þriðjudagur, ágúst 09, 2005

Skrýtnar fréttir

Ég var að velta fyrir mér um daginn hvað við höfum heyrt mikið af flugslysi sem varð í Skerjafirði fyrir 5 árum. Ég man að fyrst heyrði ég af slysinu þegar vinur minn sem bjó í Kópavogi og var með útsýni yfir Skerjarfjörð hringdi í mig og sagði mér að það hefði farið flugvél í sjóinn. Ég brunaði niður á höfn hér í Hafnarfirði og reyndi að koma björgunarsveitarbátnum í lag þannig þeir gætu komið sér á staðinn til að hjálpa en án árangurs.

Við erum búin að fá að heyra góða lýsingu á öllu sem gerðist í aðdraganda slyssins og einnig eftirmála þess. Það er búið að gera skýrslur um slysið og það er búið að velta flestum steinum við til að rannsaka ástæður þess að flugvélin datt af himnum ofan með þessum skelfilegu afleiðingum.


Síðan árið 2001 hafa eftir því sem ég kemst næst 116 manns látist í 81 umferðarslysi. Ég hef ekki heyrt minnst á í einu tilfelli að bíll hafi ekki staðist skoðun. Ég hef aldrei heyrt minnst á í fjölmiðlum að erlendir sérfræðingar verði fengnir til að rannsaka banaslys í umferðinni, aldrei heyrt minnst á að sá sem valdur var að slysinu hafi á einhvern hátt brugðist eða ökutækið brugðist. Þetta er bara enn ein fréttinum einhvern sem deyr og svo er það bara búið.

Við fáum aldrei að vita hvað fór úrskeiðis og getum því ekki lært af mistökum annara. Svo kemur Sigurður Helgason í útvarpið klökkur og segir okkur að þetta sé allt saman hræðilegt og allt er of miklum hraða að kenna.

Afhverju er öllum smáatriðum um mistök flugmanna, vélarbilun, eldsneytisleysi, ísingu eða annað sem veldur flugslysi dengt inn um lúguna hjá manni. Í fimm ár höfum við lesið um rannsókn á þessu flugslysi í Skerjafirði, við höfum fengið mun meiri tæknilegar upplýsingar um þetta slys en flestir skilja.

Allt er þetta gert í þágu aukins flugöryggis og til þess að forða því að þessi sömu mistök verði gerð aftur. Til þess að menn læri að það er hættulegt að gera mistök í flugi sama hversu lítil þau eru.

Þetta á ekki við um umferðina, þar er þagað yfir öllum helstu mistökum sem menn gera við akstur því það er skömm af því að gera mistök við akstur og við ætlum að halda áfram að þegja vandamálið í hel. Menn hljóta að fara að keyra hægar við að heyra Guðna Má og Sigurð gráta saman í útvarpið og segja reglulega í góðlátlegum tóni að menn eigi nú vinsamlegast að gefa stefnuljós. Svo spila þeir Kim Larsen og gera grín að ístrunni á hvorum öðrum.

Afhverju er Sigurður ekki löngu búinn berja í borðið og segja Löggunni til syndanna fyrir að taka ekki í lurginn á þeim sem kunna ekki að nota stefnuljósin. Það væri allavega byrjun.

Þetta virkar ekki. Ef menn hjakka í sama farinu ár eftir ár og ekkert breytist þarf að skipta um aðferð við að koma upplýsingum á framfæri og breyta starfsaðferðum við umferðareftirlit.


Ég er ekki að segja að við þurfum að fá fimm ára fréttaskýringaþátt um hvert einasta banaslys sem verður í umferðinni. Heldur vil ég fá að vita ef eitthvað má augljóslega læra af mistökum annara. Ég veit það er erfitt að sjá eftir að bíll er orðinn að hakkabuffi sem toppnum er svipt af hvort stýrisendi brotnaði eða hvort hjól yfirgaf bílinn áður en slysið varð eða hvort bílstjóri sem var einn í bíl sofnaði. En ef mjög sterkar líkur eru á að einhver tiltekinn hlutur hefur gefið sig eða einhver afgerandi mistök ökumanns hafa átt sér stað má alveg láta það leka áfram svo við hin brennum okkur síður.