miðvikudagur, júlí 13, 2005

Þekki ég þig?

Í gær lenti ég í smá uppákomu. Ég er með eitthvað assgotans ofnæmi fyrir einhverju sem ég veit ekki hvað er, en ég veit að ákveðnar pillur sem hægt er að kaupa gegn vægu okurverði slá á ofnæmið. Allir glaðir og ég get andað með nefinu. Ég fór með lyfseðilinn minn í apótek og skellti honum á borðið fyrir dobbúl skammt af pillunum. Svo beið ég eftir að fá heilt bretti af pillum til að gleypa næstu mánuðina. Þar sem ég beið kom afgreiðslukona sem var ekki að aðstoða mig og bauð mér gott kvöld, ég tók undir kveðjuna og sýndi með látbragði að ég væri búinn að fá afgreiðslu og vantaði ekki meiri afgreiðslu í bili.

Svo leið mínúta og afgreiðslukonan kom aftur og bauð mér aftur gott kvöld. Ég hef sennilega orðið eitthvað skrýtinn í framan því hún flýtti sér að spyrja hvort ekki gæti verið að ég væri sonur Sigrúnar. Ég játti því, smá vandræðaleg þögn og svo spurði hún hvort ég þekkti sig. Ég varð bjánalegri í framan og roðnaði sennilega aðeins meðan ég reyndi að rýna í nafnspjaldið sem hún bar í barminum.

Nafnið klingdi engum bjöllum, hvorki bjöllunum í ættartrénu né öðrum trjám eða greinum. Neeeeiiii ég er bara lens. Þá kom það, ég passaði þig á leikskólanum þegar þú varst þar. Þú varst alltaf svo þægur og góður. Þá greip ég fram í og sagði henni að sennilega væri hún nú farin að gleyma einhverju, ekki vilja allir meina að rauðhærði undirförli stríðnispúkinn hafi alltaf verið stilltur.

Næst spurði hún mig hvað væri að frétta af mér, aftur roðnaði Haukur og spurði í fávisku sinni: Viltu síðustu 30 ár eða bara undanfarin ár? Hún tók stutt æfiskann með almennum spurningum og bað svo að heilsa mömmu. Ég var svo aldeilis hissa.