sunnudagur, júní 20, 2010

Ég tróð mér í hlaupagallann í dag í fyrsta sinn í hálfan mánuð. Ég gerði hlé á æfingunum til að ná úr mér beinhimnubólgu sem ég var kominn með, ég fór bara mjög stutt til að byrja með en prófaði að spretta aðeins til að sjá hvort lappirnar þyldu álagið. Það kemur sennilega ekki í ljós fyrr en í fyrramálið þegar ég legg af stað niður stigann.

þriðjudagur, júní 08, 2010






Á laugardaginn hlupum við Goggi hringinn upp í Kaldársel og til baka. Ég var að drepast í sköflungunum í upphafi hlaups en svo lagaðist það með tímanum. Ég var svakalega þungur á mér alla leiðina og dagsformið slappt. Kannski ekki sniðugt að hlaupa á laugardagsmorgni með bjór og viskí í maganum. Asics Trabuko skórnir virka fínt.

Á sunnudag fórum við feðgarnir allir saman í fjallgöngu. Leiðin lá á Skessuhorn í frábæru veðri, ég var bara klæddur í stuttbuxur og bol en fékk að kenna á því daginn eftir því eg gleymdi sólarvörninni og kálfinn var ekki alveg ánægður með það. Við vorum þrjá tíma upp og tvo niður. Leiðin sem við völdum var skemmtileg en ekki sú greiðasta því við fórum full snemma upp í klettana og lentum í klöngri þar sem við hefðum sloppið við ef við hefðum farið aðeins vestar.

Þegar við vorum búnir að mynda og hnykla vöðvana á toppnum héldum við af stað niður og ákváðum að koma okkur niður fyrir toppinn og setjast við klett til að borða nestið. Þetta var gert af gömlum vana og engu öðru því aldrei þessu vant var logn og heitt á toppnum og því í raun engin ástæða til að koma sér niður í klettana, því það þurfti ekki meira skjól.
Annars eru lappirnar með einhverja bölvaða stæla þessa dagana því ég er búinn að koma mér upp þessari fínu beinhimnubólgu í sköflunginn.

Núna sit ég með aftersun á kálfanum og kælipoka á sköflungnum.

laugardagur, júní 05, 2010

Lappirnar á mér eru að taka einhverjum breytingum þessa dagana, ég er búinn að kaupa skó fyrir 75 þúsund á þremur vikum. Ég byrjaði á að kaupa vinnuskó, alveg eins og þá sem ég hef keypt mörg undanfarin ár en eftir nokkra daga í þeim er ég farinn að fá verk upp innaverðan sköflunginn. Ég var búinn að klóra mér slatta í hausnum yfir þessu þar til ég reif innleggin úr og steig á þau og sá að litla tá á hægri stóð alveg út af innlegginu og stór hluti jarkans þannig að ég varð að fá mér annað par og í þetta sinn númeri stærra. Ég fékk um daginn blöðru undan gönguskónum mínum sem hafa fram til þessa verið mjög hæfilega stórir og þurfti meira að segja að slaka á tábandinu á öðrum sandalanum.

Ég lét verða af því að kaupa utanvegahlaupaskó í vikunni, ég er búinn að taka einn prufurúnt á þeim á Helgafell, ég held þeir séu fínir en mér var nokkuð illt í sköflungnum þannig að ég naut hlaupsins ekki neitt rosalega. Nú er bara að vinna í því að losna við öll fótamein og gefa svo í.

þriðjudagur, júní 01, 2010

Ég tók stutt skokk í gær. Leiðin lá eins og í fyrradag út á vegleysurnar hér fyrir sunnan hús, ég hljóp yfir línuveginn og aðeins upp með hrauninu og sneri þar við og hljóp inn í bæinn aftur og heim. Heildarlengd var 6 Km sléttir.

Nú er ég búinn að velta skóm fyrir mér í nokkurn tíma. Ég finn ekki þá sem mig langar helst að prófa en það eru Salomon skór, ég þori ekki að panta þá því það er ekki nokkur leið að átta sig á stærðunum á þessu drasli. Ég nota venjulega skó nr 43 og hef gert í mörg ár en nú ber svo við að þeir hlaupaskór sem ég hef mátað eru í annaðhvort 44 eða 44,5. Mér finnst það ansi stórt stökk upp úr 43.