þriðjudagur, júlí 12, 2005

Gæsahúð

Gæsahúð er sennilega orðið sem lýsir best tónleikum Anthony and the Johnsons í gær, ekki veit ég hvort "Johnsons" stendur fyrir typpalingar í nafninu en ég væri nú ekki hissa á því. Í það minnsta er enginn Johnson í bandinu. þannig að ég held þetta sé smá grín hjá kallinum.

Anthony er rytjulegur kall með himneska rödd og góðan húmor.

Við mættum snemma til að fá nú borð og stóla, það gekk ekki eftir því það voru einhverjir mættir á undan okkur og auk þess hefði maður ekki séð mikið sitjandi við borð. Nasa er ekki góður tónleikastaður staðurinn er of þröngur, of mikill hávaði frá barnum sem truflaði tónlistina og engin loftræsting.

Ég skil ekki þá ranghugmynd Íslenskra skemmtistaðaeigenda að halda að það sé ekki nokkur leið að skemmta sér nema búllan sé kynnt eins og kjarnorkuver. Bar Rhumba er einn þrengsti skemmtistaður sem ég hef komið á, staðurinn er undir götunni rétt við Picadilly í London en einhvernveginn í ósköpunum hafa þeir náð að skrapa saman í einn viftuspaða til að koma ólofti út af staðnum og fersklofti inn í staðinn.

Þetta mættu Íslendingar taka sér til fyrirmyndar. Allavega bætir það ekki skemmtun mína á nokkurn hátt að koma angandi eins og hangikjöt og með súr augu út af tónleikum.

Það var svo heitt á Nasa að píanóið hans Anthony var orðið falskt áður en tónleikarnir byrjuðu, fólk getur svo ímyndað sér hvernig hitinn varð eftir að tónleikarnir byrjuðu.

Af fimm mögulegum fær hljómsveitin fimm stjörnur og á sama skala fær staðurinn tvær.

*****

Ég er dóni! Ég sagði stundarhátt við Meinvill að stelpan sem tróð sér fyrir okkur og settist á tærnar á Meinvill ,væri með stóran rass. Skömmu síðar sagði hún vinkonu sinni að hún ætlaði að skreppa fram að reykja..... hún fór fjóra metra til hliðar og púaði þar.

*****

Nú eru bara fáir dagar í sumarfrí mmmmmm sumarfrí