föstudagur, maí 19, 2006

Eftir 6 klukkutíma fer ég í loftið. Ég verð væntanlega rúmlega hálfan mánuð í burtu í þetta sinn, svo kem ég heim, set í þvottavél, hengi upp, pakka niður og fer svo aftur út.

***

Pabbi er orðinn fyrirsæta, hann birtist fyrst í bæjarblaðinu þar sem hann var nýkominn til vinnu á sínum hjólhesti og svo birtist hann í fréttablaðinu í dag. Hér má sjá myndina í mjög smækkaðri útgáfu.

***

Í fyrrakvöld fórum við á Nasa á tónleikana með Cocorosie, þær systur voru frábærar og stóðu undir öllum þeim væntingum sem hægt er að gera til tónleika. Það munaði litlu að ég missti af þeim en sökum frekju og þvergirðingsháttar náði ég að hrista vinnuna af mér fram að helgi og þessvegna komst ég með.

***

Mér líður eins og ég hafi verið kýldur í axlirnar, ég er helaumur en ekki marinn og var ekki kýldur heldur var bara þremur litlum nálum stungið í axlirnar og pínulitlu eitri sprautað inn. Þetta er gert til að halda hundaæðinu niðri en eins og flestir sem lesa þessa síðu vita smitaðist ég af hundaæði á ferð minni um Grímsey vorið 1924.

Eða ekki..... við vorum að ná okkur í fyrirbyggjandi viðhaldssprautur fyrir Kínaferðina sem verður vonandi farin á þessu ári.

***

Ég var staddur í Smáralind í gærkvöld þegar Ísland tapaði í Eurovision. Tilfinningin var soldið skrýtin því á þeim 64.000 fermetrum sem Smáralindin er var ég eini viðskiptavinurinn og ekki nóg með það því afgreiðslufólkið var heldur ekki sjáanlegt.
Mér leið eins og allar búðir væru lokaðar en gleymst hefði að loka þeim og slökkva ljósin.

Á einum stað sá ég hvar starfsfólk hafði safnast saman við lítið útvarpstæki uppi á annari hæð og horfði niður á fyrstu hæð þar sem mjög óskýrt sjónvarp stóð uppi á borði. Um leið og Sylvía hafði lokið séf af birtist fólkið í búðunum og ég var ekki lengur einn í heiminum.

sunnudagur, maí 14, 2006

XD= Kjósum Drykkjusjúka eða þannig.

Eyþór Arnalds er alveg að meika það á sama hátt og Sigurður Kári gerði á sínum tíma, tekinn fullur á bíl.

Exbé eru teknir í rassgatið þar sem þeir lögðu ólöglega í stæði fyrir fatlaða.

Þetta eru þeir sem eiga að sjá um skipulagsmálin.

Ætli exbé óski ekki eftir að merki sem heimila fólki að leggja í stæði fyrir fatlaða verði sett á markað svo þeir verði ekki nappaðir aftur og ætli Sjallarnir í Árborg berjist ekki gegn því að ljósastaurar verði settir upp á Hellisheiði, Eyþór keyrði jú á staur. Það gefur því auga leið að bölvaðir ljósastaurarnir eru stór hættulegir.

***

Ég skokkaði á Helgafell í gærmorgun, frá því ég lagði af stað og þar til ég stóð á toppnum liðu 34 mínútur. Gps tækið sagði að ég hefði verið 32 mínútur á hreyfingu þannig að ég hef stoppað tvær mínútur þegar ég fékk mér vatn og þegar ég fór úr peysunni.

***

Eftir hádegið fórum við til Þorlákshafnar eða Þorláksvíkur eins og lánlausi glæpamaðurinn sagði. Við tókum þar hús á tilvonandi ferðafélögum okkar. Það er skemmst frá því að segja að eftir því sem við hittum þau oftar kann ég betur við þau. Við fengum grillaða hamborgara hjá þeim og marga lítra af kaffi, Anna skellti sér í pottinn með börnunum meðan ég reyndi að ná sem mestu kaffi og kjaftasögum í stofunni.

Dagurinn endaði svo á bíltúr um suðurnesin þar sem byggingasvæði næstu sveitarfélaga voru skoðuð bak og fyrir.......

föstudagur, maí 12, 2006

Ég er loksins búinn að fá flugmiða og þar af leiðandi dagsetningu á ferðina til Færeyja. 22. maí er dagurinn, hádegi er stundin. Við förum bara tveir og verðum sennilega í allt sumar. Ég ætla að reyna að fá nettengingu í húsið sem við verðum með þannig að maður geti fylgst með fréttum og hangið á Msn á kvöldin og ef maður verður gríðarlega hress þá bloggar maður kannski smá, en þetta hangir náttúrulega saman við nettenginguna.

Þetta þýðir að við komumst á Cocorosie tónleikana í næstu viku og í sprautur daginn eftir þá. Það á nefnilega að fara að ná sér í austurlandasprautukokteil svo maður verði klár í Kína þegar þar að kemur.

laugardagur, maí 06, 2006



Við gerðumst hörkutól í dag og löbbuðum á Esjuna. Ég hélt ég dræpist á niðurleiðinni en var nokkuð góður á uppleiðinni. Veðrið hefði bara verið verra ef það hefði verið betra en það var soldið mikil drulla eftir því sem nær dró Þverfellshorni. Ég fór upp á hornið en Anna fór upp að Steini.

fimmtudagur, maí 04, 2006

Ég komst að því mér til skelfingar að það eru bara tveir kílómetrar heiman frá mér og í vinnuna, þetta er náttúrulega grábölvað í ljósi þess að ég hélt að það væru allavega fjórir og var búinn að mikla fyrir mér að byrja að labba til vinnu. Ég lét undan þrýstingi frá vinnufélögunum því það er eitthvað svaka lið frá okkur í vinnustaðakeppninni Ísland á iði og ég gat ekki skorast undan þáttöku.

***

miðvikudagur, maí 03, 2006

Ég er ekki dauður, ekki í fangelsi og ekki farinn úr landi. Ég týndi aftur á móti módeminu úr tölvunni þegar ég ætlaði að bæta tölvu við tenginguna hjá okkur og hef því lítið komist á netið að undanförnu. Þetta hefur verið svo svæsið að ég fór online á 56K módeminu um daginn, það var þolinmæðisverk.