miðvikudagur, ágúst 10, 2005

Breyttir tímar

Fyrir mörgum mörgum árum var til hópur róttæklinga sem kallaðist pönkarar. Pönkararnir voru litlir, klæddir leðri með göddum, sniffuðu lím og klíndu lími í hárið á sér til að fá það til að standa upp í loftið. Slagorðið sem var málað á bílskúr í götunni minni var "kúkum á kerfið" Ég skildi ekki alveg hvað var átt við með þessu slagorði.

Pönkarar voru settir í hóp með stjórnleysingjum sem áttu "A" rammað inn í hring. Mér hefur alltaf þótt pönkarar frekar spennandi hópur þó ég hafi aldrei flokkað mig sem slíkan, a.m.k. ekki nema í anda og þá að litlu leiti.

Í dag er mér orðið mál að kúka og ég skil slagorðið.

Ég er umhverfisverndarsinni! Ég þekki ekki einkennisbúninginn því það var einn um daginn í sjónvarpinu í flíspeysu og annar í kvöld var í lopapeysu, það sem flækir málið er að sá sem er oftast í sjónvarpinu er alltaf í gallajakka. Þannig að ég veit ekki í hvaða fötum ég á að fara út.
Veit einhver á hvaða tónlist umhverfisverndarsinnar hlusta?
Sniffa þeir lím?
Hanga þeir á Hlemmi?
Hvað eru þeir margir?
Þeir eru örugglega ekki margir. Sennilega bara fáir.

Pönkarana mátti þekkja á klæðaburðinum og fólki stóð stuggur af þeim, það voru oft læti í þeim á Hlemmi og löggan kom oft til að reka þá út af hlemmi svo hinum almenna borgara stæði ekki stuggur af þessum broddgöltum sem höfðu aðeins aðrar skoðanir á hlutunum og gengu ekki í takt við hina.

Það er nefnilega málið. Best að siga bara löggunni á þá því þeir ganga ekki í takt. Taktinn má læra á námskeiði hjá Dagnýju taktmaster XB. Námskeiðið ber undirtitilinn "gengið í takt, fylktu liði"

Þegar Sea sheppard kom hingað og skrúfaði tappann úr hvalskipunum öðlaðist umhverfisverndarsinninn sérstakann sess í hugum Íslendinga sem ganga í takt. Umhverfisvinir eru hættulegt fólk sem ber að reka út af Hlemmi eða bara reka þá...... eins og kýr eða kindur. Þar sem þeir eru fólk og fólk keyrir bíla eru aðrir bílar sendir af stað til að reka hina bílana áfram, svona eins og þegar trukkabílstjórarnir voru reknir áfram um daginn.......... eins og kindur eða kýr.

Það er nefnilega málið í dag löggan fer bara út og rekur þau áfram um bæinn með því að keyra á eftir þeim eins og þeir séu að reka kindur ...... eða kýr.

Svo ég komi mér beint að efninu þá heldur löggan úti njósnasveitum til að fylgjast með umhverfisverndarsinnum. Já þið sem sáuð ekki fréttirnar í kvöld haldið kannski að ég sé kúkú og þurfi á Klepp uppfullur af vænisýki. Svo er ekki. Það var sýnt í fréttum svo ekki verði um villst að löggan hefur sent ómerktan Skóda á eftir Skyrsletti og vinkonu hans til þess eins að fylgjast með ferðum þessara stórhættulegu róttæklinga sem láta sér annt um umhverfið.
Sennilega er einn sendur á eftir þeim í búðina og sóttur liðsstyrkur ef þau svo mikið sem voga sér að kaupa skyr.

Ég held að þeir þarna á Skúlagötunni þurfi að fara að fá einhver vegleg vekefni til að leysa svo þeir geti hætt að atast í einhverjum hræðum sem sletta smá skyri og fara svo í útilegu. Ein hvítasunnulöggan kom í útvarpið um daginn og mótmælti uppsetningu ljósmyndasýningar á Austurvelli því myndirnar takmörkuðu útsýni hans úr öryggismyndavélum. Sérstaklega á 17. júní manninum var fúlasta alvara og taldi alvarlegt að byrgja löggunni sýn yfir gangstéttarnar.

Það skal tekið fram að aldrei stóð til að setja sýninguna upp fyrr en viku eftir fjallkonu og ráðherra.

Sennilega kallast þessi skrípaleikur Haraldar Johannessen fyrirbyggjandi löggæsla, þ.e að fylgjast með þeim sem eru líklegir til að femja smávægileg afbrot og grípa þá áður en þeir ná að gera eitthvað af sér.

Þegar Stasi lék sama leik þ.e. að sigta út óvini ríkissins og handtaka áður en brotin voru framin kölluðust það ofsóknir. Sjálfstæðismenn úthrópuðu kommúnistana sem létu fylgjast svona vel með samborgurum sínum og handtaka þá taktlausu. Þeir klöppuðu líka fyrir niðurrifi múrsins sem þó var bara fluttur til austurlanda nær og settur aftur upp.


Ég er umhverfisverndarsinni, ég er mótfallinn vrikjuninni fyrir austan og enn mótfallnari álverinu, Ég er mótfallinn veru Dirty Harry í Krýsuvík, og öllu því sem getur talist umhverfisspjöll.