miðvikudagur, júlí 27, 2005

Ferðasagan

Við lögðum af stað úr bænum á miðvikudag fyrir viku. Stefnan var sett á Snæfellsnes í fyrstu, á Mýrunum keyrðum við út úr sólinni og undir skýjaþak og þaðan aftur inn í smá sól á Arnarstapa. Við fengum okkur labbitúr niður að klettunum á Arnarstapa og skoðuðum gataklettana og götin sem sjór spýtist upp um í sterkri sunnanátt. Þetta var allt assgoti magnað. Daginn eftir brunuðum við norður fyrir nesið og gegnum alla þéttbýlisstaðina nema Stykkishólm.

Næsta stopp var gert við Rauðamelsölkeldu þar sem kolsýrt vatn steymir upp úr jörðinni í fallegri lind. Við gripum með okkur bolla til að smakka á herlegheitunum, mér fannst bragðið bara nokkuð gott en Anna gretti sig eitthvað og afþakkaði annan bolla.
Þegar við vorum búin að labba að keldunni vorum við orðin svöng þannig að við brunuðum sem leið lá inn í Hítardal og grilluðum þar.

Við enduðum kvöldið á hótel Hamri í Borgarnesi, það er nýtt hótel á golfvellinum með kókdósinni. Það var fínt að gista í rúmi en ekki á vindsæng.

******

Svakalega held ég að mótorhjólamönnunum sem keyrðu á eftir okkur á Mýrunum hafi brugðið þegar þeir mættu trailer með gröfu eð ýtu. Þannig vildi nefnilega til að ég sá að eitt hjólið á aftanívagninum hegðaði sér undarlega undir vagninum. Ég leit í spegilinn um leið og ég hafði mætt vagninum, um leið og mótorhjólamennirnir mættu trailernum,hvellsprakk á aftanívagninum með tilheyrandi hávaða og rykmekki. Ég er ekki frá því að manni hefði brugðið því ég var kominn c.a 300 metra frá trailernum og heyrði samt hvellinn vel þó ég keyrði á milli 90 og 100 kílómetra hraða.