mánudagur, nóvember 27, 2006

Ég fór á jólaball á Laugadagskvöld. Það verður að segjast eins og er að árshátíðir og jólaböll á íslandi verða ansi lítilfjörleg í framtíðinni eftir að hafa upplifað þetta. 130 manns mættu á ballið þar sem allt var á reikning fyrirtækisins og þá meina ég allt.

Ballið var haldið í félagsheimili bæjarins sem er í aðeins tveggja mínútna göngufæri frá húsinu okkar. Við mættum þangað klukkan rétt rúmlega sjö og fengum fordrykk svo var matsalurinn opnaður og okkur hleypt að borðunum. Við ráfuðum um salinn í smá stund og vissum ekkert hvar við ættum að sitja þegar forstjórinn kallaði í okkur og skipaði okkur að sitja hjá sér. Við hlýddum því. Þegar allir voru sestir stóð forstjórinn upp og bauð starfsmenn, maka og Íslensku vini sína velkomna á þessa samkomu, það var soldið gaman.

Öllum sætum fylgdi söngbók upp á rúmlega 100 söngtexta á færeysku, dönsku og ensku á 48 síðum. Við vorum varla búnir að reka gafflana í forréttinn þegar fyrst var staðið upp og byrjað að syngja. Eftir því sem á leið fór maður einhverra hluta vegna að ná færeyskunni betur og svo ekki sé talað um dönskuna.

Þegar forrétturinn var búinn og diskarnir farnir tók við spurningakeppni þar sem salnum var skipt í tvö lið. spurningarnar voru kjánalegar og fengnar úr fyndnum bíóklippum af netinu. Við töpuðum því.

Næst kom aðalrétturinn og þar söng fólk nokkur lög með fullan munn og allir héldust í hendur og vögguðu í takt við tónlistina.

Eftir aðalrétt komu vinsælustu skemmtikraftar Færeyja (halli og laddi) og trylltu salinn með gríni sem við félagar skildum ekki nema að litlu leyti. Svo var sungið.

Næst var komið að heimatilbúnu skemmtiatriði þar sem einhleypi vinnufélagi minn varð fyrir barðinu á skemmtidagskránni þar sem níðst var á honum fyrir kvenmannsleysið. Aftur þurftum við túlk til að fá botn í brandarann.

Svo var sungið fram að eftirréttinum.

Skemmtiatriðum og áti lauk rétt eftir miðnætti og þá tók við drykkja á barnum og dansleikur sem stóð til klukkan sjö um morguninn. það var þó brotið upp með því að borinn var fram morgunverður um klukkan þrjú. Ég hélt mig bara í berjasaftinni og reyndi ekki að fá mér morgunmat því hann var álíka lystugur og þorramaturinn heima.

Ég fór heim klukkan rúmlega þrjú og var mættur í vinnu klukkan rúmlega tíu.

Þegar ég vaknaði var ég með einhvern berjalit á vörunum og tungunni.

Kannski ekki alveg stálsleginn en eftir nokkrar treo og tvær pulsur klukkan þrjú um daginn var ég orðinn nokkuð brattur.

Það voru ekki allir brattir þegar þeir mættu í morgun. sumir báru það með sér að hafa ekki farið fram úr rúmi í gær.

fimmtudagur, nóvember 16, 2006

Nú er hætt að rigna og byrjað að snjóa í staðinn. Það verður fróðlegt að vita hvort við komumst upp brekkuna upp að dekkjaverkstæðinu í fyrramálið á sumardekkjunum. Við ætlum að fá pikadekk(færeyska) undir í staðinn fyrir sumardekkin.

***

Til hamingju með dótturina Árni og María og með litlu systur Andrea.
Ég kíki á ykkur um helgina.

***

Ég grét söltum(eða beiskum) tárum yfir að fá ekki að fara á jólahlaðborð þetta árið. Nú er búið að þerra þau og snýta sér og ég fer á allavega tvö plús villibráðrhlaðborðið sem við fórum á síðast þegar ég var heima. Á morgun fer ég með vinnunni á eitt og eftir viku förum við á eitt í boði færeyska vinnuveitandans. Það er eitthvað svaka flott sem stendur yfir í marga marga klukkutíma.

Fyrst er mæting og fordrykkur svo er hlaðborð og einhver skemmtiatriði svo er skálað af og til fram eftir nóttu og þeir sem eru nógu liðugir dansa frá sér allt vit. Þegar langt er liðið á nótt og allir orðnir þræl slompaðir er riggað upp öðru veisluborði, nú með Færeyskum mat. Þar verður skerpi og rastað kjöt, harðfiskur, hvalspik grind og súpa og eitthvað fleira skrýtið sem fólk getur gúffað í sig fyrir háttinn.

Við ætlum að sofa út daginn eftir.


Það verður ekki frá Færeyingunum tekið að þeir eru gestrisnir.

laugardagur, nóvember 11, 2006

Djö ég er búinn að lesa eitthvað smá um þessi prófkjör sem haldin er út um allt land þessa dagana og hef orðið fyrir þónokkrum vonbrigðum því sama gamla liðið fyllir alla lista meira og minna. Ég vildi sjá alla núverandi þingmenn detta út og fá nýja í staðinn. Nema kannski Steingrímur J ég vona að hann verði sem lengst á þingi. Maður sem kallar hálfvita réttu nafni á að vera áfram.

Svo finnst mér að það ætti að hætta með prófkjör og gera landið að einu kjördæmi þar sem kosið væri á netinu. uss

Einhver benti á á netinu um daginn að það væri aðeins einn maður eftir í Bandaríkjunum sem teldi innrásina í Írak skynsamlega. Það er aftur á móti heill stjórnmálaflokkur á Íslandi sem telur það hafa verið rétta ákvörðun að ráðast inn í landið. Hvað veldur því að fylgismenn þessa flokks geta ekki skipt um skoðun? er það afþví það er ekki búið að segja þeim að skipta um skoðun? Þarf einhver að koma og snúa spólunni við fyrir þá svo þeir geti heyrt hvað er hinumegin? Eða hefur enginn leyft þeim að snúa spólunni við?

Allavega held ég að Íhald ætti að kallast Þráhald hér eftir.

Ég keypti nýja diskinn með Damien Rice áður en ég fór út. Eftir tæplega viku hlustun er ég búinn að komast að því að þetta er hinn besti diskur, Lisa Hanningan er með honum á þessum diski eins og þeim gamla. Ég skil ekki afhverju hún er ekki orðin mega ofur súperstjarna því hún er með svo flotta rödd. Mæli með þessu. Þrír vasaklútar á hann


***

Ég fattaði í morgun þegar ég tók vinnugallana okkar út úr þurrkaranum í vinnunni að mig langar í þurrkara. já já ég veit að þetta eru ellimerki en hvað með það þegar ég er hvort eð er orðinn gráhærður. Þannig að þurrkari gæti vakið manni gleði í nokkra daga.

***

Þeir sem hafa gaman af ferðasögum geta lesið eina slíka hér.

fimmtudagur, nóvember 09, 2006

Ég er kominn aftur hingað út á sker. Við komum lengri leiðina í þetta sinn. Fyrst var sagt að vélinni seinkaði um þrjá tíma og korter og svo var sagt að við ættum að mæta þremur korterum eftir upphaflegu áætlun, þ.e. upphaflegi tíminn var 19:45 en okkur gert að mæta 20:30 því við ættum að fara með rútu til Keflavíkur. Ég spurði dömuna í innrituninni hverju sætti að við ættum að fara til Keflavíkur, hún svaraði því til að vélin væri of stór til að lenda í Reykjavík. Mér fannst það soldið skrýtið því ef hún gæti ekki lent í Reykjavík vegna stærðar þá væri útilokað að hún gæti lent í Færeyjum því völlurinn hér er enn minni en Reykjavíkurflugvöllur.

Ég hélt að nú værum við á leið til Bergen eða Köben og kæmum svo þaðan morguninn eftir og var frekar fúll yfir því að fá ekki bara að sofa eina nótt enn í mínu rúmi.

Þegar ég var búinn að horfa á ekkert út um gluggann á flugstöðinni í góðan klukkutíma var mér skipað að fara út í rútu sem var komin út á flugbrautina. Það var ískalt í rútunni og eitthvað skrýtið hljóð sem átti eftir að verða enn skrýtnara þegar við lögðum af stað.

Þessi bílferð var hin mesta skemmtun og svei mér þá ef rútubílstjórinn var ekki bara álíka kalufskur við gírkassann og danskur vinur mömmu og pabba sem "lærði" að keyra bíl um fimmtugt. Hann prófaði alla gíra tilviljanakennt upp og niður og út og suður án þess að finna nokkurn sem virkaði nógu vel til að rútan hreyfðist úr stað.

jæja allavega við vorum ekkert vissir um að við kæmumst upp brekkuna á Bústaðaveginum þar sem hann liggur um Öskjuhlíð, en með ótrúlegri elju en minni kunnáttu gat kall kvölin komið rútunni í einhvern gír sem kom henni upp brekkuna og svei mér þá ef þetta var ekki bara universalgírinn sem hann notaði alla leiðina því við siluðumst á ca 35 kmh til Kef.

Þegar við komum til keflavíkur tók við bið eftir rellunni sem var ekki lögð af stað frá Færeyjum þegar við komum í flugstöðina þannig að við fengum góðan tíma til að velja okkur sælgæti og bjór til að hafa með okkur.

Okkur til mikillar gleði birtist svo vél frá atlantic airways við landganginn um miðnætti því þá vissum viðað við kæmumst beint hingað. Við komum hingað í húsið okkar klukkan þrjú um nóttina dauðfegnir yfir að hafa ekki þurft að taka auka rúnt til annars lands.

Ég botna samt ekkert í þessum vitleysingum sem vinna á Reykjavíkurflugvelli að svara bara einhverju út í loftið þegar maður spyr um ástæðu þess að vera sendur á annan flugvöll. Ástæðan fyrir þessu aukaferðalagi er að Reykjavíkurflugvöllur lokar klukkan ellefu.

föstudagur, nóvember 03, 2006

Ég er kominn heim í helgarfrí. Að þessu sinni er helgarfríið langt því að er búið að breyta áætuninni í fluginu og þessvegna græði ég fjórtán klukkutíma heima en tapa væntanlega einhverjum péníngum við að vera ekki að vinna.

***

Áðan heyrði ég í skruggum eða heyrði ég skruggur? það er nú það. Ég hef ekki heyrt í svoleiðis í mörg ár.