mánudagur, nóvember 08, 2004

Glæpamenn

Ég er glæpamaður.
Í nótt slapp ég naumlega við að vera hnepptur í gæsluvarðhald fyrir að vera ekki búinn að færa bílana mína í skoðun. Lögreglan mætti á planið hjá okkur í skjóli nætur og límdi límmiða á bílana okkar þar sem stóð að við ættum að færa þá til skoðunar fyrir 15. nóvember.
Nokkrum klukkutímum fyrr eða milli klukkan níu og tíu í gærkvöld stóðum við bifvélavirkinn í því að sannfæra Meinvill um að Löggan eltist ekki við fólk út af óskoðuðum bílum, það væri nóg að borga öll gjöld á réttum tíma og þá er maður hólpinn.
Boðun í skoðun fuff

*******

Ég fer í loftið klukkan átta í kvöld. það þýðir að ég verð ekki kominn í gula húsið í Fuglafirði fyrr en milli tíu og ellefu í kvöld. Það þýðir líka að ég verð á ees kaupi fyrstu klukkutímana í fyrramálið (of stuttur hvíldartími).

**********

Canon Eos er ekki lengur málið fyrir mér, heldur er það Lumix myndavél sem panasonic og Leica framleiða í sameiningu. Ég er búinn að vera með hökuna niðri á bringu síðan fyrir helgi yfir þessari vél og í dag ætla ég að kanna hver er til í að flytja hana inn fyrir mig. Ef enginn er til í það verð ég bara að gera það sjálfur.
Eos býður ekki upp á eins svakalega linsu og er á þessari vél, linsan samsvarar 35-430 mm linsu á 35mm vél og ef maður notar 4xdigital zoom er linsan orðin 35-1720mm, en það er svipað og fallbyssurnar sem maður sér á íþróttakappleikjum
. Transformer Gun










laugardagur, nóvember 06, 2004

Látum þá ganga plankann

Jebb ég þarf endilega að vera að vinna í útlöndum meðan allt er að gerast hér heima. Næst stærsta rán Íslandssögunnar hefur verið upplýst en enginn er í gæsluvarðhaldi og eini maðurinn sem fær skell er fyrrverandi markaðsstjóri hjá einu af glæpafyrirtækjunum, hvar eru hinir markaðsstjórarnir? Þetta eru jú þrjú fyrirtæki sem sameinuðust um glæpinn og það hljóta að vera þrír markaðsstjórar. Ég ætla nú ekki að reyna að mæla Þórólfi bót en ég held samt að fyrrverandi Dómsmálaráðherra hjóti að bera meiri ábyrgð sem hjásvæfa höfuðpaurs samráðsins.

Ég lýsi eftir einhverjum sem kann að stýra skipi nokkurnveginn klakklaust út á ytri höfn Reykjavíkur þar sem olíutankar allra olíufélaganna blasa við saman í hnapp, þar langar mig að fullnægja réttlætinu að sjóræningja sið og láta Geir Magnússon, Kristinn Björnsson og Einar égmanekkihversson ganga plankann, skemmtilegt að láta þá horfa á tankana sína meðan þeir ganga síðustu skrefin. Ekki myndi nú skemma fyrir að kjöldraga þá líka.

************

Ég kom til landisins í gærkvöld, vélin kom í loftköstum inn til lendingar á Reykjavíkurflugvelli. Þegar við vorum yfir Sandskeiði byrjaði að sjást niður úr skýjunum og þá hættti maður í leiðinni að sitja í sætinu því hristingurinn var mjög mikill. Það var svo mikill hristingur að það labbaði ein flugfreyja aftur gangin í tvígang og lét alla sýna sér að þeir væru örugglega spenntir í beltin. Lendingin tókst vel þrátt fyrir að maður hafi síðustu metrana verið strekktur upp í beltið með ca 5 setimetra niður í sætið frá rassinum sem átti að verma sætið. Þegar vélin var komin með öll hjólin á jörðina steig flugstjórinn á bremsurnar eins og hann ætti lífið að leysa, hemlunin var svo harkaleg að loksins þegar maður fann fyrir setunni undir rassinum á sér þá pressaðist maður alveg fram í beltið sem skarst óþægilega inn í mjaðmirnar á manni.

**********

Tryggingastofnun hefur átt í miklum einhliða bréfaskrifum við mig síðustu vikur, ég hef ekki nennt að svara þeim í eitt einasta skipti. Þeir sendu mér bréf fyrir þremur vikum til að minna mig á að ég hafi lent í vinnuslysi í vor og ætti rétt á bótum sem ég hafði fyrir löngu fengið greiddar frá vinnuveitanda. Síðasta útspil þeirra er að senda mér ávísun fyrir hjálpartæki sem ég lagði út fyrir en vinnuveitandi er löngu búinn að endurgreiða mér. Almennilegt af þeim að senda þurfandi fólki peninga án þess að maður þurfi að bera sig eftir þeim.



Jolly Roger