sunnudagur, ágúst 07, 2005

Ferðalag

Ég brá undir mig skökku löppinni í gær út á land. Ferðinni var heitið alla leið upp á Snæfellsnes þar sem stöngin var dregin úr skottinu. Orkuveitustarfsmaðurinn var með í för og Hafrannsakandi konan hans.

Við byrjuðum á að kasta út í Baulárvallavatn, þar náði ég að hefna mín aðeins á fiskunum sem vildu ekki bíta á hjá mér í vor. Ég náði að plata tvo eða þrjá upp á land úr því.

Næst lá leiðin yfir ásinn sem skilur að Baulárvalla- og Hraunsfjarðarvatn. Þar var kastað út í fram á kvöld með einhverjum árangri. Ég hirti 7 fiska úr þessum tveimur vötnum og sleppti nokkrum sem voru of litlir til að það þætti forsvaranlegt að kippa þeim yfir móðuna.

*****

Ég keypti Gps tækið á föstudag og var það tekið strax í notkun. Við skunduðum strax á föstudagskvöldið út í hraun á eftir tækinu sem teymdi okkur fimlega gegnum mosavaxið hraunið bakvið rallykrossbautina og að merkjunum sem okkur vantaði. Nú verður sko ekki leitað að nokkru merki framar heldur verður bara haldið í spottann á tækinu og það látið teyma mann um óbyggðirnar.

Agalega eru þessi tæki orðin flink að rata, ég get meira að segja spurt tækið mitt t.d. hvar næsta apótek er eða hvar næsta heilsugæsla er og það gefur mér ekki einasta upp staðsetningu og heimilisfang heilsugæslunnar heldur getur það teymt mig þangað eftir götukortinu sem er í því eða bara gefið mér upp símanúmerið.

Ég þarf reyndar að skreppa í búðina á morgun og kaupa ýja ól á tækið því ég týndi hinni sem ég keypti. Ég þarf líka að kaupa hulstur utan um tækið því ég gleymdi því í öllum æsingnum yfir nýja dótinu.

*****

Á morgun þarf ég að skrýðast skítagallanum á ný því fríið er búið. Buhu hvað ég nenni ekki að fara að vinna. Ohhhh hvað mig langar að halda áfram að vera í fríi.

Ef einhver ætlar ekki að nota allt sitt frí í sumar þá er ég alveg til í að taka út frí fyrir fleiri.

Maður ætti kannski að auglýsa í blöðunum: "Tek að mér frí fyrir aðra". Hvernig hljómar það... þetta er bara eins og :"Tek að mér þrif í heimahúsum"