fimmtudagur, júlí 07, 2005

Þá er það alvaran maður

Það fór hrollur um mann í morgun þegar fréttist af sprengjutilræðunum í London. Fyrsti hrollurinn kom þegar fréttist að sprengja hafði sprungið á Liverpool street station. Það er einmitt stöðin sem Stansed express fer um, næst frétti ég að strætó hafði sprungið við Russell square, hótelið sem við vorum á síðast þegar við vorum í London er einmitt við Russell Square. Ekki lagaðist það mikið þegar maður heyrði um allt hitt sem sprakk.

Ég þekki einn sem rétt slapp við sprenginguna á Kings Cross. Það er hann Steini vinur Bauna bró, hér eru þeir einmitt á góðri stund saman og Jói er þarna á bakvið vitleysingana tvo (Steini er sá vinstramegin)
Mér skilst að sprengjan á Kings Cross hafi sprungið örfáum mínútum eftir að Steini fór með lestinni frá stöðinni.

Hér má sjá nýtt albúm sem ég er bara búinn að setja nokkrar myndir frá Russell square inn, ég ætla að bæta myndum inn í það þegar þar að kemur.

*******

Annars er magnað hvað Íslendingar eru óstundvísir alltaf, þeir geta ekki einusinni drullast til að mæta á réttum tíma til að verða vitni að heimsfréttum. Held að allir sem var talað við út af hryðjuverkunum í morgun hafi sofið yfir sig eða verið á einhvern hátt seinir fyrir og því gátu þeir ekki sagt alveg til um hvað gerðist....... dööööö

Þeir áttu líka flestir að vera í lestunum og strætónum sem sprungu, þeir áttu það líka sameiginlegt að ferðast alltaf með vagninum/lestinni sem sprungu. Nema í þetta eina sinn því í dag sváfu þau öll sem eitt yfir sig.

*******

Skemmtileg auglýsing sem er alltaf í útvarpinu þessa dagana: Mæðgur og vinkonur Unnur Steinsson og Unnur dóttir hennar, konur og kókaín glæpur en ekki lífstíll, Nýtt líf á næsta blaðsölustað. Hvernig á maður að skilja þetta þegar þessu er slett svona í eyrun á manni?