fimmtudagur, maí 22, 2008

Jæja þá er ég orðinn stjórnarmaður í húsfélaginu. Þetta er embætti sem fáir kæra sig um en einhver verður að sinna. Ég var reyndar eini stjórnarmaðurinn sem mætti á síðasta fund þar sem stjórnin var kosin og því kom það í minn hlut að ganga milli íbúða og segja hinum meðlimunum fréttirnar. Mér fannst það ekkert leiðinlegt alltaf gaman að geta sagt fólki góðar fréttir. Ég náði ekki í stelpuna sem var gerð að formanni þannig að ég veit ekki hvort einhver annar hefur sagt henni hvaða embætti hún gegnir. Hún verður örugglega glöð þegar hún fréttir þetta og áttar sig á að eina undankomuleiðin úr embætti er að selja og flytja.

Fyrir mörgum árum þegar við bjuggum á gamla staðnum, þá missti ég af húsfundi vegna þess að við vorum í London. Ég hafði gefið nágranna mínum umboð til að kjósa um eitthvað sem ég man ekki hvað var og tók fram í leiðinni að ég kærði mig ekki um að fara í stjórn.

Ég taldi mig vel sloppinn og hélt ég væri laus allra mála næsta árið, en svo var ekki því ég var gerður skoðunarmaður reikninga. Ég fékk fréttirnar þegar ég var í veiðibúðinni að leita mér að einhverjum veiðibúnaði. Strákur úr næsta stigagangi pikkaði í mig og sagði mér fréttirnar. Ég varð náttúrulega hundfúll yfir þessu þar til ég sá að þetta var það næst léttasta sem hægt er að gera í húsfélagi. Upp frá þessu bauð ég mig alltaf fram í þetta sama embætti um leið og byrjað var að kjósa í stjórn því þá var ég laus við formanns og gjaldkeraembættin og gat horft framan í nágrannana meðan þeir biðu eftir að kosningin liði hjá.