sunnudagur, apríl 20, 2008

Í gær fórum við Giggo út að labba. Við fórum fyrst og skoðuðum útfallið af einu stærsta ferskvatnsneðanjarðarvatnsfalli landsins í Straumsvík. Við mættum á staðinn á fjöru þannig að maður sá vel hvurslags vatnsflumur gusast út úr hrauninu. Það er frekar magnað að standa á grófri möl í fjörunni og sjá heila á birtast undan tánum á manni án þess að maður verði neitt blautur í lappirnar.

Þegar við vorum búnir að labba um fjöruna og skoða ár sem komu ýmist beljandi upp úr jörðinni eða hurfu ofan í jörðina og komu svo annarsstaðar upp þá settumst við aftur upp í bíl og færðum okkur að Óttastaðaborg. Þar lögðum við af stað í c.a 9 km labb um hraunið ofan Hafnarfjarðar. Við löbbuðum yfir Alfaraleið og sem leið lá upp í Tóhóla þar sem við snerum við og gengum aftur niður í bíl. Við sáum nokkrar rjúpur og mynduðum og virtum fyrir okkur landslagið.