Dagurinn er enn sem komið er mjög góður. Ég svaf út í morgun eftir skemmtilega sveitaferð um helgina, við gengum frá farangrinum og svo gerði ég við sprungna dekkið á hjólinu mínu. Ég held ég hafi hjólað yfir gaddavír eða eitthvað slíkt því það voru tvö áþekk göt á slöngunni , ég fann heldur ekki fyrir neinu höggi áður en loftið hvarf þannig að það hefur eitthvað stungist inn í dekkið.
Ég fór út til að tilkeyra bótina á dekkinu áðan, leiðin lá eins og svo oft áður upp í Kaldársel. Ég nennti ekki að fara upp að Helgafelli og því síður að labba upp á það þannig að ég sneri við hjá hliðinu inn að vatnsveitunni og ákvað að hjóla annan veg til baka. Sá vegur liggur örlítið vestar en aðalleiðin og er ekki malbikaður. Þegar ég var búinn að hjóla 2-300 metra inn á veginn mætti ég hestamönnum, annar þeirra heilsaði mér en hinn bað mig að stoppa. Sá sem heilsaði er gamall maður sem vann til margra ára með pabba, ég heilsaði á móti og stoppaði til að hleypa þeim framhjá. Svo hjólaði ég c.a. kílómeter áður en ég mætti eldri hjónum, ég hægði á mér, bauð þeim góðan dag og hélt svo áfram, þau tóku undir og allir voru glaðir.
Svo hjólaði ég nokkur hundruð metra og mætti þá þremur hestamönnum í viðbót, einn reið á mínum vegarhelmingi og gerði sig ekki líklegan til að víkja, ég hægði á mér til að sjá hvort hann myndi ekki gefa sig og fara á sinn helming en ekkert gerðist þannig að ég stoppaði. Sá sem fór fyrir hópnum var ekki svo hress og sagði mér að ég væri á reiðvegi, ég leiðrétti hann og benti honum á að þetta væri akvegur, þá sagði hann mér að þetta væri nokkurskonar reiðvegur því það færu svo margir um þennan veg á hestum. Svo þuldi hann yfir mér að það færi illa saman að hjólreiðamenn stunduðu sínar hjólreiðar nærri hesthúsum og við ættum hreinlega að vera annarsstaðar. Ég hristi hausinn af undrun. Hann endaði svo á að biðja mig að íhuga það að koma ekki aftur á hjóli á þennan stað, ég svaraði honum með einföldu NEI-I, þá kallaði hann mig öðling og með það fór ég heim. Ég er ekki frá því að hann hafi meint eitthvað annað en að ég væri alvöru öðlingur.
Það er einhver bölvuð árátta hjá hestamönnum að ríða eftir akvegum og bölsótast svo út í alla aðra sem nýta sér þessar samgönguleiðir á öðrum tækjum en truntum.
Eftir þetta samtal við hestamanninn ætla ég alltaf að hjóla þessa leið til baka úr Kaldárseli og ætla að reyna að hafa jafn gaman af því og í dag.
<< Home