þriðjudagur, maí 27, 2008




Ég labbaði á Húsfell í kvöld, það var nú aldeilis gaman.

sunnudagur, maí 25, 2008





fimmtudagur, maí 22, 2008

Jæja þá er ég orðinn stjórnarmaður í húsfélaginu. Þetta er embætti sem fáir kæra sig um en einhver verður að sinna. Ég var reyndar eini stjórnarmaðurinn sem mætti á síðasta fund þar sem stjórnin var kosin og því kom það í minn hlut að ganga milli íbúða og segja hinum meðlimunum fréttirnar. Mér fannst það ekkert leiðinlegt alltaf gaman að geta sagt fólki góðar fréttir. Ég náði ekki í stelpuna sem var gerð að formanni þannig að ég veit ekki hvort einhver annar hefur sagt henni hvaða embætti hún gegnir. Hún verður örugglega glöð þegar hún fréttir þetta og áttar sig á að eina undankomuleiðin úr embætti er að selja og flytja.

Fyrir mörgum árum þegar við bjuggum á gamla staðnum, þá missti ég af húsfundi vegna þess að við vorum í London. Ég hafði gefið nágranna mínum umboð til að kjósa um eitthvað sem ég man ekki hvað var og tók fram í leiðinni að ég kærði mig ekki um að fara í stjórn.

Ég taldi mig vel sloppinn og hélt ég væri laus allra mála næsta árið, en svo var ekki því ég var gerður skoðunarmaður reikninga. Ég fékk fréttirnar þegar ég var í veiðibúðinni að leita mér að einhverjum veiðibúnaði. Strákur úr næsta stigagangi pikkaði í mig og sagði mér fréttirnar. Ég varð náttúrulega hundfúll yfir þessu þar til ég sá að þetta var það næst léttasta sem hægt er að gera í húsfélagi. Upp frá þessu bauð ég mig alltaf fram í þetta sama embætti um leið og byrjað var að kjósa í stjórn því þá var ég laus við formanns og gjaldkeraembættin og gat horft framan í nágrannana meðan þeir biðu eftir að kosningin liði hjá.

mánudagur, maí 19, 2008



föstudagur, maí 16, 2008

Ég fór um daginn og keypti mér slöngu í afturdekkið á hjólinu mínu. Ég held nefnilega að ég hafi hjólað eftir gaddavír um daginn því gamla slangan var eins og sigti. Ég var búinn að setja bót á hana en það dugði ekki til þannig að ég fór og keypti nýja. Ég ákvað líka að kaupa líka pumpu, ég tók nefnilega eftir því að á dekkinu stendur að það eigi að vera 40-65 psi þrýstingur í því og ég næ ekki svo miklum þrýstingi með vasapumpunni. Ég fékk pumpu sem er eins og gömlu rússapumpurnar nema bara úr plasti og með þrýstingsmæli.

Það er svaka munur að hjóla eftir að ég náði að troða öllu þessu lofti í dekkin og nú mega hestamennirnir fara að passa sig. Ég las einhvern hluta vegalaganna í gær til að átta mig á hver staða hjólreiða er gagnvart hestaumferð. Ég komst að því að ef hesti er riðið eftir akvegi og annað ökutæki kemur eftir sama vegi þá ber hestamanninum að víkja svo hitt ökutækið komist hjá.

Þetta minnti mig á atvik sem ég varð vitni að fyrir nokkrum árum á leið inn í Dómadal. Ef ég man rétt þá vorum við Olli þar á leið inn á Landmannaafrétt í veiði þegar við lentum í bílalest sem hékk aftan við hestamenn, við vorum á þriðja eða fjórða bíl í röðinni. Á undan riðu einhverjir snillingar á c.a 15 kmh þeir litu öðru hvoru um öxl þannig að þeir vissu vel af öllum bílunum á eftir þeim, en þeir gerðu samt ekkert til að hleypa hópnum framúr. Þetta hefur þeim sennilega þótt alveg drep fyndið, þangað til við komum niður brekkuna að Dómadalsá, þá riðu vitleysingarnir út af veginum og fyrsti bíll komst af stað. Sá sem var á bíl nr 2, sem var stór breyttur land cruiser, var samt heldur pirraðari en sá á fremsta bílnum þannig að þegar hestarnir beygðu niður ána þá tók nr 2 sig til og stökk á jeppanum fram af veginum og út í ána með tilheyrandi gusugangi yfir hestakallana. Bílarnir sem á eftir komu hristust vegna fagnaðarláta en hestakallarnir hættu all snarlega að hlæja að þeim sem þeir voru búnir að tefja.

mánudagur, maí 12, 2008

Dagurinn er enn sem komið er mjög góður. Ég svaf út í morgun eftir skemmtilega sveitaferð um helgina, við gengum frá farangrinum og svo gerði ég við sprungna dekkið á hjólinu mínu. Ég held ég hafi hjólað yfir gaddavír eða eitthvað slíkt því það voru tvö áþekk göt á slöngunni , ég fann heldur ekki fyrir neinu höggi áður en loftið hvarf þannig að það hefur eitthvað stungist inn í dekkið.

Ég fór út til að tilkeyra bótina á dekkinu áðan, leiðin lá eins og svo oft áður upp í Kaldársel. Ég nennti ekki að fara upp að Helgafelli og því síður að labba upp á það þannig að ég sneri við hjá hliðinu inn að vatnsveitunni og ákvað að hjóla annan veg til baka. Sá vegur liggur örlítið vestar en aðalleiðin og er ekki malbikaður. Þegar ég var búinn að hjóla 2-300 metra inn á veginn mætti ég hestamönnum, annar þeirra heilsaði mér en hinn bað mig að stoppa. Sá sem heilsaði er gamall maður sem vann til margra ára með pabba, ég heilsaði á móti og stoppaði til að hleypa þeim framhjá. Svo hjólaði ég c.a. kílómeter áður en ég mætti eldri hjónum, ég hægði á mér, bauð þeim góðan dag og hélt svo áfram, þau tóku undir og allir voru glaðir.

Svo hjólaði ég nokkur hundruð metra og mætti þá þremur hestamönnum í viðbót, einn reið á mínum vegarhelmingi og gerði sig ekki líklegan til að víkja, ég hægði á mér til að sjá hvort hann myndi ekki gefa sig og fara á sinn helming en ekkert gerðist þannig að ég stoppaði. Sá sem fór fyrir hópnum var ekki svo hress og sagði mér að ég væri á reiðvegi, ég leiðrétti hann og benti honum á að þetta væri akvegur, þá sagði hann mér að þetta væri nokkurskonar reiðvegur því það færu svo margir um þennan veg á hestum. Svo þuldi hann yfir mér að það færi illa saman að hjólreiðamenn stunduðu sínar hjólreiðar nærri hesthúsum og við ættum hreinlega að vera annarsstaðar. Ég hristi hausinn af undrun. Hann endaði svo á að biðja mig að íhuga það að koma ekki aftur á hjóli á þennan stað, ég svaraði honum með einföldu NEI-I, þá kallaði hann mig öðling og með það fór ég heim. Ég er ekki frá því að hann hafi meint eitthvað annað en að ég væri alvöru öðlingur.

Það er einhver bölvuð árátta hjá hestamönnum að ríða eftir akvegum og bölsótast svo út í alla aðra sem nýta sér þessar samgönguleiðir á öðrum tækjum en truntum.

Eftir þetta samtal við hestamanninn ætla ég alltaf að hjóla þessa leið til baka úr Kaldárseli og ætla að reyna að hafa jafn gaman af því og í dag.

föstudagur, maí 09, 2008

Í fyrrakvöld fór ég út að hjóla. Ég hjólaði upp að Helgafelli, lagði hjólinu þar og hljóp svo upp á fjallið. Ég var 20 mínútur upp og 10 niður, svo settist ég á hjólið og hjólaði heim. Þetta allt saman tók einn klukkutíma og þrjátíu og fimm mínútur.

Í gær ætlaði ég að endurtaka leikinn og reyna að bæta tímann. Það tókst ekki sökum þess að þegar ég var búinn að labba á fjallið og var á leið niður á veg aftur, þá heyrðist hviss úr afturdekkinu á hjólinu og ég varð að hætta við tilraunina og láta sækja mig. Í dag þarf ég því að finna bætur og leggjast í viðgerð á dekkinu.

sunnudagur, maí 04, 2008

Við pabbi skruppum í labbitúr upp að Tröllafossi á Mosfellsheiði á fimmtudag.



Ég skrapp í Bláfjöll til að prófa fjallaskíði og skó saman á mánudagskvöldið. Það gekk bara ágætlega þannig að ég ákvað að fara á Snæfellsjökul á þeim um helgina en hefði betur sleppt því.

Við Natalía sáum þennan minnk í bæjarlæknum á föstudag þegar við fengum okkur spássitúr.


Það getur þurft að smella á myndina til að finna kvikindið því hann fellur ágætlega inn í umhverfið, allavega í tölvunni sem ég er í.