mánudagur, ágúst 29, 2005

Ehemm

Ég fæ ekki tímarit Þjóðleikhússins inn um mína lúgu því þjóðleikhússtjóri telur að Morgunblaðið hafi mestu dreifingu allra dagblaða. Það sagði hún amk í útvarpinu í dag þegar hún kynnti dagskrá leikársins. "Við ætlum að dreifa blaðinu með Morgunblaðinu, þannig að það ætti að berast inn á flest heimili á landinu". Þetta er soldið skrýtin tilhögun fyrst það á að reyna að auka aðsókn ungs fólks í leikhúsið, því eftir því sem mér heyrist eru mjög fáir ungir áskrifendur að Morgunblaðinu.

Ég hefði haldið að það hefði meira auglýsingagildi að dreifa pésanum með annaðhvort póstinum eða Fréttablaðinu.

En ég er nú ekki markaðsfræðingur.

sunnudagur, ágúst 28, 2005

Stóra svarið

Á föstudag kom stóra svarið í póstkassann hjá okkur. Svarið er jákvætt þannig að við getum nú fyrir alvöru farið að safna vottorðum um andlegt og líkamlegt heilbrigði og fá vinnuveitendur til að skrifa upp á vottorð um að við höldum vinnunni eitthvað áfram og óteljandi önnur vottorð og pappíra.


*****
Lélegasti trommuleikari landsins býr í næsta húsi við okkur. Hann lemur tilviljanakennt á bumburnar og diskana af djöfulmóð í nokkrar mínútur og svo gefst hann upp. Svo er djöflast í nokkrar mínútur og svo gefist upp en aldrei kemur lag úr þessum tunnum og dósum hans.

Fólki þætti sennilega þreytandi ef gítarleikari djöflaðist á gítarnum sínum daglangt án þess að kunna eitt grip.

Hann er þó skárri er bílaþvottabjáninn sem býr í sama húsi og trommarinn. Sá hefur ekkert að gera fyrr en seint á kvöldin, þá fer hann út með háþrýstiþvottatækin sín og bunar á bíla með tilheyrandi hávaða.

****

Við fórum á Kabarett á föstudag, það var mjög gaman. Meinvill var ekki meira en svo viss um að ég myndi skemmta mér að hún tók afþreyingu fyrir mig með sér. Hún rétti mér grænan pakka sem hringlaði í og hvíslaði að mér að ef mér leiddist ætti ég að fá mér úr þessum pakka. Mér leiddist ekki en fékk mér samt smá tóbas.

Við sátum svo langt frá sviðinu að maður greindi ekki nema skörpustu andlitin á leikurunum og helst ekki nema maður þekkti leikarana. Þetta kom sér vel því sonur biskupsins leikur í sýningunni og ég veit ekki hvor þeirra feðga fer meira í taugarnar á mér.

****

Þeir sem sáu Fréttablaðið á laugardag sáu kannski mann halda á lundapysju. Það var hann Steini sem vinnur með mér. Fréttablaðið sagði að Steini hefði fundið pysjuna fyrir utan Lýsi, það er bull, vitleysa og þvættingur því ég fann hana og kallaði í Steina því hann er Westmanneyingur og kann á svona kvikindi.

Ég var að sækja mér kaffi þegar mér varð litið til hliðar og sá þá pysjuna standa úrræðalausa ofan í gryfju. Ég stökk inn til að hóa í Steina því ég var ekki viss um að ég næði henni einn. Ég sagði honum að mig vantaði Westmanneying í ákveðið verkefni. Hann taldi víst að nú þyrfti að klifra eitthvað en varð svo gapandi hissa þegar hann sá hvert verkefnið var.

Sagan af pysjunni fékk farsælan endi úti við Gróttu þar sem Steini gerði heilmikla fjölskylduferð úr sleppingunni. Pysjan flögraði áleiðis út á haf þar sem hún skellti sér í kaf til þess að ná sér í æti.

fimmtudagur, ágúst 25, 2005

Dótarí

Þar sem ég er búinn að vera duglegur við að uppfæra raftækjaflóru heimilisins að undanförnu, hefur hleðslutækjum og öðrum snúrum fjölgað ískyggilega. Þessvegna finnst mér baukurinn frá Lumex sniðugur. Það er poppskál með fullt af innstungum fyrir allskonar hleðslutæki og snúrurusl sem annars liðast fram að öllum borðbrúnum.

Ég fór í Expert í dag og keypti tvær snúrur, þær voru hrikalega dýrar. Ein er til þess að tengja símann við tölvu og hin til að hlaða símann á löngum ferðum manns um heiminn í föruneyti með tólf volta rafmagni.

þriðjudagur, ágúst 23, 2005

Einn helvíti hress

Eftir flugeldasýninguna sem sprengdi gat á himininn, reyndu flestir að forða sér sem hraðast úr bænum eða inn á knæpu. Við vorum í fyrri hópnum og forðuðum okkur upp Laugaveginn og alla leið upp í Skipholt þar sem bíllinn stóð.

Meðan á tónleikunum og flugeldasýningunni stóð var Miðbakkinn vægast sagt troðinn af fólki sem varð mjög hratt, mjög blautt. Við vorum engin undantekning þar. Sumir voru forsjálir og tóku með sér regngalla sem þeir gátu brugðið sér í þegar byrjaði að rigna, eina konu sáum við sem var með ullarhúfu á hausnum en þegar byrjaði að rigna tók hún plastpoka upp úr vasanum og skellti á hausinn á sér. Þetta fannst Meinvill fyndið.

Þeir sem voru forsjálastir voru með regnhlíf meðferðis. Þannig var ungi faðirinn sem við mættum í verstu dembunni stax eftir flugeldasýninguna útbúinn. Hann ýtti á undan sér barnakerru sem var útbúin með regnhlíf í c.a. meters hæð, svona þrammaði hann gegnum mannþröngina á móti staumnum. Þegar við mættum honum löbbuðu tveir á regnhlífina og það voru greinilega ekki fyrstu tveir því hann var orðinn nokkuð brúnaþungur og eiginlega frekar reiður, hann öskraði í þann mund að ég smeigði mér framhjá honum: "Íslendingar kunna ekki að umgangast fólk með regnhlífar",,,,,,, jejeje þetta er álíka gáfulegt og þegar ég datt á skíðum í bláfjöllum fimm ára gamall og gargaði "þetta helvítis fólk er búið að gera brekkurnar sleipar". Og hana nú.

Manni verður bumbult....

...þegar Geir Jón Þórisson mætir í viðtöl áður en hann mætir í vinnu og svo eftir að hann kemur heim úr vinnu. Fyrst deilir hann verkkvíða sínum með þjóðini og lýsir óbeint yfir að flestir íbúar skersins séu ribbaldar. Svo mætir hann daginn eftir og segir okkur að við séum ribbaldar.

Kallinn er haldinn mesta verkkvíða sem um getur held ég, svei mér þá. Það er allt í kalda koli í miðborginni og enginn ætti að voga sér þangað eftir klukkan tíu á morgnanna. Einmitt.

Ég sá hluta af verkefnalista löggunnar frá lokum Menningarnætur og eitthvað fram á morguninn. Það sem birtist var nú ekki svo svæsið ef frá er talin ein hnífsstunga. Geir Jón talaði eins og það hefði orðið uppþot í miðborginni og ekki stæði steinn yfir steini.

Gott ef ég heyrði hann ekki tala um mikil ólæti á Menningarnótt. Nú ætla ég að leyfa mér smá orðhengilshátt. Menningarnótt var lokið þegar umrædd læti eiga að hafa átt sér stað. Það var ekkert vesen á Menningarnótt. Og hana nú. Við vorum mætt í bæinn klukkan hálf þrjú og vorum til miðnættis og sáum ekki eitt vesen.

*****

Er einhver starfsmaður á stöð 2 kominn með fuglaflensu eða er einhver búinn að boða komu hennar á næsta ári? Ég er búinn að heyra tvær heimsendisspár frá þeim í dag. Úlfur úlfur.

mánudagur, ágúst 22, 2005

Systursíða

Þá er systursíðan komin í gagnið. Ég er búinn að sitja sveittur við að stilla allt draslið saman. Það er lítið komið inn en ef ég nenni kemur eitthvað öðru hvoru. Hér er nýja síðan. Þetta verður samt aðalsíðan áfram.

sunnudagur, ágúst 21, 2005

Upprennandi rokkari

Þessi var með allar handahreyfingar á hreinu á tónleikunum á miðbakkanum.

Nýr sími og ný síða

Í dag fórum við í bæinn til að útrétta, ég keypti mér nýjan síma því hinn datt harkalega og missti röddina. Fyrir valinu varð að sjálfsögðu enn einn Panasonic sími nú varð x-100 fyrir valinu. Hann er með myndavél þannig að ég stofnaði nýja síðu. Ég á reyndar eftir að finna stillingar í símann svo ég geti sent inn myndir. Ég er búinn að senda fyrirspurn á símafyrirtækið svo ég geti dritað myndum.
Ég set inn link þegar ég verð búinn að finna stillingar.

******

Hér er aftur á móti linkur inn á síðu sem allir ættu að taka sér tíma í að skoða því það er aldrei að vita nema maður geti gert gagn með því að senda mynd af rauða nefinu sínu. Ég þarf þess ekki því Amnesty stoppaði mig úti á götu og bað um að fá að mynda okkur Menvill með merki með skilboðum til heimsins,,,, eða þannig.

Sendið mynd og takið þátt í Million faces verkefninu. 297.368 hafa tekið þátt núna.

Þessu verkefni er stefnt gegn vopnasölu.

Ef þið eruð feimin skoðið þá hina sem eru það ekki.

Menningarnótt að degi til

Við Meinvill skelltum okkur í bæinn í gær, tilefnið var óvenju mikið framboð af menningarviðburðum. Við vorum mætt á röltið klukkan 14:30. Stefnan var að sjálfsögðu sett á Gallery Fold fyrst eins og venjulega, þar skoðuðum við æðislega sýningu á verkum Halldórs Péturssonar. Sýningin ber heitið "Einusinni var" og er uppistaðan í verkunum myndir úr bókinni: "Helgi skoðar heiminn" ***** af **** mögulegum því það er ekki laust við að maður fái gæsahúð af svona sýningu.

Næst lá leið niður Laugaveg og sennilega eitthvað skoðað á leiðinni og þaðan í jólahúsið til að heilsa upp á Sm sem seldi jólaskraut "half price" af miklum móð. Meinvill keypti tvö jóladót af henni.

Meðan við skoðuðum hjá S.Har hringdi Tengdó sem er eins og sumir muna, ekki tengdó heldur mágkonan og bauð okkur að hitta sig á kaffibúllu. Við þáðum það, ég fékk mér drullusætt karamellukaffi sem heitir víst eitthvað fínna ef bara kaffi. Það var rétt botnfylli í bollanum en maður lifandi hvað sopinn var dýr, ég hljóp út án þess að borga en gleymdi að láta Meinvill vita þannig að hún sat í súpunni og fékk að borga fyrir sopann. Þrjár hauskúpur á það því þetta var vont, dýrt og lítið.

Eftir flóttann af kaffihúsinu fór ég upp í Skífu á ókeypis tónleika með 5tu Herdeildinni. Það var gaman. Þeir ætla að gefa út plötu í haust, ég er búinn að taka frá pening fyrir henni.*** held það hafi vantað einhvern í bandið.

Efir tónleikana hitti ég Meinvill sem var orðin blönk eftir að hafa borgað kaffið. Við gengum fram á dvergatíó með sítt hár og stór hljóðfæri. Bassaleikarin var svo lítill að rafmagnsbassinn leit út eins og kontrabassi í fanginu á honum. Samanlagður aldur tríómeðlima hefur sennilega ekki verið meira en 24 ár.** fyrir framtakið

Næst löbbuðum við eitthvað, Meinvill hitti einhverja konu sem þurfti að tala mikið. Þetta var við hliðina á tilfinningatorginu, ég fattaði ekki að benda henni á að tala bara í hljóðnemann sem var einmitt fyrir fólk sem þarf að létta á sér. Swona erðetta.


Nú svarf hungrið að. Þessvegna löbbuðum við framhjá röðinni inn á hornið og alla leið upp á Caruso. Þar fengum við frábæran mat á frábæru verði. **** og ein auka fyrir þjónustuna *

Næst lá leiðin í Grófarsafnið á Suðurafríska ljósmyndasýningu. *** af ****. Held það sé ekki gott að vera í Suðurafríku. Flottar myndir af óhugnalegu umhverfi.

Eftir það fórum við á tónleika á Miðbakka, fyrst söng fjölþjóðlegur kór undir stjórn Ellenar Kristjáns (EK?) svo Hjálmar svo í svörtum fötum svo KK bróðir EK og Maggi Eiríks og að lokum Tottmóbil.

Stjörnur:
EK og kórinn *** vantaði betra sánd og ein auka fyrir að vera flottust*þ.e kórinn
Hjálmar **** Þeir eru með því betra sem finnst á klakanum.
Í svörtum fötum ** komu samt á óvart hélt þeir væru hundleiðinlegir en þeir voru bara leiðinlegir
KK og Maggi *** Hverjum er líkar ekki við þá?
Tottmóbill hvar finnur maður hauskúpur? afhverju er verið að draga þennan ryðkláf á flot? Nályktin vall úr hátölurunum.

Komumst heim á mettíma með því að labba hálfa leiðina og skutla fólki að rótum Breiðholtsjökuls.

laugardagur, ágúst 20, 2005

En ekki hvað?

Ég heyrði auglýsingu í gær, það væri nú svo sem ekki neitt til að skrifa um ef ég hefði ekki allt í einu farið að pæla í texta hennar. "Fjallahjól á útsölu, allt á að seljast". Það er þetta síðasta sem ég fór að pæla í "allt á að seljast" hafið þið einhverntíman heyrt um búð þar sem bara sumt á að seljast en annað er upp á punt?

fimmtudagur, ágúst 18, 2005

Snobb

Ég skil ekki fólk sem er mjög upptekið af því að búa í útlandinu. Þannig er nefnilega að maður rekst stundum á einhverja vitleysinga á netinu sem byrja kommentið sitt á að segja: hér í Köben, hér í London, hér í París..... og svo framvegis. Þetta eru þeir sem skrifa undir fullu nafni og helst kennitölu á netið þannig að þeir sem búa enn í súldinni öfundi þá, held ég....

Ég fór í apótek fyrir viku, sem er ekki í frásögur færandi nema fyrir að fjölnota lyfseðillinn minn týndist þar. Þar var stödd kona, meðalhugguleg kona milli þrítugs og fertugs. Hún var með sænskútlítandi bakpoka, ég hélt hún væri sænskur túrhestur en svo hóf hún upp raust sína:
Nuj hurrðu seljið þið svona krem hér á Íslandi (hún var þá búin að koma því að að hún byggi ekki á íslandi)
Þetta er besti exemáburður sem til er, ég sendi afa hann alltaf í sveitina frá útlöndum. (þá var búið að koma því að að afi hennar byggi í sveit)
Amma bað mig að kaupa meira handa honum þegar ég kæmi að heimsækja þau. (hún var búin að koma því að að hún ætlaði út úr bænum)
Hvað heitir þetta apótek eiginlega? Afgreiðslukona: Skipholtsapótek.
Er þetta ekki hluti af neinni keðju? Afgreiðslukona: Nei þetta er sjálfstætt
En skemmtilegt þá er þetta eins og var á Blönduósi í gamladaga þegar apótekarinn átti apótekið.
(þá var hún búin að koma því að að hún væri frá blönduósi)

Það skal tekið fram að það spurði enginn hana hver hún væri eða hvaðan. Allt þetta sagði hún óeðlilega hátt, svo enginn missti af því að þarna færi útlandabúandi blönduósingur sem var á leið í heimsókn í sveitina til afa síns sem er með exem á lærinu og notar áburð sem fæst bæði í útlöndum og hér heima. Allt þetta án þess að vera spurð einnar spurningar.

Held líka að öllum sé sama.

þriðjudagur, ágúst 16, 2005

Vetrardekkin undir

Þá er kominn tími á að fara niður í geymslu og reyna að húkka í vetrardekkin. Ekki örvænta það er bara ég sem þarf þess því ég á heimboð eitthvað uppfyrir snjólínu. Nú kemur sér vel að eiga Gps með götukorti því ég rata alls ekki þangað upp í fjöllin.

Ég vænti þess að þessum ofanbyggðabyggingum verði hætt hið snarasta eftir fall núverandi meirihluta í borginni. Með þessu áframhaldi þarf að stækka flugvöllinn í Vatnsmýrinni svo taka megi við úthverfafólkinu sem þarf að mæta niður í bæ fljúgandi, því grundvöllur einkabíls fer þverrandi eftir því sem byggðin færist nær Nesjavöllum...

Haldiði að það verði munur þegar fólkið fer að kvarta undan slæmum flugsamgöngum innan borgarmarkanna.

****

Hafnarfjörður er kominn úr sumarfríi, það er nokkuð ljóst því það sitja allir fastir í Garðabæ.

Því er rétt að endurnýja slagorðið: Göng undir Garðabæ.

****

Fréttastofa stöðvar 2 sá ástæðu til að taka sérstaklega fram í frétt í kvöld að Íslenska konan sem var yfirheyrð vegna morðsins á Keflavíkurflugvelli sé af Asískum uppruna!

Já já já ef hún væri ljóshærð með ljóst hörund, yfir 180 Cm á hæð en fædd og uppalin í Asíu. Hvað þá? Eða af færeyskum ættum? Hvaða máli skiptir það í fréttinni að hún eigi ættir sínar að rekja til Asíu?

Það var ekki tekið fram að fréttakonan sem las fréttina býr með annari konu. Það skiptir samt jafn miklu máli, því næsta frétt var einmitt um samkynhneigða. hmmmm
ídjótar

****

Vigga Finnboga hélt standup kvöld á Hólahátíð og tókst líka svona glymrandi vel upp. Ég heyrði upptöku frá gríninu hennar í útvarpinu í dag. tsjellingin var bara svona rífandi fyndin.


****

Það er lítið mál að lofa einhverju sem maður veit alveg að maður getur ekki staðið við því einhver annar ræður. Þið megið með mínu leyfi fara og sækja ykkar hlut í gullforða landsmanna í Seðlabankann....... hehe verðirnir stoppa ykkur.

Halldór ætlar að gefa samkynhneigðum leyfi til að ættleiða börn frá útlöndum. Það er lítið mál héðan séð en ég er ekki eins viss um að löndin sem ættleitt er frá gefi jafn grænt ljós á það.

Þannig er nefnilega mál með vexti að þeir sem fara út í að ættleiða barn eiga ekki nokkurn einasta rétt til að eignast börn heldur eru það börnin sem eiga rétt á að alast upp hjá foreldrum sínum hvort sem það eru kyn- eða kjörforeldrar.
Þessvegna held ég að það komi alltaf til með að verða þröskuldar á vegi samkynhneigðra sem vilja ættleiða. Því það er ekki bara í augum afturhaldsseggja að kona og karl ali barn upp saman. Ég held að margir líti svo á að barn hafi fullan rétt á að alast upp hjá foreldrum af sitthvoru kyni.
Og hana nú. Þetta er eins með fæðingarorlof foreldrar eiga ekki rétt á að fá fæðingarorlof heldur er það barnið sem á rétt á að hafa foreldra sína hjá sér fyrstu mánuði æfinnar.

Svo getur vel verið að ég skipti um skoðun ef ég heyri almennileg rök. Ég hef bara ekki heyrt þau enn.

mánudagur, ágúst 15, 2005

Beðið eftir Mömmu

Þessi unga stúlka beið eftir mömmu sinni fyrir utan Garðakirkju á Laugardaginn.

Menningarnótt

Ég er að verða yfir mig spenntur yfir menningarnóttinni. Ég er búinn að prenta prógrammið út og ætla að liggja yfir því næstu daga svo ég viti hvað skal sjá. Síðustu ár höfum við verið mætt fyrir allar aldir í bæinn til að komast yfir sem mest af dagskránni.

Í fyrra byrjuðum við í Gallery Fold á sýningu sem ég man ekki út á hvað gekk, held að ofmetin sýning á verkum Andy Warhol hafi verið þar í hitteðfyrra. Allavega lá leið okkar niður Laugaveg á tónleika með 5tu herdeildinni í fyrra eftir Gallery Fold sem er að verða árlegur upphafspunktur hjá okkur.

Við fórum of seint af stað til að finna okkur borð á veitingastað þannig að við enduðum á spanjólastaðnum sem Ingi Björn Albertsson á í Lækjargötu, ég man ekki hvað staðurinn heitir en maturinn var kaldur, bragðlaus og allt of lengi á leiðinni, sem útskýrir kannski afhverju hann var kaldur og gott ef þetta var ekki bara dýrt líka..... allavega miðað við hversu vont þetta var.

Á laugardaginn ætlum við að vera tímanlega í að panta okkur borð. Ef einhver verður tímanlega svangur/svöng má viðkomandi hringja í mig og það er aldrei að vita nema það megi fjölmenna á einhvern sæmilegan stað, þá meina ég einhvern í Horns, Ítalíu og svoleiðis klassa.


*****

Meinvill fékk skoðun á Bláubeygluna í síðustu viku. Miðanum var stolið af honum um helgina. Þetta er ekki einsdæmi því fyrrverandi vinnuveitandi minn lenti líka í þessu.

Það hlýtur að liggja einhver sekt við því að stela svona miða og líma á sinn bíl. Það hlýtur að flokkast undir að villa um fyrir réttvísinni.

Einhvertíman er allt fyrst

Ég svaf yfir mig í fyrsta sinn síðan ég hóf störf hjá núverandi vinnuveitanda í morgun. Ég held ég hafi slökkt átján sinnum á klukkunni áður en ég vaknaði. Reyndar vaknaði ég ekki fyrr en einhverntíman um hádegi, þrátt fyrir að hafa verið mættur aðeins ellefu mínútum of seint til vinnu.

****

Við fórum í brúðkaup brósa og mágkonu á laugardag, það var súperfjör. Ég var fullur en Meinvill akandi. Gærdagurinn fór fyrir lítið því ég lá uppi í rúmi til klukkan fimm, ég fór fram úr öðru hvoru til þess eins að leggjast í sófann.

****

Hver nennir að hlusta á rausið í borgarstjórnarframbjóðendum þessa dagana um komandi kosningar. Það er næstum ár í kosningarnar og ég er kominn með grænar yfir umræðunni.

sunnudagur, ágúst 14, 2005

Fjör

Það var heldur betur fjör í gær. Það er heldur betur ekki fjör í dag. Ég hef varla getað lyft höfði frá kodda.

Samkvæmisónot heitir þetta víst.

miðvikudagur, ágúst 10, 2005

Breyttir tímar

Fyrir mörgum mörgum árum var til hópur róttæklinga sem kallaðist pönkarar. Pönkararnir voru litlir, klæddir leðri með göddum, sniffuðu lím og klíndu lími í hárið á sér til að fá það til að standa upp í loftið. Slagorðið sem var málað á bílskúr í götunni minni var "kúkum á kerfið" Ég skildi ekki alveg hvað var átt við með þessu slagorði.

Pönkarar voru settir í hóp með stjórnleysingjum sem áttu "A" rammað inn í hring. Mér hefur alltaf þótt pönkarar frekar spennandi hópur þó ég hafi aldrei flokkað mig sem slíkan, a.m.k. ekki nema í anda og þá að litlu leiti.

Í dag er mér orðið mál að kúka og ég skil slagorðið.

Ég er umhverfisverndarsinni! Ég þekki ekki einkennisbúninginn því það var einn um daginn í sjónvarpinu í flíspeysu og annar í kvöld var í lopapeysu, það sem flækir málið er að sá sem er oftast í sjónvarpinu er alltaf í gallajakka. Þannig að ég veit ekki í hvaða fötum ég á að fara út.
Veit einhver á hvaða tónlist umhverfisverndarsinnar hlusta?
Sniffa þeir lím?
Hanga þeir á Hlemmi?
Hvað eru þeir margir?
Þeir eru örugglega ekki margir. Sennilega bara fáir.

Pönkarana mátti þekkja á klæðaburðinum og fólki stóð stuggur af þeim, það voru oft læti í þeim á Hlemmi og löggan kom oft til að reka þá út af hlemmi svo hinum almenna borgara stæði ekki stuggur af þessum broddgöltum sem höfðu aðeins aðrar skoðanir á hlutunum og gengu ekki í takt við hina.

Það er nefnilega málið. Best að siga bara löggunni á þá því þeir ganga ekki í takt. Taktinn má læra á námskeiði hjá Dagnýju taktmaster XB. Námskeiðið ber undirtitilinn "gengið í takt, fylktu liði"

Þegar Sea sheppard kom hingað og skrúfaði tappann úr hvalskipunum öðlaðist umhverfisverndarsinninn sérstakann sess í hugum Íslendinga sem ganga í takt. Umhverfisvinir eru hættulegt fólk sem ber að reka út af Hlemmi eða bara reka þá...... eins og kýr eða kindur. Þar sem þeir eru fólk og fólk keyrir bíla eru aðrir bílar sendir af stað til að reka hina bílana áfram, svona eins og þegar trukkabílstjórarnir voru reknir áfram um daginn.......... eins og kindur eða kýr.

Það er nefnilega málið í dag löggan fer bara út og rekur þau áfram um bæinn með því að keyra á eftir þeim eins og þeir séu að reka kindur ...... eða kýr.

Svo ég komi mér beint að efninu þá heldur löggan úti njósnasveitum til að fylgjast með umhverfisverndarsinnum. Já þið sem sáuð ekki fréttirnar í kvöld haldið kannski að ég sé kúkú og þurfi á Klepp uppfullur af vænisýki. Svo er ekki. Það var sýnt í fréttum svo ekki verði um villst að löggan hefur sent ómerktan Skóda á eftir Skyrsletti og vinkonu hans til þess eins að fylgjast með ferðum þessara stórhættulegu róttæklinga sem láta sér annt um umhverfið.
Sennilega er einn sendur á eftir þeim í búðina og sóttur liðsstyrkur ef þau svo mikið sem voga sér að kaupa skyr.

Ég held að þeir þarna á Skúlagötunni þurfi að fara að fá einhver vegleg vekefni til að leysa svo þeir geti hætt að atast í einhverjum hræðum sem sletta smá skyri og fara svo í útilegu. Ein hvítasunnulöggan kom í útvarpið um daginn og mótmælti uppsetningu ljósmyndasýningar á Austurvelli því myndirnar takmörkuðu útsýni hans úr öryggismyndavélum. Sérstaklega á 17. júní manninum var fúlasta alvara og taldi alvarlegt að byrgja löggunni sýn yfir gangstéttarnar.

Það skal tekið fram að aldrei stóð til að setja sýninguna upp fyrr en viku eftir fjallkonu og ráðherra.

Sennilega kallast þessi skrípaleikur Haraldar Johannessen fyrirbyggjandi löggæsla, þ.e að fylgjast með þeim sem eru líklegir til að femja smávægileg afbrot og grípa þá áður en þeir ná að gera eitthvað af sér.

Þegar Stasi lék sama leik þ.e. að sigta út óvini ríkissins og handtaka áður en brotin voru framin kölluðust það ofsóknir. Sjálfstæðismenn úthrópuðu kommúnistana sem létu fylgjast svona vel með samborgurum sínum og handtaka þá taktlausu. Þeir klöppuðu líka fyrir niðurrifi múrsins sem þó var bara fluttur til austurlanda nær og settur aftur upp.


Ég er umhverfisverndarsinni, ég er mótfallinn vrikjuninni fyrir austan og enn mótfallnari álverinu, Ég er mótfallinn veru Dirty Harry í Krýsuvík, og öllu því sem getur talist umhverfisspjöll.

þriðjudagur, ágúst 09, 2005

Skrýtnar fréttir

Ég var að velta fyrir mér um daginn hvað við höfum heyrt mikið af flugslysi sem varð í Skerjafirði fyrir 5 árum. Ég man að fyrst heyrði ég af slysinu þegar vinur minn sem bjó í Kópavogi og var með útsýni yfir Skerjarfjörð hringdi í mig og sagði mér að það hefði farið flugvél í sjóinn. Ég brunaði niður á höfn hér í Hafnarfirði og reyndi að koma björgunarsveitarbátnum í lag þannig þeir gætu komið sér á staðinn til að hjálpa en án árangurs.

Við erum búin að fá að heyra góða lýsingu á öllu sem gerðist í aðdraganda slyssins og einnig eftirmála þess. Það er búið að gera skýrslur um slysið og það er búið að velta flestum steinum við til að rannsaka ástæður þess að flugvélin datt af himnum ofan með þessum skelfilegu afleiðingum.


Síðan árið 2001 hafa eftir því sem ég kemst næst 116 manns látist í 81 umferðarslysi. Ég hef ekki heyrt minnst á í einu tilfelli að bíll hafi ekki staðist skoðun. Ég hef aldrei heyrt minnst á í fjölmiðlum að erlendir sérfræðingar verði fengnir til að rannsaka banaslys í umferðinni, aldrei heyrt minnst á að sá sem valdur var að slysinu hafi á einhvern hátt brugðist eða ökutækið brugðist. Þetta er bara enn ein fréttinum einhvern sem deyr og svo er það bara búið.

Við fáum aldrei að vita hvað fór úrskeiðis og getum því ekki lært af mistökum annara. Svo kemur Sigurður Helgason í útvarpið klökkur og segir okkur að þetta sé allt saman hræðilegt og allt er of miklum hraða að kenna.

Afhverju er öllum smáatriðum um mistök flugmanna, vélarbilun, eldsneytisleysi, ísingu eða annað sem veldur flugslysi dengt inn um lúguna hjá manni. Í fimm ár höfum við lesið um rannsókn á þessu flugslysi í Skerjafirði, við höfum fengið mun meiri tæknilegar upplýsingar um þetta slys en flestir skilja.

Allt er þetta gert í þágu aukins flugöryggis og til þess að forða því að þessi sömu mistök verði gerð aftur. Til þess að menn læri að það er hættulegt að gera mistök í flugi sama hversu lítil þau eru.

Þetta á ekki við um umferðina, þar er þagað yfir öllum helstu mistökum sem menn gera við akstur því það er skömm af því að gera mistök við akstur og við ætlum að halda áfram að þegja vandamálið í hel. Menn hljóta að fara að keyra hægar við að heyra Guðna Má og Sigurð gráta saman í útvarpið og segja reglulega í góðlátlegum tóni að menn eigi nú vinsamlegast að gefa stefnuljós. Svo spila þeir Kim Larsen og gera grín að ístrunni á hvorum öðrum.

Afhverju er Sigurður ekki löngu búinn berja í borðið og segja Löggunni til syndanna fyrir að taka ekki í lurginn á þeim sem kunna ekki að nota stefnuljósin. Það væri allavega byrjun.

Þetta virkar ekki. Ef menn hjakka í sama farinu ár eftir ár og ekkert breytist þarf að skipta um aðferð við að koma upplýsingum á framfæri og breyta starfsaðferðum við umferðareftirlit.


Ég er ekki að segja að við þurfum að fá fimm ára fréttaskýringaþátt um hvert einasta banaslys sem verður í umferðinni. Heldur vil ég fá að vita ef eitthvað má augljóslega læra af mistökum annara. Ég veit það er erfitt að sjá eftir að bíll er orðinn að hakkabuffi sem toppnum er svipt af hvort stýrisendi brotnaði eða hvort hjól yfirgaf bílinn áður en slysið varð eða hvort bílstjóri sem var einn í bíl sofnaði. En ef mjög sterkar líkur eru á að einhver tiltekinn hlutur hefur gefið sig eða einhver afgerandi mistök ökumanns hafa átt sér stað má alveg láta það leka áfram svo við hin brennum okkur síður.

sunnudagur, ágúst 07, 2005

Ferðalag

Ég brá undir mig skökku löppinni í gær út á land. Ferðinni var heitið alla leið upp á Snæfellsnes þar sem stöngin var dregin úr skottinu. Orkuveitustarfsmaðurinn var með í för og Hafrannsakandi konan hans.

Við byrjuðum á að kasta út í Baulárvallavatn, þar náði ég að hefna mín aðeins á fiskunum sem vildu ekki bíta á hjá mér í vor. Ég náði að plata tvo eða þrjá upp á land úr því.

Næst lá leiðin yfir ásinn sem skilur að Baulárvalla- og Hraunsfjarðarvatn. Þar var kastað út í fram á kvöld með einhverjum árangri. Ég hirti 7 fiska úr þessum tveimur vötnum og sleppti nokkrum sem voru of litlir til að það þætti forsvaranlegt að kippa þeim yfir móðuna.

*****

Ég keypti Gps tækið á föstudag og var það tekið strax í notkun. Við skunduðum strax á föstudagskvöldið út í hraun á eftir tækinu sem teymdi okkur fimlega gegnum mosavaxið hraunið bakvið rallykrossbautina og að merkjunum sem okkur vantaði. Nú verður sko ekki leitað að nokkru merki framar heldur verður bara haldið í spottann á tækinu og það látið teyma mann um óbyggðirnar.

Agalega eru þessi tæki orðin flink að rata, ég get meira að segja spurt tækið mitt t.d. hvar næsta apótek er eða hvar næsta heilsugæsla er og það gefur mér ekki einasta upp staðsetningu og heimilisfang heilsugæslunnar heldur getur það teymt mig þangað eftir götukortinu sem er í því eða bara gefið mér upp símanúmerið.

Ég þarf reyndar að skreppa í búðina á morgun og kaupa ýja ól á tækið því ég týndi hinni sem ég keypti. Ég þarf líka að kaupa hulstur utan um tækið því ég gleymdi því í öllum æsingnum yfir nýja dótinu.

*****

Á morgun þarf ég að skrýðast skítagallanum á ný því fríið er búið. Buhu hvað ég nenni ekki að fara að vinna. Ohhhh hvað mig langar að halda áfram að vera í fríi.

Ef einhver ætlar ekki að nota allt sitt frí í sumar þá er ég alveg til í að taka út frí fyrir fleiri.

Maður ætti kannski að auglýsa í blöðunum: "Tek að mér frí fyrir aðra". Hvernig hljómar það... þetta er bara eins og :"Tek að mér þrif í heimahúsum"

föstudagur, ágúst 05, 2005

Nú er komið nóg

Ég er hættur að nenna að laba eftir minni alkunnu ratvísi og landslagslestri. Þegar maður labbar næstum daglega í hrauni til að leita að merkjum, kemst maður að því hversu sviplítið hraun er. Nú má ekki misskilja mig, mér finnst hraun ansi tilkomumikið meðan ég stend í því og skoða hraunmyndanirnar og hvernig mosinn vellur oft á tíðum fram af brúnum. Þetta með svipleysið er að ef maður er að leita að skilti sem er ca.25 cm á kant og liggur einhversstaðar í mosanum í hrauninu þá er ekki nóg að vera með kort og áttavita, því maður sér oft á tíðum ekki upp úr holunni sem maður stendur í og í þokkabót rísa kennileitin ekki svo hátt upp úr umhverfinu að maður á yfirleitt í mesta basli með að sjá þau þar sem maður stendur og miðar áttavitanum út í loftið. Semsagt það er fátt sem er svo afgerandi í landslagi hrauns að það sé sérstaklega merkt inn á kort.

Þessvegna er ég búinn að ákveða að kaupa mér gps tæki. Ég er búinn að ákveða hvaða tæki ég kaupi og hvar ég kaupi það. Nú bíð ég bara eftir einu símtali frá manni sem ætlaði að redda mér afslætti af verði tækisins.

*******

Á morgun ætla ég að bruna fyrir allar aldir westur á Snæfellsnes í veiði, stefnan er sett á Baulárvallavatn og Hraunsfjarðarvatn. Ég er búinn að tína botnfylli í fötu af maðki og á tvo makríla í frystinum.

miðvikudagur, ágúst 03, 2005

Seint koma sumir


Nokkrum mínútum eftir að ég setti síðasta póst inn þ.e. klukkan rúmlega tíu í gærkvöld hringdi síminn hjá mér. Þar var flutningabílstjórinn hjá mublukoti, hann sagðist vera á leið til mín og kæmi eftir korter. Klukkan hálf ellefu kom bíllinn með tvo sófa innanborðs. Það var ekki auðvelt að bera sófana upp því það var enginn flötur sem var nógu harður til að ná góðu gripi og svo var öllu pakkað inn í plast sem rann stöðugt út úr höndunum á manni. Sófarnir voru líka allt of breiðir til að passa inn um nokkra hurð í húsinu.
Ég er því að drepast úr allskonar stífleika í framhandleggjunum, öxlunum, upphandleggjunum og puttunum.

þriðjudagur, ágúst 02, 2005

Til hamingu með daginn

Amma Lóa á afmæli í dag, ég fór í veislu til hennar í kvöld og þáði bæði gúllas og rjómapönnsur. Úlaamma eins og Andrea kallar hana er orðin 96 ára fædd 1909 á Seltjarnarnesi en flutti í Hafnarfjörð fyrir eitthvað um 90 árum, samt er hún alltaf Seltirningur og hún á frasann sem gjarnan er hafður eftir þegar mikil hátíð er rétt gengin um garð "þá er bara moldviðrið eftir". Þetta segir hún nefnilega alltaf eftir mat og fyrir pakka á aðfangadag.

Mublukot

Ég held þetta sé ágætt uppnefni á húsgagnaversluninni sem Meinvill keypti sófasettið í á föstudaginn.
Ég var í sakleysi mínu uppi á verkstæði að gera frúarsportbílinn með grænu afturljósunum klárann í skoðun þegar ég leit á klukkuna og sá að hún nálgaðist óðfluga 17:00. Ég skellti bílnum í gólfið og keyrði sem leið lá undir bílinn á næstu lyftu og rakleiðis heim. Þar átti ég að vera staddur milli klukkan 17 og 19 til að taka á móti sófasettinu. Ég kom heim klukkan 16:57 og settist við dyrasímann til þess að missa ekki af flutningabílnum. Gemsinn var á lærinu og ég ýtti reglulega á einhvern takka til að fá ljós á síman svo ég vissi hvort hann væri í gangi eða ekki.

Klukkan 19:15 fór ég út því það var enginn flutningabíll kominn með sófa handa mér. Ég var orðinn nokkuð viðskotaillur því ég hefði getað klárað að gera við bílinn EF ég hefði vitað að helvítis arðræningjarnir á höfðanum ætluðu BARA að taka við peningum en ekki að afhenda vöru á réttum tíma.

Hvað er meira pirrandi en fólk sem boðar ekki forföll heldur skrópar bara á stefnumót?( mér finnst að það ætti að vera til efra stig á pirringi t.d hvað er pirrandari)

Á morgun ætla ég að tala við verslunarsjórann í Mublukoti og sjá hvort hann kemur ekki bara sjálfur með sófadrusluna og beri hana upp fyrir mig því ég ætla ekki að bíða aðra tvo klukkutíma upp á von eða óvon. Tíminn er dýrmætari en svo að ég nenni að hanga á húninum tímunum saman.