föstudagur, maí 19, 2006

Eftir 6 klukkutíma fer ég í loftið. Ég verð væntanlega rúmlega hálfan mánuð í burtu í þetta sinn, svo kem ég heim, set í þvottavél, hengi upp, pakka niður og fer svo aftur út.

***

Pabbi er orðinn fyrirsæta, hann birtist fyrst í bæjarblaðinu þar sem hann var nýkominn til vinnu á sínum hjólhesti og svo birtist hann í fréttablaðinu í dag. Hér má sjá myndina í mjög smækkaðri útgáfu.

***

Í fyrrakvöld fórum við á Nasa á tónleikana með Cocorosie, þær systur voru frábærar og stóðu undir öllum þeim væntingum sem hægt er að gera til tónleika. Það munaði litlu að ég missti af þeim en sökum frekju og þvergirðingsháttar náði ég að hrista vinnuna af mér fram að helgi og þessvegna komst ég með.

***

Mér líður eins og ég hafi verið kýldur í axlirnar, ég er helaumur en ekki marinn og var ekki kýldur heldur var bara þremur litlum nálum stungið í axlirnar og pínulitlu eitri sprautað inn. Þetta er gert til að halda hundaæðinu niðri en eins og flestir sem lesa þessa síðu vita smitaðist ég af hundaæði á ferð minni um Grímsey vorið 1924.

Eða ekki..... við vorum að ná okkur í fyrirbyggjandi viðhaldssprautur fyrir Kínaferðina sem verður vonandi farin á þessu ári.

***

Ég var staddur í Smáralind í gærkvöld þegar Ísland tapaði í Eurovision. Tilfinningin var soldið skrýtin því á þeim 64.000 fermetrum sem Smáralindin er var ég eini viðskiptavinurinn og ekki nóg með það því afgreiðslufólkið var heldur ekki sjáanlegt.
Mér leið eins og allar búðir væru lokaðar en gleymst hefði að loka þeim og slökkva ljósin.

Á einum stað sá ég hvar starfsfólk hafði safnast saman við lítið útvarpstæki uppi á annari hæð og horfði niður á fyrstu hæð þar sem mjög óskýrt sjónvarp stóð uppi á borði. Um leið og Sylvía hafði lokið séf af birtist fólkið í búðunum og ég var ekki lengur einn í heiminum.