laugardagur, apríl 05, 2008

Ég sá að það var verið að taka í notkun nýjan komusal í flugstöðinni á Egilsstaðaflugvelli. Ég minnist þess ekki að það hafa verið eitthvað sérstaklega þröngt um mann í þeirri flugstöð þau skipti sem ég hef farið þar í gegn. Ég hef líka farið um Akureyrarflugvöll og flugvöllinn á Ísafirði. Ef ég man rétt þá eru þetta alltsaman ágætar byggingar, snyrtilegar og bjartar. Kannski sísta aðstaðan fyrir vestan.

Ég hef líka farið um Reykjavíkurflugvöll oftar en ég hef tölu á bæði í innanlandsflug og millilandaflug. Þar er farþegum boðið upp á húskofa sem hefur verið byggður utan um bragga sem bretarnir skildu eftir handa Íslendingum þegar þeir fóru. Komusalurinn fyrir millilandaflugið er álíka stór og stofan okkar og einn færibandssturbbur sirka fjögurra metra langur og endar út í horni þar sem töskurnar hrúgast upp og fólk treðst um hvert annað til að finna það sem því tilheyrir.

Ef það á að vera flugvöllur í Vatnsmýri þá verður að vera einhver aðstaða fyrir farþega. Svo einfalt er það. En það er eins og allir samgönguráðherrar séu talsmenn landsbyggðarinnar og settir í embætti til að greiða götu allra annarra en íbúa höfuðborgarsvæðisins. Samanber það að nú er búið að klassa upp flugstöðina á Egilsstöðum meðan höfuðstöðvar innanlandsflugsins eru í bragga sem heldur hvorki vatni né vindum. Ef maður á leið um Reykjavíkurflugvöll í vondu veðri um vetur er eins gott að klæða sig til útiveru því það er mjög kalt þar inni.