föstudagur, maí 16, 2008

Ég fór um daginn og keypti mér slöngu í afturdekkið á hjólinu mínu. Ég held nefnilega að ég hafi hjólað eftir gaddavír um daginn því gamla slangan var eins og sigti. Ég var búinn að setja bót á hana en það dugði ekki til þannig að ég fór og keypti nýja. Ég ákvað líka að kaupa líka pumpu, ég tók nefnilega eftir því að á dekkinu stendur að það eigi að vera 40-65 psi þrýstingur í því og ég næ ekki svo miklum þrýstingi með vasapumpunni. Ég fékk pumpu sem er eins og gömlu rússapumpurnar nema bara úr plasti og með þrýstingsmæli.

Það er svaka munur að hjóla eftir að ég náði að troða öllu þessu lofti í dekkin og nú mega hestamennirnir fara að passa sig. Ég las einhvern hluta vegalaganna í gær til að átta mig á hver staða hjólreiða er gagnvart hestaumferð. Ég komst að því að ef hesti er riðið eftir akvegi og annað ökutæki kemur eftir sama vegi þá ber hestamanninum að víkja svo hitt ökutækið komist hjá.

Þetta minnti mig á atvik sem ég varð vitni að fyrir nokkrum árum á leið inn í Dómadal. Ef ég man rétt þá vorum við Olli þar á leið inn á Landmannaafrétt í veiði þegar við lentum í bílalest sem hékk aftan við hestamenn, við vorum á þriðja eða fjórða bíl í röðinni. Á undan riðu einhverjir snillingar á c.a 15 kmh þeir litu öðru hvoru um öxl þannig að þeir vissu vel af öllum bílunum á eftir þeim, en þeir gerðu samt ekkert til að hleypa hópnum framúr. Þetta hefur þeim sennilega þótt alveg drep fyndið, þangað til við komum niður brekkuna að Dómadalsá, þá riðu vitleysingarnir út af veginum og fyrsti bíll komst af stað. Sá sem var á bíl nr 2, sem var stór breyttur land cruiser, var samt heldur pirraðari en sá á fremsta bílnum þannig að þegar hestarnir beygðu niður ána þá tók nr 2 sig til og stökk á jeppanum fram af veginum og út í ána með tilheyrandi gusugangi yfir hestakallana. Bílarnir sem á eftir komu hristust vegna fagnaðarláta en hestakallarnir hættu all snarlega að hlæja að þeim sem þeir voru búnir að tefja.