miðvikudagur, apríl 02, 2008

Bubbi byggir er í tækinu og við sitjum spennt og mjálmum og vrúmmum eftir því hvað er á skjánum.

***

Ég hljóp ekki apríl í gær, en ég keypti aftur á móti bensín. Ég hugsaði þegar ég var búinn að versla í matinn að nú væri rétt að fylla tankinn áður en næsta hækkun yrði. Það kostaði 8500 kall að fylla í þetta sinn. Þegar ég fékk mér svo morgunsopann áðan sá ég í einhverju blaðanna að N1 er með tilboð í dag, -25 kall af líternum. Þetta er sennilega ekki eins gott og það hljómar því þetta er væntanlega miðað við fulla þjónustu og þar af leiðandi miðað við þau kjör sem ég er með hjá þeim má segja að þetta sé -14 kr afsláttur sem er þó allnokkuð. Ég er búinn að vera með viðskiptakort frá þeim síðan í haust en hef bara notað það tvisvar til að kaupa bensín og tvisvar til að kaupa rekstrarvörur fyrir bílinn. Það er nefnilega þannig að afslátturinn sem þeir gáfu upp í skilmálunum er ekki meiri en svo að ég versla ennþá á sjálfsafgreiðslustöðvunum og held þannig krónunum inni á reikningnum mínum í stað þess að safna inn á reikning hjá bensínstöðinni. Það er eitthvað kaupfélagslegt við að safna inn á reikning hjá fyrirtæki og geta svo bara tekið sparnaðinn út í vörum hjá þeim.

Má ég þá heldur biðja um ódýrara bensín og geyma sparnaðinn sjálfur og stjórna sjálfur hvar ég eyði honum.