Best að blanda sér aðeins í þjóðmálin. Mér finnst mótmæli vörubílstjóranna gegn háu olíuverði ekki sniðug. Aftur á móti get ég alveg stutt þá í að það mættu vera fleiri hvíldarstæði svo þeir geti fengið sér lúr við þjóðvegina. Það er nú bara þannig að stjórnvöld hafa voðalega lítið með hækkun eldsneytisverðs að gera. Þetta ræðst allt meira og minna af heimsmarkaðsverði.
Í fyrrasumar lokaði hópur umhverfisverndarsinna Snorrabraut í einhvern smá tíma en eins og flestir vita liggur Snorrabraut þannig að það er hægt að komast framhjá henni á marga vegu án þess að festast eitthvað að ráði. Lögreglan var umsvifalaust send á staðinn til að yfirbuga óróaseggina og þeir gengu býsna hart fram við að snúa suma niður, miðað við fréttaflutning af því.
Ég er nokkuð viss um að enginn hefur tafist neitt að ráði við þessa aðgerð sem fór fram í sól og blíðu seint í júlí, þegar felstir eru í fríi og þeir sem tefjast á Snorrabraut eru einna helst á leið niður í Aktu taktu til að kaupa sér ís eða frá Aktu taktu með ís í maganum.
Í gær stöðvuðu trukkarnir fólk sem var á leið í og úr flugi, þeim fannst allt í lagi að tefja fólkið því áhafnir flugvélanna voru líka fastar í þvögunni og þessvegna væru allir jafn seinir. Þetta var jafn grunnt hugsað og flest annað í þessum mótmælum því svona vitleysisgangur getur kostað það að fólk missir af tengiflugi og getur þess vegna lent í miklum hremmingum og getur verið keðjuverkandi. Það er ekki hægt að ætlast til að malarkeyrandi trukkabílstjórar viti það enda er alltaf beint flug til Benidorm.
Þegar þeir voru hættir að trufla flugfarþega og suðurnesjamenn fóru þeir og lokuðu tengingu Hafnfirðinga og Garðbæinga við helstu heibrigðisstofnanir landsins. Afleiðingarnar sáust í fréttum Ruv í gærkvöld þegar eitthvað konugrey var að reyna að koma pabba sínum á spítala en sá var í miðju hjartaáfalli.Hún mátti gjöra svo vel að aka eftir umferðareyju á móti umferð til að koma kallinum til læknis.
Þrátt fyrir allt þetta gerir lögreglan ekkert til að opna vegina. Enginn handtekinn og enginn snúinn niður.
Svo virðist sem lögreglustjóranum finnist mikilvægara að halda Snorrabrautinni opinni að sumarlagi þannig að fólk komist til að kaupa sér ís.
Já eða einhverjum vinnuvélavegi uppi á hálendi.
<< Home