miðvikudagur, júlí 13, 2005

Vandræðagangur

Það var einhver vandræðabragur á bæjarferðinni minni í dag. Ég fór sem leið lá akandi frá Grandanum og upp á Skólavörðuholt og aftur til baka. Þetta kann að hljóma mjög einfalt og ætti ekki að taka mikið meira en 8 mínútur ef umferðin er skapleg.

Byrjum á byrjuninni bíllinn hökti af stað fyrstu hundrað metrana frá kaffiskúrnum eins og alltaf þegar hann er kaldur. Þegar planinu sleppti ók ég sem leið lá um Geirsgötu og beygði inn Lækjargötu og hugðist því næst beygja upp Hverfisgötu en sá þá við gatnamótin skilti sem sagði að Hverfisgata væri lokuð við Klapparstíg. Ég sneri við og fór út á Sæbraut sem er vel á minnst mikið lengri leið. Ég komst upp á Skólavörðuholt á mun lengri tíma en ég hafði áætlað í túrinn þannig að þegar ég lagði í stæðið við Iðnskólann var ég að verða knappur á tíma (átti ekki klink í stöðumæli). Ég hljóp við fót niður í tólf tóna og spurði hvort þeir ættu tvær plötur sem ég var að leita að, en önnur var uppseld og hin ekki væntanleg fyrr en seinna í dag.

Ég hljóp aftur af stað upp Skólavörðustíg, ég kom móður og másandi í bílinn sem hökti ekki af stað af því hann var ekki orðinn kaldur og brunaði niður næstu götu með stefnuna á Sæbraut. Ég var náttúrulega búinn að steingleyma að Hverfisgata væri lokuð þannig að þegar ég kom niður á Laugaveg blasti við mér lokunarskilti sem gaf til kynna að ég mætti ekki þokast nær Hverfisgötu. Ég keyrði niður Laugaveginn og vonaði að enginn sæi til mín því ég var orðinn of seinn úr mat.

Lendi ég þá ekki bara í einhverri skelfilegri röð farlama kellinga sem voru að skoða kjóla út um bílgluggann inn um búðargluggann. Ó boj hvað Haukurinn var orðinn pirraður á að hanga á eftir þessum farlama kelllingum sem skutluðu einni og einn valíum upp í sig þegar hraðamælirinn nálgaðist 5Kmh ískyggilega. Ég komst niður Bankastrætið nokkurnveginn við þolanlega geðheilsu en þó með hvíta hnúa og stífa kjálka. Þar sem ég sit í nasistavagninum og bíð eftir græna ljósinu á umferðarvitann deyr á bílnum. Þegar ég segi deyr á bílnum er það ekki eins og maður grípi bara í lykilinn og setji hann í gang aftur, neibb ég mátti fyrst láta hann renna niður Bankastrætið og beygja svo inn að Stjórnarráðinu, í því að ég tek beygjuna inn að stjr stekkur ein Valíumkellingin fyrir bílinn(hún á grænum kalli) og drattast nánast ekki áfram þannig að ég varð að stoppa fyrir henni sem var slæmt því það var jafngildi vélarleysis í bílnum hjá mér og ég mátti snarast út og ýta helvítis dósinni í stæðið hans Dóra sem er í Japan að láta taka myndir af sér.

Ég fékk að dúsa í stæðinu hans Dóra í tíu til fimmtán mínútur eða þar til nazi fór í gang og ég var búinn að bölva á íslensku, dönsku, færeysku og svo sletti ég enskum fúkyrðum inn í líka en án árangurs. Ég kom hálftíma of seint úr mat og munaði minnstu að ég keyrði bílinn beint í ruslagáminn.