Fyrst maður er kominn í tuðgírinn þá er ekki úr vegi að halda aðeins áfram.
Þegar við bjuggum á Sléttahrauni versluðum við oft í Nóatúni enda er sú búð nánast við endann á götunni. Ég reyndi þó að beina viðskiptunum annað eftir framsta megni af tveimur ástæðum. Ef ég þurfti að kaupa fleiri hluti en ég gat borið án þess að nota innkaupakörfu þá fór ég annað því körfurnar hjá þeim eru svo drullugar að mér dytti ekki einusinni í hug að setja sápubrúsa ofan í þær.
Í gær vantaði mig hreinsiefni til að hreinsa uppþvottavélina okkar. Hún var nefnilega orðin þannig að fyrst þvoði maður í henni og tíndi svo allt út og þvoði í vaskinum. Ég brunaði því í Krónuna við Hvaleyrarbraut því hún er opin til níu. Þegar ég kom þar inn fékk ég á tilfinninguna að þessari búð hefði verið lokað fyrir einhverju síðan en gleymst að læsa henni því gólfið var skítugt, hillumerkingar á hvolfi(ef þær voru þá til staðar) og innréttingarnar allar eins og þær ættu bara eftir að detta í gólfið, fyrir utan að þær voru meira og minna hálf tómar.
Ég greip það sem mig vantaði og eitt eða tvennt sem mig vantaði ekki(nammi) og fór svo í röðina við kassann. Röðin silaðist hægt áfram enda bara tveir af þremur kössum opnir, tvær stelpur merktar versluninni hengsluðust um rétt hjá kössunum og töluðu hátt um að einhver strákur væri á lausu. Fullorðinn kall sem stóð fyrir aftan mig spurði hvort þær gætu ekki opnað þriðja kassann svo þetta gengi hraðar en þá hvæsti önnur stelpan á hann að þær væru að gera annað.
Þegar ég kom svo að kassanum varð mér litið á innkaupakörfurnar og sá þá að þær eru jafn skítugar þarna og í systurverslunum Krónunnar, þ.e Nóatúni.
Nú ætla ég ekki að fullyrða um að þetta sé eitthvað fullkomið hjá keppinautunum, en ég get þó sagt að Samkaup og Fjarðarkaup bjóða upp á stálkörfur en Bónus virðist annaðhvort eiga þvottavél eða þá hefur starfsfólkið metnað til að halda körfunum hreinum því ég hef ekki tekið eftir svona sóðaskap hjá þeim.
<< Home