laugardagur, júlí 30, 2005

Heimsókn

Þessi maður kom í heimsókn með mömmu sinni í kvöld og fékk að kynnast hvernig vasaljós virka. Eins og sést á myndinni er hann mjög hissa á þessum stauk sem varpar ljósi á veggina.

Til hamingju

Til hamingju með afmælið Auður.

Auður systir á afmæli í dag, ég fer í kaffi til hennar í dag.

föstudagur, júlí 29, 2005

Út úr bænum

Við pabbi fórum út úr bænum í gær. Stefnan var sett á Hítardal á mýrum, Hítarvatn er í Hítardal og stangirnar voru með í för. Við mættum seint á staðinn, upp úr hádegi, og aflabrögð voru treg framan af. Ég fékk einn fisk á fyrstu mínútum veiðinnar og svo gerðist ekkert í langan langan tíma, eða ekki fyrr en við vorum búnir að færa okkur alveg inn í botn við tangann sem við byrjuðum að veiða í. Þá var klukkan orðin fimm og við orðnir ákveðnir í að veiði dagsins yrði ekki meiri en þessi eini fiskur. Þá byrjaði pabbi á að kasta út og um leið beitt vænn urriði á hjá honum, sá var ekki á að koma við á pönnunni hjá Magnúsi þannig að hann reyndi hvað hann gat að sleppa en án árangurs.

Inni í þessum botni við hraunið fengum við sitthvora fjóra fiskana á nokkrum mínútum þannig að við vorum komnir með fisk í sitthvora máltíðina. Við komum svo sælir og glaðir heim klukkan tíu í gærkveld.


Ég er að drepast í fótunum eftir að standa í vatnsborðinu. Vatnsborðið þar sem við vorum að veiða er nefnilega í hrauni og allir steinarnir eru valtir og hálir þannig að maður stendur ýmist á vaggandi grjóti eða rennur niður það ofan í einhverjar skorur sem meiða mann í fótunum.

****

Meinvill eyðsluseggur fór í gær í bæinn í comfort shopping. Hún keypti sófasett. Og afsökunin er hver? Þú fékkst að fara að veiða þannig að ég mátti kaupa sófa.

Svona er þetta, næst býð ég henni með og læt hana jafnvel hafa stöng.

fimmtudagur, júlí 28, 2005

Þetta er Meinvill

Þetta er Meinvill í sandalafjallgöngu ofan við Flókalund í Vatnsfirði. Þegar við komum niður af fjallinu sáum við tvo yrðlinga sem voru hvorki með klút um hálsinn né í blárri skyrtu. Þetta voru bara tveir litlir refir sm léku sér á þjóðveginum. Ég á eina vonda mynd af þeim og set hana inn við tækifæri.

Menning og aftur menning

Ég fór í Elko í dag til að finna stafrænan hitamæli í eldhúsið þannig að maður viti hversu kalt verður í vetur. Ég fann engan eftir litla sem enga leit en keypti aftur á móti stafræna eldhúsvigt í staðinn fyrir þá sem ég kýldi til bana um daginn og tvær dvd myndir sem voru á þessu líka fína tilboði. Önnur er einhver mynd með Johnny Depp. Hin er hið 37 ára gamla meistaraverk "Yellow submarine". Þetta er eina bítladótið sem ég á.

Ég vissi ekki að þetta væri svona mikil snilldar mynd, hún fær margar stjörnur. Ef það hafa ekki allir séð hana þá er henni sennilega best lýst sem jafn steiktri og teiknimyndirnar í upphafi Monty pythons myndanna.

Ef einhver hefur áhuga á að koma og kíkja á ræmuna þá er ekkert annað að gera en að bjalla og finna tíma til að troða myndinni í tækið.

miðvikudagur, júlí 27, 2005

Ferðasagan

Við lögðum af stað úr bænum á miðvikudag fyrir viku. Stefnan var sett á Snæfellsnes í fyrstu, á Mýrunum keyrðum við út úr sólinni og undir skýjaþak og þaðan aftur inn í smá sól á Arnarstapa. Við fengum okkur labbitúr niður að klettunum á Arnarstapa og skoðuðum gataklettana og götin sem sjór spýtist upp um í sterkri sunnanátt. Þetta var allt assgoti magnað. Daginn eftir brunuðum við norður fyrir nesið og gegnum alla þéttbýlisstaðina nema Stykkishólm.

Næsta stopp var gert við Rauðamelsölkeldu þar sem kolsýrt vatn steymir upp úr jörðinni í fallegri lind. Við gripum með okkur bolla til að smakka á herlegheitunum, mér fannst bragðið bara nokkuð gott en Anna gretti sig eitthvað og afþakkaði annan bolla.
Þegar við vorum búin að labba að keldunni vorum við orðin svöng þannig að við brunuðum sem leið lá inn í Hítardal og grilluðum þar.

Við enduðum kvöldið á hótel Hamri í Borgarnesi, það er nýtt hótel á golfvellinum með kókdósinni. Það var fínt að gista í rúmi en ekki á vindsæng.

******

Svakalega held ég að mótorhjólamönnunum sem keyrðu á eftir okkur á Mýrunum hafi brugðið þegar þeir mættu trailer með gröfu eð ýtu. Þannig vildi nefnilega til að ég sá að eitt hjólið á aftanívagninum hegðaði sér undarlega undir vagninum. Ég leit í spegilinn um leið og ég hafði mætt vagninum, um leið og mótorhjólamennirnir mættu trailernum,hvellsprakk á aftanívagninum með tilheyrandi hávaða og rykmekki. Ég er ekki frá því að manni hefði brugðið því ég var kominn c.a 300 metra frá trailernum og heyrði samt hvellinn vel þó ég keyrði á milli 90 og 100 kílómetra hraða.

þriðjudagur, júlí 26, 2005

Þetta er önnur myndin úr túrnum



Hún er tekin á Mýrunum.

mánudagur, júlí 25, 2005

Sumarfrí

Við skruppum í ferðalag út á land í síðustu viku og komum ekki heim aftur fyrr en upp úr hádegi í dag. Myndin var tekin á týpískum póstkortatökustað fyrsta kvöld ferðarinnar. Fleiri myndir koma inn á morgun.

þriðjudagur, júlí 19, 2005

Labbi labbi labb

Ég fór í labbitúr með þriðjudagsgönguvinafélaginu áðan. Við fórum um hálendi Hafnarfjarðar í leit að merki nr.12. Merkið fannst eftir skamma leit. Við Meinvill höfðum farið á sunnudaginn og leitað fram og til baka að merkinu en án árangurs. Við sáum það þegar búið var að gala á okkur að merkið væri fundið að við höfðum nánast hrasað um það á sunnudag.

*****

Í fyrrakvöld sat ség einn fram á nótt í lazyboy og horfði á Big Lebowski, þegar ég var búinn að sjá Dude drekka hvern white russian á fætur öðurm var mig farið að langa í líka, þannig að ég fór í aukaefnið á diskinum og fann uppskriftina að drykknum. Ég átti allt efnið í drykkinn þannig að ég gat mallað hann á mettíma og hlunkast við sjónvarðið aftur og haldið áfram að horfa á Dude án þess að öfunda hann af drykknum hans.

mánudagur, júlí 18, 2005

Þetta er Hrútagjá. Við vorum þar í gær. Posted by Picasa

Rólegt

Ég held það hljóti að vera orðið frekar rólegt hjá tuktaranum þegar þeir eru farnir að senda fíknó á tónleika í vinnutímanum. Ég skil reyndar ekki afhverju hundurinn var tekinn með því ég held hann hafi ekki neitt gaman af rappi. Eftir tónleika Snoop Dog eru fyrirsagnirnar þessar:Vísir: "fíkniefni á tónleikum", Textavarpið:"Tónleikar Snopp Dog gengu vel". Hvaða bull er þetta afhverju þarf að senda fíkniefnahund á tónleika hjá rappara og afhverju þarf að taka sérstaklega fram að tónleikarnir gengu vel? Efaðist einhver um að þeir kæmu til með að ganga vel?

Var fíknó send með hundinn á Þingvelli þegar Paul McCartney gisti þar? Hann hefur verið tekinn með fíkniefni. Var leitað á Mick Jagger á Ísafirði um árið? Hann hefur allvega séð dóp einhversstaðar.

Ég held þetta sé soldið vitlausar starfsaðferðir að eyða kröftum í að hlaupa á eftir hverjum og einum fíkniefnaneytanda og gera skýrslu um 0,5g af hassi. Það er eins og að slá akur með naglaklippum.

sunnudagur, júlí 17, 2005

Helgarfríið

Þá er helgarfríið að verða búið og sumarfríið að taka við. Býst við að fyrstu dagar sumarfrísins fari í lagfæringar á bílunum þannig að þegar fríið verður búið getum við brunað í vinnuna á þess að vera bilandi í öllum helstu köntum bæjarins.

****

Ég sá í fréttablaðinu á miðvikudaginn að það var einhver frægur útlenskur leikari sem stóð á tánum á mér á tónleikunum á mánudagskvöldið. Fór og kíkti, hann heitir víst Gael Garcia Bernal og lék í myndunum: Amores perros og Diarios de motocicleta. Ég er bara svo lítið inni í bíó bransanum að ég þekkti ekki þennan ágæta leikara sem þarna stóð á tánum á mér stóran hluta tónleikanna. Mér fannst hann pínulítið kunnuglegur en var ekki viss hvaðan og tengdi hann allavega ekki við kvikmyndaleik. Hélt hann hefði kannski verið í Iðnskólanum á sama tíma og ég eða eitthvað svoleiðis. Hvað veit maður þegar maður fer aldrei í bíó?

****

Ég ætla að fara út að labba á eftir, ég á eftir að kíkja út um gluggann til að sjá hvort það er gönguveður eður ei. Stefnan er sett á að sækja annaðhvort eitt merki eða að skoða Lambafellsgjá. Ég hef aldrei komið þangað.

Ættarmót í Borgarfiði og rigningu

Við fórum á árlegt ættarmót í gær uppi í Borgarfirði. Þar var rigning og aftur rigning en fyrst og fremst gaman. Ég er búinn að henda myndum inn í albúmið mitt.

miðvikudagur, júlí 13, 2005

Vandræðagangur

Það var einhver vandræðabragur á bæjarferðinni minni í dag. Ég fór sem leið lá akandi frá Grandanum og upp á Skólavörðuholt og aftur til baka. Þetta kann að hljóma mjög einfalt og ætti ekki að taka mikið meira en 8 mínútur ef umferðin er skapleg.

Byrjum á byrjuninni bíllinn hökti af stað fyrstu hundrað metrana frá kaffiskúrnum eins og alltaf þegar hann er kaldur. Þegar planinu sleppti ók ég sem leið lá um Geirsgötu og beygði inn Lækjargötu og hugðist því næst beygja upp Hverfisgötu en sá þá við gatnamótin skilti sem sagði að Hverfisgata væri lokuð við Klapparstíg. Ég sneri við og fór út á Sæbraut sem er vel á minnst mikið lengri leið. Ég komst upp á Skólavörðuholt á mun lengri tíma en ég hafði áætlað í túrinn þannig að þegar ég lagði í stæðið við Iðnskólann var ég að verða knappur á tíma (átti ekki klink í stöðumæli). Ég hljóp við fót niður í tólf tóna og spurði hvort þeir ættu tvær plötur sem ég var að leita að, en önnur var uppseld og hin ekki væntanleg fyrr en seinna í dag.

Ég hljóp aftur af stað upp Skólavörðustíg, ég kom móður og másandi í bílinn sem hökti ekki af stað af því hann var ekki orðinn kaldur og brunaði niður næstu götu með stefnuna á Sæbraut. Ég var náttúrulega búinn að steingleyma að Hverfisgata væri lokuð þannig að þegar ég kom niður á Laugaveg blasti við mér lokunarskilti sem gaf til kynna að ég mætti ekki þokast nær Hverfisgötu. Ég keyrði niður Laugaveginn og vonaði að enginn sæi til mín því ég var orðinn of seinn úr mat.

Lendi ég þá ekki bara í einhverri skelfilegri röð farlama kellinga sem voru að skoða kjóla út um bílgluggann inn um búðargluggann. Ó boj hvað Haukurinn var orðinn pirraður á að hanga á eftir þessum farlama kelllingum sem skutluðu einni og einn valíum upp í sig þegar hraðamælirinn nálgaðist 5Kmh ískyggilega. Ég komst niður Bankastrætið nokkurnveginn við þolanlega geðheilsu en þó með hvíta hnúa og stífa kjálka. Þar sem ég sit í nasistavagninum og bíð eftir græna ljósinu á umferðarvitann deyr á bílnum. Þegar ég segi deyr á bílnum er það ekki eins og maður grípi bara í lykilinn og setji hann í gang aftur, neibb ég mátti fyrst láta hann renna niður Bankastrætið og beygja svo inn að Stjórnarráðinu, í því að ég tek beygjuna inn að stjr stekkur ein Valíumkellingin fyrir bílinn(hún á grænum kalli) og drattast nánast ekki áfram þannig að ég varð að stoppa fyrir henni sem var slæmt því það var jafngildi vélarleysis í bílnum hjá mér og ég mátti snarast út og ýta helvítis dósinni í stæðið hans Dóra sem er í Japan að láta taka myndir af sér.

Ég fékk að dúsa í stæðinu hans Dóra í tíu til fimmtán mínútur eða þar til nazi fór í gang og ég var búinn að bölva á íslensku, dönsku, færeysku og svo sletti ég enskum fúkyrðum inn í líka en án árangurs. Ég kom hálftíma of seint úr mat og munaði minnstu að ég keyrði bílinn beint í ruslagáminn.

Þekki ég þig?

Í gær lenti ég í smá uppákomu. Ég er með eitthvað assgotans ofnæmi fyrir einhverju sem ég veit ekki hvað er, en ég veit að ákveðnar pillur sem hægt er að kaupa gegn vægu okurverði slá á ofnæmið. Allir glaðir og ég get andað með nefinu. Ég fór með lyfseðilinn minn í apótek og skellti honum á borðið fyrir dobbúl skammt af pillunum. Svo beið ég eftir að fá heilt bretti af pillum til að gleypa næstu mánuðina. Þar sem ég beið kom afgreiðslukona sem var ekki að aðstoða mig og bauð mér gott kvöld, ég tók undir kveðjuna og sýndi með látbragði að ég væri búinn að fá afgreiðslu og vantaði ekki meiri afgreiðslu í bili.

Svo leið mínúta og afgreiðslukonan kom aftur og bauð mér aftur gott kvöld. Ég hef sennilega orðið eitthvað skrýtinn í framan því hún flýtti sér að spyrja hvort ekki gæti verið að ég væri sonur Sigrúnar. Ég játti því, smá vandræðaleg þögn og svo spurði hún hvort ég þekkti sig. Ég varð bjánalegri í framan og roðnaði sennilega aðeins meðan ég reyndi að rýna í nafnspjaldið sem hún bar í barminum.

Nafnið klingdi engum bjöllum, hvorki bjöllunum í ættartrénu né öðrum trjám eða greinum. Neeeeiiii ég er bara lens. Þá kom það, ég passaði þig á leikskólanum þegar þú varst þar. Þú varst alltaf svo þægur og góður. Þá greip ég fram í og sagði henni að sennilega væri hún nú farin að gleyma einhverju, ekki vilja allir meina að rauðhærði undirförli stríðnispúkinn hafi alltaf verið stilltur.

Næst spurði hún mig hvað væri að frétta af mér, aftur roðnaði Haukur og spurði í fávisku sinni: Viltu síðustu 30 ár eða bara undanfarin ár? Hún tók stutt æfiskann með almennum spurningum og bað svo að heilsa mömmu. Ég var svo aldeilis hissa.

þriðjudagur, júlí 12, 2005

Gæsahúð

Gæsahúð er sennilega orðið sem lýsir best tónleikum Anthony and the Johnsons í gær, ekki veit ég hvort "Johnsons" stendur fyrir typpalingar í nafninu en ég væri nú ekki hissa á því. Í það minnsta er enginn Johnson í bandinu. þannig að ég held þetta sé smá grín hjá kallinum.

Anthony er rytjulegur kall með himneska rödd og góðan húmor.

Við mættum snemma til að fá nú borð og stóla, það gekk ekki eftir því það voru einhverjir mættir á undan okkur og auk þess hefði maður ekki séð mikið sitjandi við borð. Nasa er ekki góður tónleikastaður staðurinn er of þröngur, of mikill hávaði frá barnum sem truflaði tónlistina og engin loftræsting.

Ég skil ekki þá ranghugmynd Íslenskra skemmtistaðaeigenda að halda að það sé ekki nokkur leið að skemmta sér nema búllan sé kynnt eins og kjarnorkuver. Bar Rhumba er einn þrengsti skemmtistaður sem ég hef komið á, staðurinn er undir götunni rétt við Picadilly í London en einhvernveginn í ósköpunum hafa þeir náð að skrapa saman í einn viftuspaða til að koma ólofti út af staðnum og fersklofti inn í staðinn.

Þetta mættu Íslendingar taka sér til fyrirmyndar. Allavega bætir það ekki skemmtun mína á nokkurn hátt að koma angandi eins og hangikjöt og með súr augu út af tónleikum.

Það var svo heitt á Nasa að píanóið hans Anthony var orðið falskt áður en tónleikarnir byrjuðu, fólk getur svo ímyndað sér hvernig hitinn varð eftir að tónleikarnir byrjuðu.

Af fimm mögulegum fær hljómsveitin fimm stjörnur og á sama skala fær staðurinn tvær.

*****

Ég er dóni! Ég sagði stundarhátt við Meinvill að stelpan sem tróð sér fyrir okkur og settist á tærnar á Meinvill ,væri með stóran rass. Skömmu síðar sagði hún vinkonu sinni að hún ætlaði að skreppa fram að reykja..... hún fór fjóra metra til hliðar og púaði þar.

*****

Nú eru bara fáir dagar í sumarfrí mmmmmm sumarfrí

sunnudagur, júlí 10, 2005

Veiði eða myndir

Við pabbi fórum að veiða í dag. Aflinn var lítill sem enginn en ég tók myndir og setti inn í albúmið.

laugardagur, júlí 09, 2005

Flott músík

Ég kveikti á sjónvarpinu áðan. Það var ekki búið að vera kveikt lengi þegar lag með Kúrekum norðursins var spilað á sjá einum. Þetta er nú meiri fíneríis hljómsveitin, ég hreinlega skil ekki afhverju ég finn ekkert um á þá á allmusic. Þetta er dúett, sennilega að norðan, langt að norðan. Annar kallinn er hálf tannlaus, með rytjulegt skegg og beyglaðan kúreka hatt. Þeir sungu um sextán ára stelpu sem leit ekki við þeim fyrir c.a 40 árum. Myndbandið er sennilega tekið upp á heima vídeómyndavél af afkomanda annars helmingsins.

Held samt að þetta hafi ekki átt að vera neitt sérlega fyndið.

****

Við pabbi ætlum að fara að veiða á morgun. Stefnan er sennilega sett á Veiðivötn sunnan Tungnár. Ég er spenntur.

****

Ég er hættur við að finna upp tímavél. Mig dreymdi áðan(undir hádegi) að tímaferðalög væru svo einföld í dag að það væri ekkert mál að skjótast í mat með framliðnum. Ég var ekki hrifinn af hugmyndinni þegar hringt var á dyrnar hjá mér og mér sagt að opna því það væri kominn gestur í mat. Þar var komin sprell lifandi manneskja sem hefur verið látin í hátt í áratug. Mér fannst mjög óþægilegt að fá hana í heimsókn því ég vissi ekki hvort hinir höfðu sagt henni að hún væri dáin.

Og mig sem hefur dreymt svo um að geta ferðast um í tíma, þar fór það.

****

Við meinvill ætlum að skjótast og finna eitt eða tvö merki á eftir. Ég ætla líka í ríkið og bæta á bjórvömbina.

föstudagur, júlí 08, 2005

Mig langar í frí

Það er heil vika þangað til ég fer í frí. Ég er alveg að verða galinn á vinnunni, ekki svo að skilja að ég vilji hætta í vinnunni heldur langar mig bara óskaplega að bregða mér eitthvað úr bænum eða landi hífa/slaka bara gera eitthvað annað en að vera í munstrinu.

Í dag var kæfandi fýla í vinnunni, það var verið að prufuvinna eitthvað lýsi sem var hálf skrýtin lykt af.

****

Mig langar til London þrátt fyrir að það hafi allt verið sprengt í tætlur þar. Það er svo skrýtið að það myndi ekki hvarfla að manni að fara á límingunum út af heiglum sem vega fólk úr launsátri.

fimmtudagur, júlí 07, 2005

Helgin framundan

Ég ætla að fara að veiða um helgina, ef einhver vill koma með þá er best að hringja bara í mig. Það væri ekki verra að veiða einn svona.

Ég vona að Meinvill fari í golf á meðan því sumarið er hálfnað án þess að sveiflan hafi verið æfð.

Þá er það alvaran maður

Það fór hrollur um mann í morgun þegar fréttist af sprengjutilræðunum í London. Fyrsti hrollurinn kom þegar fréttist að sprengja hafði sprungið á Liverpool street station. Það er einmitt stöðin sem Stansed express fer um, næst frétti ég að strætó hafði sprungið við Russell square, hótelið sem við vorum á síðast þegar við vorum í London er einmitt við Russell Square. Ekki lagaðist það mikið þegar maður heyrði um allt hitt sem sprakk.

Ég þekki einn sem rétt slapp við sprenginguna á Kings Cross. Það er hann Steini vinur Bauna bró, hér eru þeir einmitt á góðri stund saman og Jói er þarna á bakvið vitleysingana tvo (Steini er sá vinstramegin)
Mér skilst að sprengjan á Kings Cross hafi sprungið örfáum mínútum eftir að Steini fór með lestinni frá stöðinni.

Hér má sjá nýtt albúm sem ég er bara búinn að setja nokkrar myndir frá Russell square inn, ég ætla að bæta myndum inn í það þegar þar að kemur.

*******

Annars er magnað hvað Íslendingar eru óstundvísir alltaf, þeir geta ekki einusinni drullast til að mæta á réttum tíma til að verða vitni að heimsfréttum. Held að allir sem var talað við út af hryðjuverkunum í morgun hafi sofið yfir sig eða verið á einhvern hátt seinir fyrir og því gátu þeir ekki sagt alveg til um hvað gerðist....... dööööö

Þeir áttu líka flestir að vera í lestunum og strætónum sem sprungu, þeir áttu það líka sameiginlegt að ferðast alltaf með vagninum/lestinni sem sprungu. Nema í þetta eina sinn því í dag sváfu þau öll sem eitt yfir sig.

*******

Skemmtileg auglýsing sem er alltaf í útvarpinu þessa dagana: Mæðgur og vinkonur Unnur Steinsson og Unnur dóttir hennar, konur og kókaín glæpur en ekki lífstíll, Nýtt líf á næsta blaðsölustað. Hvernig á maður að skilja þetta þegar þessu er slett svona í eyrun á manni?

Mættur í eigin útför sem var gerð frá bílakirkjugarðinum Furu. Posted by Picasa

Segir sig sjálft bíll+ruslahaugur=drasl Posted by Picasa

Þarna er verið að rífa dekk undan Posted by Picasa

Svona skildi ég við trukkinn í gær. Ef myndin prentast vel má sjá hönd undan bílnum og tár renna niður vangann á mér. Posted by Picasa

þriðjudagur, júlí 05, 2005

Heitt

Assgoti var heitt að vinna upp undir rjáfri í dag. Það er ekki gott að vinna við að einangra í svona miklum hita og sérstaklega ekki ef maður er að vinna með glerull sem klístrast á ennið, bringuna og augnlokin.

*****

Ekki veit ég hvort ég er spenntari að fara í frí eða að losna við einn vinnufélaga minn í frí, hann fer viku á undan mér í frí þannig að maður þarf bara að umbera hann í þrjá daga enn.

*****

Djöfull verð ég feginn þegar ég verð búinn að henda jeppanum.

*****

mánudagur, júlí 04, 2005

Hremming

Við lentum í hremmingu um helgina. Athöfnin fór farm í kirkju í Kópavogi, ég er ekki sjúr á hvað þessi kirkja heitir en hún er einhversstaðar ekki langt frá Byko. Ekki skil ég afhverju er verið að byggja þessar kirkjur út um allt því það mætir ekki nokkur maður í messur. Ef fermingin hefði ekki dregið nokkra að hefðu kirkjugestir verið 2. Ég er ekki að grínast tveir segi og skrifa.

Þarna var 1stk kór, 1stk meðhjálpari(skrýtinn), 20stk fermingargestir, hljóðmaður frá útvarpinu, organisti og 2stk kirkjugestir. Annan gestinn sá ég ekki en hinn sá ég því hann kom rétt á undan okkur Önnu og lagði í nokkur stæði á smábílnum sínum.

p.s. messan var í útvarpinu og kirkjan heitir Hjallakirkja.

******

Swakalega hlakka ég til að komast í frí. það er bara ein vinnuvika og fjórir vinnudagar eftir þangað til. Jamm 15. júlí.

******

laugardagur, júlí 02, 2005

Þessi er góður

Þetta er síðan hans Halla sem sat stundum með okkur bræðrum á Bíóbarnum sáluga og gott ef maður sá hann ekki á Thomsen og Rósenberg líka. Varúð! ef þið ætlið að halda áfram að vera í fýlu skulið þið ekki lesa síðuna hans. Maðurinn er perla.

Ég man eftir honum einhverntíman þar sem hann kom móður og másandi inn á Bíóbar ásamt stærsta vini sem hægt er að eiga 220cm og 0,2 tonn. Þeir höfðu setið inni á gamla Grandrokk (sirkus síðast þegar ég vissi) þegar eitthvað sjúskað hyski kom inn á staðinn og settist einmitt við borðið hjá þeim. Hópurinn samanstóð af einni fyllikellingu og tveimur köllum, annar þeirra var bara með eina hönd. Hér kemur samtal þeirra nokkurnvegin eins og Halli sagði mér það.

Fyllihyski: Þið eruð nú meiri aumingjarnir
Halli: ummm
Fyllihyski: Þið skulið sjá um tölvurnar og þá getum við séð um sjóinn (geðveikur díll)
Halli:ummm
Fyllihyski: Þið eruð aumingjar og kunnið ekki neitt, látið okkur bara um sjóinn og þá getið þið séð um tölvurnar.

Þegar þetta hafði gengið svona um hríð fór að síga í Halla og hann sennilega að svitna á efri vörinni.
Fyllihyski:Látið okkur bara sjá um sjóinn aumingjarnir ykkar og þá getið þið séð um tölvurnar. Þá sprakk Halli og bað þann einhenta að klappa fyrir sig, með það sama máttu þeir stökkva á fætur og taka til fótanna út af staðnum og þessvegna voru þeir sveittir og móðir þegar þeir komu á Bíóbarinn.

föstudagur, júlí 01, 2005

Þannig fór það

Ég var að baka þegar hún sveik mig. Hún hætti bara allt í einu, sagðist ekki hafa orku í að halda áfram. Ég sló hana svo fast beint ofan á að mig verkjaði í hnúana á eftir. Eftir það sýndi hún engin viðbrögð. Ég veit ég gerði ekki rétt með að slá hana en það fauk bara í mig því tímasetningin var frekar slæm þegar hún lét mig vita að orkan væri á þrotum.

Nú voru góð ráð dýr því ég gat ekki haldið áfram að baka án hennar. Ég fór því út í kauffélag til að athuga hvort ég gæti fengið aðra. Sú sem ég sá fyrst vildi fá of mikið fyrir að koma með heim þannig að ég sneri mér að þeirri næstu sú var til í að koma með fyrir einn þriðja af verði hinnar.

Ég kippti henni með og dreif mig heim í eldhúsið. Nýja gengur ekki fyrir batteríum þannig að ég ætti ekki að verða fyrir geðsveiflum út af orkuleysi.

******

Við erum að fara í fermingu á Sunnudaginn. Nei það eru ekki páskar og ekki hvítasunna heldur eru sænsku nýbúarnir komnir hingað til lands til að láta ferma miðjumoðið.