föstudagur, febrúar 29, 2008

Í dag er tímajöfnunardagurinn ógurlegi sem kemur bara á fjögurra ára fresti. Ég óska öllum sem eiga loksins afmæli til hamingju.

Ég sendi tölvupóst í byrjun vikunnar til Kínverska sendiráðsins og óskaði eftir mynd sem var tekin af Natalíu með kínverska sendiherranum í veislu sem okkur var boðið í í janúar. Ég reiknaði ekkert frekar með svari við póstinum en svo kom svar í gærkvöld frá þeim með öllum myndum sem hún sést á og þar á meðal þeirri með sendiherranum.

Mig langar nefnilega að senda þá mynd út til barnaheimilisins í Wuxue.

fimmtudagur, febrúar 28, 2008

Nú er komið hálft ár síðan við vorum í Kína. Mér finnst eins og það hafi verið í gær eða fyrradag.

Um helgina fylltumst við áhyggjum yfir því að barnunginn vildi ekki segja til nafns en eins og flestir vita getur verið glæpsamlegt að gera það ekki við ákveðnar kringumstæður. Við vorum búin að reyna allar útgáfur af báðum nöfnunum bæði hægt og hratt, með kínverskum framburði og íslenskum en ekkert gekk. Hún taldi öll möguleg nöfn upp en þegar kom að hennar eigin, sneri hún sér við og fór að raða skónum sínum eða sótti eitthvað dót og sýndi manni eins og það væri löngu týndur fjársjóður.

Ég spurði flesta sem ég þekki sem eiga börn á líkum aldri hvort þeirra börn væru byrjuð að reyna að klæmast á sínu nafni. Svörin voru jafn misjöfn og þau voru mörg, þannig að mér var nokkuð létt. Ég hélt að við hefðum kannski valið rangt nafn og barnið hefði hreinlega hafnað því.

Svo kom það á þriðjudaginn þegar hún var í baði. Hún benti á sjampóbrúsana og sagði: Mamma á, pabbi á og Beitla á. Fyrst tók ég ekki eftir neinu en svo endurtók hún röðina, mamma, pabbi og Beitla. Ég stökk á fætur og smsaði á mömmuna að nafnið væri komið, mamman kom skrensandi heim úr vinnunni og náði varla beygjunni inn á bað. Ég ætlaði aldeilis að leyfa henni að heyra nafnið og benti á sjampóið og byrjaði "mamma á" og reyndi að fá barnið til að botna fyrir mig. Hún horfði á mig og byrjaði"mamma á, pabbi á og áá....." ekki kom það eftir pöntun.


Í gær kom svo nafnið oft og mörgumsinnum þegar við vorum að drekka síðdegissopann og þá fékk mamman að heyra líka.

þriðjudagur, febrúar 26, 2008

Ég vaknaði óþægilega snemma við að ég fékk hælspark í augað. Unginn hefur þann leiða vana á nóttunni að vilja sofa á milli okkar. Rúmið er alveg nógu breitt til að bera okkur öll,,,,, þ.e ef allir sofa í sömu stefnu, unginn er ekki búinn að fatta það og er eins á nóttunni og daginn, semsagt þversum.
Þetta kostar það að oft á tíðum tapar maður koddanum sínum annaðhvort undir lappir sem sparka stöðugt alla nóttina eða hreinlega að hún kemur og ýtir geðvonskulega á hausinn á manni og reynir óvinveitta yfirtöku á koddanum. Ef maður gefur sig ekki og ætlar að halda koddanum þá fer hún út í þvingunaraðgerðir og leggst ofan á hausinn á manni og reynir þannig að fæla mann af koddanum.

Þessi yfirgangur þýðir oftar en ekki að ég vakna hálfur í barnarúmi með pínulítinn og allt of lítinn kodda og að drepast í bakinu sökum stífleikamunar á dýnunum í barnarúminu og mínu rúmi.

Oft er það þannig að unginn leggst á koddann hjá mömmu sinni og notar þá minn kodda sem fóthvílu. Til þess að komast þangað þarf hún að klofa yfir mig, (eins og það sé hindrun) það gerir hún með því að stilla sér upp með bakið í vegginn og tekur svo þrjú skref áður en hún sveiflar löppinni upp í loft og klofar yfir mig. Þetta væri kannski í lagi ef hún væri nógu kloflöng til að gera þetta án þess að hlunkast á mig og leka svo niður hinumegin.

Ég er mikið að spá í að fara niður í geymslu og finna rimlana í rúmið hennar og girða hana af í rúminu.

sunnudagur, febrúar 24, 2008

Ég hélt með Dr Spock en unginn dansaði við sigurlagið.

fimmtudagur, febrúar 14, 2008

Þar sem jökullinn á lóðinni hefur hopað er sandkassinn kominn í ljós aftur. Ég skildi ekki afhverju enginn krakki hefur setið í kassanum mánuðum saman þannig að ég ákvað að klæða ungann upp og fara út að moka. Þegar ég var búinn að sitja í tvær mínútur á barminum á kassanum sá ég hvar einhver brún klessa lá í sandinum, ég greip litla skóflu og skaut einni skítaklessu úr kassanum, svo settist ég aftur. Eftir smá stund sá ég aðra klessu, svo ég stóð upp og skaut henn líka út í buskann.

Ég var varla sestur þegar ég sá að allt er morandi í þessu ógeði í kassanum svo ég kippti unganum upp úr og við fórum að róla í staðinn. Þar sem ég er einn af eigendum þessa sandkassa þá ætla ég að fara í krossferð gegn þessum ferfættu skítamaskínum og auglýsi hér með eftir leiðum til að farga þessum ófögnuði. Ég er ekki með byssuleyfi og á ekki byssu, auk þess þætti ekki vel til fundið að skjóta úr byssu á sandkassann þannig að ég verð að finna aðra leið.

Ef einhver kann gott trix til að veiða og farga köttum þá má sá hinn sami láta mig vita og ég mun prófa aðferðina.

sunnudagur, febrúar 10, 2008

Það er enn neyðarástand í Kína vegna kuldakastsins sem hefur verið þar síðan í janúar. Mikil neyð ríkir á mörgum barnaheimilum vegna skorts á nauðsynjavörum og vegna rafmagnsleysis. Hér má sjá hvað vantar á barnaheimilin og hvert ástandið er, listinn er víst ekki tæmandi.

Í Wuxue er ástandið svona: Wuxue City SWI, Hubei - for 38 children 0-6, they request winter clothing and underwear, quilts, 28 pairs of shoes, 38 hot water bottles and 4000 diapers. Total reques: 15380 yuan.

Það er hægt að styrkja barnaheimilin með því að smella á litlu rauðu músina efst á síðunni. Ég fann enga leið til að gefa beint til Wuxue þannig að ég setti bara nokkra dollara í pottinn.

fimmtudagur, febrúar 07, 2008

Hér var dagurinn tekinn snemma og brunað út með snjósköfuna til að lemja mestu klakabrynjuna af bílnum. Ferðinni var heitið á heilsugæsluna til að fá sprautu í ungann. Tilhlökkunin var engin því af fenginni reynslu eru þetta engar skemmtiferðir og þær hafa náð hámarki þegar læknirinn tekur upp sprautuna. Pabbinn var alveg sveittur af stressi því það var búið að lýsa þessum ferðum sem svæsnustu öskuræfingum. Það er skemmst frá því að segja að unginn var eins og ljós í skoðuninni og rétt kveinkaði sér þegar stungan kom í handlegginn og smá þegar hæðin var mæld en annars var ekkert til að kvarta undan.

Trixið er að ég sagði við hana áður en við fórum inn að ef hún væri sterk og harkaði af sér þarna inni þá fengi hún stóran ís þegar við kæmum heim. Það virðist hafa dugað því um leið og við komum inn um dyrnar byrjað hún að veina Ís,Ís,Ís.


***

Nú erum við að hlusta og horfa á söngvaborg, mér finnst þetta svo leiðinleg spóla að ég er að spá í að taka hana úr og setja teletubbies í í staðinn. hollirassirí og hollirassira

djös ógeð