þriðjudagur, apríl 26, 2005

Veiðin fer að byrja

Jæja þá fer veiðin að byrja og rétt að fara að huga að veiðileyfi sem gildir allt sumarið.

sunnudagur, apríl 24, 2005

Slappur penni

Það held ég að ég sé orðinn slappur penni því það er farin að líða heil vika milli skrifa hjá mér. Þetta orsakast að hluta af því að Meinvill er að vinna að ritgerð öll kvöld í tölvunni og ég reyni að halda mig fjarri á meðan og í þokkabót er svo mikið að gera í vinnunni að það er ekki venjulegt, það var ekki einusinni slegið af á sumardaginn fyrsta. Vonandi skilar þetta sér í umslagið.

*******

Vel á minnst gleðilegt sumar og takk fyrir veturinn.

*******

Ég fór á fyllerí í gær og var þunnur í morgun, þó ekki lengi því ég var vaknaður klukkan 8 og mættur við imbann til að sjá tímatökur í F1. Ég lagði mig síðan aftur því ég gat ómögulega farið að aðhafast neitt af viti fyrr en eftir kappaksturinn sem var vægast sagt geggjaður, orgelleikarinn frændi Meinvills kom til okkar um hádegi og horfði á formúluna með mér, mér til mikillar skemmtunar því hann fagnaði í hvert sinn sem rauði bíllinn reyndi framúrakstur en ég fagnaði þegar sá sem er í íkea litunum varðist.

Nú held ég að Sænski nýbúinn þurfi að fara að éta eitthvað ofan í sig sem hann sagði í upphafi tímabils þegar hann taldi víst að ég myndi bara fagna einusinni á tímabilinu.

********

Kjötsúpan var líka á fylleríi í gær og fór á kostum í kareoke sem veisluhaldarinn á. Ég slapp með skrekkinn því ég náði einhvern veginn að koma mér hjá að syngja í þetta apparat. úff hvað ég kaupi mér margar gerðir af raftækjum áður en ég fæ mér svona apparat.

sunnudagur, apríl 17, 2005

Kirkjulegar athafnir

Við Meinvill skunduðum í bókstaflegri merkingu niður í kirkju áðan til þess að sækja vottorð upp á að við værum lögformlega gift. Um leið og við stigum út úr húsinu byrjaði að rigna, það rigndi alveg þangað til við komum inn í safnaðarheimilið. Við hittum prestinn og fengum vottorðið eftir að hafa setið á bekk í nokkrar mínútur, þegar við komum út aftur byrjaði að rigna.

********

Ég heyrði um daginn þar sem var verið að tala við fermingarstjóra í útvarpinu. Fermingarstjóri er fulltrúi sýslumanns sem sér um að ferma fólk að borgaralegum hætti. Ég er nú ekki sá strangtrúaðasti en ég set nú samt spurningarmerki við borgaralega fermingu. Það er eins og mig minni að ég hafi staðfest skírnarheitið þegar ég fermdist, þeir sem eru mjög skýrir vita að skírn stendur fyrir hreinsun sbr skíragull= hreint gull. þannig að ekki staðfestir maður skírnarheiti við borgaralega fermingu, eitt af því sem var talið til í þessu viðtali var að maður kæmist í fullorðinna manna tölu við borgaralega fermingu, það er í besta falli bull því fólk kemst automatískt í fullorðinnamanna tölu tólf ára þegar það fer í strætó og sund en að öðru leiti þegar það nær átján ára aldri.

Mér finnst borgaraleg ferming soldið plebbaleg. Mér finnst eins og þeir sem ganga gegnum þann gjörning vera innit for ðe monní.

Ferming hefur ekkert vægi í lögum ólíkt brúðkaupi þar sem maður fær leyfi til að gera allan fjandann sem maður mátti ekki áður t.d að telja fram saman á skattframtali,þannig að ég held að þessi gjörningur sé eingöngu til að fólki finnist það ekki skilið útundan meðan hinir bólugröfnu ganga til altaris.

Hvernig þætti fólki ef maður gæti farið um hádegisbil á sunnudögum til sýslumanns og gengið að gjaldkerapúltinu til að fá léttvínssopa og bréfsnepil á tunguna, það mætti kalla það borgaralega altarisgöngu?

föstudagur, apríl 15, 2005

Ha!

Ég varð svona hissa þegar ég komst að því mér til mikillar undrunar að það var fenginn tónlistarmaðuir til að semja stefin sem heyrast þegar maður opnar windows, lokar því og allt það, ég vissi ekki hvað ég ætti að halda þegar ég sá að sá sem samdi stefin heitir Brian Eno og er einn af uppáhalds tónlistarmönnunum mínum.

Hvað er þetta?

Ég kveikti á svartholinu áðan til að horfa á gamlan Simpson þátt meðan ég raðaði poppinu upp í mig. Þegar þátturinn var búinn svissaði ég yfir á popptíví, þar var þátturinn sem kemur í staðinn fyrir jing og jang sem tók við af snilldarþættinum 70 mínútum. Ekki veit ég hvað þátturinn heitir en ég veit þó að ég entist ekki nema 5 mínútur yfir honum, þvílíkur hörmungarþáttur.
Það eru álíka miklar líkur á að þessi þáttur hvað sem hann heitir verði vinsæll og að þeim félugum takist að draga þetta á loft.

**********

Alveg er þessi sjö ára tölvuskjár að geispa golunni, mig langar í stóran flatan skjá, skjávarpi gæti líka dugað.

**********

Ég er búinn að vera nokkuð duglegur undanfarin kvöld við að hjálpa pabba og Árna að standsetja íbúðina sem litla innflytjendafjölskyldan ætlar að búa í. Maður er að verða sjóaður í múrverki og öllu sem því fylgir. Þeim liggur reyndar svo mikið á að ég held þeir hafi verið í startholunum með að bera sófasettið inn áður en múrverkinu lauk.

*********

Ég vanafasti maðurinn er farinn að nota nýjan vafra á netinu, jamm explorerinn varð svo hryllilega leiðinlegur eftir stóru öryggisuppfærslurnar að ég tók mig til og náði mér í nokkuð sniðugan vafra sem heitir Firefox og er ókeypis á download.com. Við fyrstu skoðun er þessi vafri bara nokkuð sniðugur einhverjir nýjir takkar sem maður setur á þá staði sem manni hentar best og svo er fídus sem heitir live bookmarks, þar getur maður sett bookmark sem er nokkurskonar mappa sem uppfærist um leið og síðan sem bookmarkið er á er uppfærð, ef maður er með fréttasíðu í þessu kerfi þá koma fyrirsagnirnar í þessa möppu og maður þarf ekki að opna síðuna og skrolla niður til að vita hvað er títt, semsagt sniðugt.

Eini stóri gallinn sem ég sé við þennann vafra er að password managerinn kann ekki á hann þannig að ef ég ætla að blogga þarf ég að opna explorerinn því ég man ekki passwordið á síðuna og þó ég myndi það þá nennti ég ekki að skrifa í þessa tvo reiti meðan ég er með forrit sem getur gert það fyrir mig.

sunnudagur, apríl 10, 2005

Falleg framtíðarsýn

Já ég eins og aðrir, fagna öllum eftirlitsstofnunum sem hið opinbera setur á stofn. Hvar værum við án Samkeppnisstofnunar sem sér til að við getum verslað í samkeppnisumhverfi, Heilbrigðiseftirlits sem sér til að við borðum ekki einhvern óþverra sem gæti drepið okkur, Fiskistofu sem sér til að við veiðum ekki of mikinn fisk og að hann fái viðunandi meðferð, Vinnueftirlit sem gerir skýrslur ef við slösum okkur á búnaði sem þeir áttu að vera búnir að banna fyrir löngu og svo er það nýja stofnunin sem ekki hefur fengið nafn enn. Systurstofnun nýju stofnunarinnar var með höfuðstöðvar í Berlín, þýska systurstofnunin átti líka búnað til að hlera síma eins og sú Íslenska á að gera og þeir áttu líka færanlegar eftirlitsmyndavélar sennilega til að gæta alls velsæmis verst að netið varð ekki almenningseign fyrir lok þýsku stofnunarinnar því þá hefði mátt nota gamla aflagða neteftirlitsbúnaðinn.

Það held ég nú. Það verður nú ekki ónýtt þegar maður getur hringt í eftirlitsmálaráðherrann og spurt hann hvort hann geti ekki haft uppi á vefsíðu sem maður skoðaði fyrir tæpu ári síðan því það er bara alveg stolið úr mér hvað hún heitir, þá flettir ráðherrann bara upp í gagnagrunninum og á örskotsstund fær maður link á týndu síðuna sína aftur.

Það verður heldur ekki ónýtt ef maður gleymir einu eða tveimur atriðum sem viðmælandi manns sagði í síðasta símtali, þá frekar en að hringja til baka og bera upp erindið aftur hringir maður bara í eftirlitsmálaráðherrann og fær upptöku af símtalinu.

Síðast en ekki síst, hver hefur ekki tekið vitlausa beygju á sveitavegi og er ekki alveg viss hvar hann er staddur? jebb Sturla er með svarið því hann ætlar að setja staðsetningarbúnað í alla bíla, þá má bara hringja í hann og spyrja til vegar.

Svo að síðustu á að setja upp útvarpsnefnd sem á að fylgjast með því að útvarpsstöðvar haldi sig við áður auglýsta dagskrá og dagskrárstefnu. ljómandi ljómandi þá þarf maður ekki að hafa áhyggjur af því að fm957 fari að halda uppi áróðri gegn ríkjandi stjórnvöldum as if.

laugardagur, apríl 09, 2005

Og ekki má gleyma því

Listmálarabóksalinn opnaði sýninguna Endurheimt í dag í Hafnarborg og var oss boðið ásamt miklum fyrirmennum, flott sýning sem vert er að skoða. Til lykke Jóhannes

Hafnarborg

Stórfjölskyldan

Þá hefur litla stórfjölskyldan sameinast aftur, í fyrsta sinn í mörg ár búum við öll systkynin í sama landinu. Velkominn heim Bauni bró, damn verð að finna nýtt gælunafn á hann.

*********

Kjötsúpan (mágkonan sem ég kalla alltaf tengdó) er búin að fá sér kött, ég hef ekki séð kvikindið ennþá en ég verð að viðurkenna að ég er efins um að ég fái nokkurntíman að sjá hann því hún er búin að hringja nokkrum sinnum í okkur í kvöld til að fá leiðbeiningar um hvernig á að nota klór til bleikingar. Ég er viss um að hún ætlar að breyta litnum á kettinum til samræmis við annað stáss á heimili sínu. Jebb hvítur köttur fer bara svo miklu betur við sófann.

*********

Ég var að fá meira Amazon á mánudaginn, nokkrir diskar enn og eitthvað smá Simpsons, Meinvill fékk Schissor sisters homma og lessubandið og Gwen Stefani. Ég fékk meira með Modest Mouse, Kasabian og Chemical brothers. Það mætti halda að árið 1996 væri komið aftur því ekki nóg með að ég hafi keypt disk með Chemical Brothers heldur spilaði Goldie á Nasa í gærkvöld.

Ég fór ekki að sjá hann því það gæti beyglað minninguna um það þegar við Bauni Bró fórum í eftirpartý hjá Björk á Tunglinu sáluga, þegar ég var búinn að smygla brósa inn (hann var of ungur) fórum við á barinn og keyptum okkur hressingu. Þegar drykkurinn kom snerum við okkur að dansgólfinu sem ekkert sást í fyrir reyk(þetta var samt löngu áður en tunglið brann), þegar rofa tók til sáum við hvar átrúnaðargoðið okkar stóð á sviðinu og þeytti skífum af miklum móð.

Alveg var það nú óvart að við duttum inn í þetta partý, það vildi bara til að dyravörðurinn var skólafélagi minn og þetta var eini staðurinn sem ég var nokkuð viss um að koma brósa inn á.
Þrusu partý!

*********

Ég er orðinn gamall plebbi því ég horfði bæði á Gísla Martein og spaugstofuna áðan. Gísla horfði ég á af því að þátturinn var tileinkaður Megasi en spaugsofuna sá ég af því að ég er orðinn svo svifa seinn að ég náði bara ekki að skipta um stöð nógu tímanlega.

Það eru æðislegir þættir byrjaðir á fimmtudagskvöldum í ríkissvartholinu, þeir heita Little Britain, ég er bara búinn að sjá einn þátt en ég er næstum búinn að kaupa alla seríuna á DVD.

********

Ég sá son framsóknarflokksins fjasa aftan á Fréttablaðinu í dag yfir fyndnustu auglýsingum sem gerðar hafa verið á Íslandi síðan Þorsteinn Guðmundsson gerði auglýsingarnar fyrir Esso um árið. Þetta eru að sjálfsögðu auglýsingarnar frá umferðastofu þar sem c.a fjögurra eða fimm ára strákur fer á kostum í hlutverki ökumanns þríhjóls sem tvær stelpur á kassabíl þvælast fyrir.

Þeir sem hafa ekki séð auglýsinguna sem ég er að tala um geta smellt hér

þriðjudagur, apríl 05, 2005

Hvar er sumarið?

Sumarblíðan 1. Apríl hefur sennilega verið gabb því það er enn hávetur. Ég var búinn að setja rúðusköfuna í geymslu og var búinn kaupa sumarlegt lyktarspjald í bílinn, en neeeeiiiii nú skal skafan tekin upp aftur og draumur um að kaupa topplúgu á Hyundai verður að bíða vors.

*********

Mig langar að fara að veiða! Þetta er árleg pest. Mig langar líka mikið að skella mér til útlanda, ég hef reyndar ekkert gert í því að koma okkur af landi brott. Brúðkaupsferð er reyndar ágætis ástæða til að koma sér af landi brott.

Á síðast ári fór ég sjö sinnum til útlanda, sex sinnum til Færeyja og einusinni til London.

sunnudagur, apríl 03, 2005

Til hamingju

Til hamingju með afmælið Olli!

Hann á afmæl´í dag hann á afmæl´í dag hann á afmæl´ann Olli hann á afmæl´í dag. eð eitthvað svoleiðis húrra húrra húrra.

föstudagur, apríl 01, 2005

Framsókn

Já það kom berlega í ljós í hádeginu í dag að Auðun Georg Ólafsson er framsóknamaður frá A-Ö. Í hádegisfréttum ríkisútvarpsins var viðtal við þennan mann þar sem hann játaði og neitaði sömu spurningunni á víxl og svo staðfesti hann með óyggjandi hætti að hann væri framsóknarmaður með því að segjast ekki muna eftir fundi sem hann sat með formanni útvarpsráðs í GÆR. Hljómar svolítið eins og Steingrímur nokkur Hermannsson sem sagðist gjarnan ekki muna eftir því sem hann vildi ekki ræða.