheldur heimild til að hlaða öllu forritinu niður í eitt ár eftir að það er keypt. Ég gerði það þegar ég keypti víruvörn fyrir réttum mánuði, þetta kostaði 8$ minnir mig og kom sér vel þegar ég fékk tölvuna til baka því forritið hafði týnst úr vélinni..

þriðjudagur, janúar 22, 2008

Ég fékk óvenju skemmtilegan tölvupóst í morgun. Hann var frá happdrættinu, þar var mér tilkynnt að ég hefði unnið og ég var spurður hvar ætti að leggja inn. Ég er svo slappur happdrættisspilari að ég man ekki númer hvað miðinn minn er þannig að ég gat ekki flett vinningnum upp á netinu þannig að ég varð að hringja og spyrja hversu ríkur ég væri orðinn.

Ég ætla nú ekki að leggjast í neitt bruðl eða svoleiðis þrátt fyrir skjótfenginn gróða en ég reikna þó með að spila frítt þetta árið.

mánudagur, janúar 21, 2008

Í hádeginu fórum við Natalía í leikfimi. Henni leist nú ekkert meira en svo á þetta því í fyrsta atriðinu áttum við að sitja á gólfinu og klappa saman lófunum og klappa í gólfið til skiptis og syngja upphafslag tímans. Unginn grúfði sig fyrst saman og sló svo í hendurnar á mér til að ég hætti þessu klappi og gjammi. Næst átti að syngja fingralagið og taka í viðkomandi fingur þar sem við átti í laginu, ég reyndi hvað ég gat að rétta úr samakrepptum og löðursveittum fingrunum og halda lagi en án árangurs. Svona gekk þetta allt þar til kom að tækjaleikfimi þar sem börnin fengu að fara í áhaldaleikfimi, þá varð svo gaman að ég ætlaði aldrei að koma henni út úr salnum þegar flautað var til leiksloka. Það var svipuð barátta að ná unganum út úr salnum og hafði verið að fá hana til að rétta úr fingrunum í fingralaginu, eini munurinn var sá að hún var bara sveitt á höndunum þegar ég reyndi að syngja lagið en var öll rennsveitt og hál þegar ég reyndi að koma henni í útigallann.

Þegar mér hafði tekist að klæða ungann og koma henni í skó var stefnan sett beint á bílinn. Það reyndist ekkert mál að koma Natalíu í bílinn og hún var hin sáttasta að setjast inn en vesenið byrjaði þegar ég ætlaði sjálfur að koma mér inn því ég náði í einhverjum klaufagangi að opna hurðina beint á ennið á mér með þeim afleiðingum að stór sá á því. Eða eins og fegurðardrottningin sem ég vann einusinni með sagði snöktandi eftir að hún fékk rispu í andlitið " ég skemmdi á mér andlitið".

Þegar ég hafði náð að klöngrast í sætið og koma mér þægilega fyrir sá ég í speglinum að kúla á stærð við sleikipinna hafði myndast og skarð á stærð við svöðusár var í enninu. Þegar ég hafði svo náð áttum og fuglarnir voru að mestu hættir að syngja í hausnum fór ég að heyra hljóð úr aftursætinu, þau komu frá Natalíu þar sem hún benti á spegilinn þar sem hún sá pabba sinn með svöðusárið og sagði "úff" og "ÓÓ".

Ég komst heim við illan leik með þerripappír á enninu og ungann stynjandi "úff úff" og bendandi á baksýnisspegilinn úr aftursætinu.

miðvikudagur, janúar 16, 2008







þriðjudagur, janúar 15, 2008

Þessi mynd er aðeins neðar á síðunni í upphaflegri útgáfu. Hún er af fánaborg fyrir utan Ikea tekin frá Urriðakotsvatni, hún er tekin á ríflegum hraða.

Nú er fyrsti dagurinn sem ég er einn heima með Natalíu Yun því Anna byrjaði að vinna í morgun. Við erum búin að borða morgunmat og erum að horfa á Skoppu og Skrítlu í átjánhundraðasta sinn síðan um áramót. Mér finnst þær heldur skárri en Teletubbies en mikið óskaplega fær maður mikla leið á þessu efni. En þar sem unginn hefur mjög gaman að þessu þá er þetta spilað samviskusamlega af miklum móð.

Í gær fékk ég tilkynningu í tölvupósti um að auglýsingin, þar sem auglýst var eftir foreldrum eða skyldmennum Natalíu í Kína, væri fundin og ég gæti fengið hana keypta. Ég lét ekki bíða eftir mér og keypti hana strax. Ef ég skildi póstinn rétt þá fæ ég eintak af blaðinu. Hér má sjá hvernig svona auglýsing lítur út. Þess ber að geta að þessi auglýsing er fyrir barn fætt 2003 í Hubei héraði, annað skil ég ekki í henni.

Það er bandarískur maður sem vinnur við að finna þessar auglýsingar. Við fengum reyndar auglýsinguna með Natalíu enda er það víst skylda að láta foreldrana hafa eintak af auglýsingunni því við borgum fyrir birtingu hennar. Auglýsingin okkar var svo illa ljósrituð að það er varla hægt að sjá hver er á henni.

föstudagur, janúar 11, 2008


Við borðuðum kínverskan mat í gærkvöld og létum prjóna hjá Natalíu bara svona að gamni, við vissum að hún gæti borðað núðlur og svoleiðis með prjónunum en vissum ekki að hún gæti tínt upp í sig kjötbita með þeim.










Ég fór og gekk um hverfið í dag meðan ungfrúin fékk sér fegurðarblund.

sunnudagur, janúar 06, 2008

Jæja ég bætti um betur í morgun og gekk á Helgafell á 37 mínútum í stað klukkutíma sem það tók um jólin. Ég á þó enn langt í land með að ná sumartímanum sem var 28 mínútur á þess að blása úr nös.

Þess ber að geta að síðasta brekka sem ég gekk upp áður en ég gekk á Helgafell milli jóla og nýárs var hluti af Kínamúrnum í lok ágúst.

Ég strengdi ekkert áramótaheit en er að spá í að reyna að vera duglegur að koma mér í form þannig að maður geti bætt einhverjum fjöllum í ferilskrána á árinu.

föstudagur, janúar 04, 2008

Ég komst ásamt öldruðum föður mínum í fjallgöngu annan í jólum. Við klifum hið snarbratta og himinháa Helgafell. Við vorum allt of lengi á leiðinni upp enda báðir klofstuttir með eindæmum og snjórinn djúpur.




Ég er ekki byrjaður á húsvarðadjobbinu sem ég skrifaði um í gær, við fengum nefnilega gesti í morgun. Höfuðborgardeild hópsins sem fór til Kína í haust kom í heimsókn og borðaði hádegismat með okkur.

fimmtudagur, janúar 03, 2008

Ég er orðinn heimavinnandi húsfaðir, þetta er djobbið sem mig hefur alltaf dreymt um. Ég er búinn að kaupa mér bláan húsvarðaslopp, gult stanley málband og smiðasvuntu því nú á að taka til hendinni. Ég þarf að breyta vatnslögninni frá þvottavélinni þannig að hún dæli ekki öllu beint í klósettið niðri og svo þarf ég að hengja upp snaga einhversstaðar þar sem Anna vill fá hann (ég tók ekki alveg eftir því hvar hann á að koma en hún hlýtur að minnast á það aftur).

Svo er svona hitt og þetta sem þarf að laga milli þess sem maður skundar út og gefur öndunum og kaupir í matinn.

***

Í dag eru 4 mánuðir síðan ég varð pabbi og Anna varð mamma, alveg magnað að þetta skyldi gerast á sama augnabliki hjá okkur báðum. Natalía Yun dafnar vel og virðist bara hafa það takk fyrir bærilegt hjá okkur þó hún sé ekki alltaf sammála um hvenær eigi að opna munninn og hvenær eigi að loka honum. Hún fellur því bara ágætlega inn í hópinn því pabbi hennar hefur yfirleitt á við sama vandamál að stríða.

***

Við fengum fullt af gestum um áramótin, samtals níu fullorðna gesti og tvo barnagesti. Við elduðum kalkún með fyllingu og allskonar meðlæti sem var ýmist upprunnið í okkar eldhúsi eða gestanna.

Eftir mat, skaup og skál fór ég út og skaut rakettum til hliðar, mínar fóru allar til hægri en nágranni minn hinumegin við götuna skaut sínum til vinstri. Ég ætla ekki að fullyrða hvorum tókst betur upp en allavega náði ég að koma flestu sem eitthvað er varið í í nokkura metra hæð áður en það fauk yfir húsið hjá einhverjum nágrannanum.