sunnudagur, febrúar 27, 2005

Sunnudagur

Þá er kominn sunnudagur. Í gær fórum við í bæinn til að skoða föt á mig. Það er skemmst frá því að segja að ég fann föt sem ég ætla að skoða betur á föstudag eða laugardag og ef mér líst enn á þau við aðra skoðun kaupi ég þau bara. Þegar ég var búinn að skoða föt í búðinni sem er staðsett í hverfi sem einna helst var þekkt fyrir bílasölur og bílaverkstæði í den tid fórum við í búðirnar á Laugaveginum, mig langaði svoooo að skoða föt hjá Sævari Karli bara svona til að vita hversu dýr föt eru til, það kom mér nú nokk á óvart að Armani föt kosta bara tvöfalt það sem ég hef hugsað mér að eyða. Ég segi BARA því ég hélt þau kostuðu ekki undir tvöhundruð þúsund kalli. Þegar við vorum búin að skoða í nokkrar mínútur hjá Sævari kom kona með bakka og bauð okkur kaffi meðan við skoðuðum, þetta kalla ég þjónustu. Þegar við komum út sagði ég að þetta minnti mig á þegar við fórum á New Bond street í London til að kaupa smábarnailmvatn í Burberry´s. Við komum í okkar lúðafötum beint af Oxforstreet með bakpoka fulla af almúgatónlist og öðrum ferðamannavarningi, starfsfólkið sneri sér undan í stað þess að bjóða góðan dag og okkur leið eins og boðflennum í fyrirmennaveislu.

Við fundum barnadeildina á annari hæð og skunduðum þangað, þar tók á móti okkur kona sem var ekki eins tortryggin og fólkið á neðri hæðinni. Við bárum upp erindi okkar og fengum ilmvatnið í ægilega fínum gjafaumbúðum, svo kom að því að borga, ég dró upp græna visakortið mitt og rétti það þar sem ég stóð við búðarborðið, konan tók við því og vísaði mér til sætis í stóreflis leðursófasetti sem var fyrir miðri búðinni meðan hún pakkaði kassanum enn betur inn og straujaði kortið, á meðan sátum við Meinvill eins og illa gerðir hlutir í leðursófanum sem kostar sennilega ríflegt bílverð. Svo kom strimillinn og penni tálgaður úr fílabeini, ég kvittaði og tók við pakkanum, að síðustu vorum við leyst út með handabandi og ósk um að við versluðum sem oftast hjá þeim.
Semsagt í gær hugsaði ég að það væri nú gaman að skella sér til London í þessa sömu búð til að kaupa föt til að gifta sig í.

Þess ber að geta að þegar við vorum komin með Burberry´s pokann í hendur sneri starfsfólið sér ekki undan heldur kinkaði kolli og bauð okkur að eiga góðan dag.

************

Við fórum að mestu tómhent af Laugaveginum, bara einn lítill miði í vasanum mínum, ekki bara miði eldur kvittun upp á tvo 14 ct hringa sem verða settir upp þann 26.mars. Við fengum þægilega þjónustu í búðinni sem seldi okkur hringana, það var enginn sem stóð yfir okkur meðan við skoðuðum hringa og enginn sem benti okkur á það sem henni/honum finnst flott og hvað er í tísku. Við fengum bara borð og tvo stóla úti á miðju gólfi þar sem við fengum að vera í friði með ósköpin öll af kössum fullum af hringum. Þegar við vorum búin að finna það sem við vorum sammála um að væri okkur báðum að skapi kölluðum við á konuna sem mældi á okkur puttana og skrifaði niður það sem á að standa inni í þeim svo var bara borgað og skundað út.

þriðjudagur, febrúar 22, 2005

Betra er seint en aldrei

Amazonið kom á fimmtudaginn og ég er búinn að vera sveittur við að horfa á bíó og hlusta á mússík síðan. Ég er búinn að horfa á 3 dvd af 7 og hlusta á 5 geisladiska í leiðinni því mér heyrist ég hafa hitt á rétta diska í þetta sinn.

*******

Ég gerðist barnapía (jafnréttisfrömuðir gefið mér karlkynsorð yfir barnapía) strax eftir vinnu. Ég var búinn að búa mig undir mikil átök við barnið því mér skildist að ég ætti að passa fram á nótt en svo var þetta bara rúmur klukkutími sem leið eins og korter. Ég undirbjó mig vel með því að fara í europris og kaupa púða með myndum af böngsum og svo keypti ég eitt silkiblóm, jamm það kann að hljóma fáránlega handa eins og hálfs árs barni en í gær sat ég sveittur við að teikna blóm handa þessu sama barni þannig að ég var nokkuð viss um að eitt ekta gerfiblóm hitti í mark.

******

Djöfull hefði maður átt að hlusta á Kidda kanínu fyrir 10 árum þegar hann var að reyna að selja manni Modest Mouse diska, huh modest mouse fuff hvað er nú það! Ég held að fáir diskar hafi komið mér meira á óvart en einmitt þessi, ég sleppi jafnvel einum og einum fréttatíma til að heyra hann betur. Ef maður ætti að lýsa tónlistinni myndi ég segja bland af Pixies, Deus og dass af Pulp eða einhverjum andskotanum.

*******

Meinvill minntist eitthvað á að hafa horft á The man who wasn´t there með lokuðum augum á laugardaginn og náð söguþræðinum, mér fannst þetta nú vera eins og að horfa á dvd með pabba en hann einmitt sest niður með manni, horfir á fyrstu mínúturnar meðan poppið er enn til svo fer hann að gera eitthvað annað og kemur svo í blálokin og spyr hvað hafi orðið um þennan og hinn og fær stuttan úrdrátt úr söguþræðinum og finnst hann hafa náð flestu markverðu úr ræmunni.

******

Ég gerðist rómantískur á konudaginn og fór í bæinn til útréttinga til þess eins að gleðja spússuna. Mér datt ekki í hug að kaupa gróður á uppsprengdu verði úr hendi sveitts blómasala sem er bæ ðe vei búinn að heilaþvo menn með þeim áróðri að ekkert sé rómantískt annað en að kaupa einmitt blóm sem lifa ekki bílferðina heim af. jæja ég fór í eina af Baugsbúðunum og fann það sem Meinvill hefur talað stanslaust um að hana vantar síðan hana hætti að vanta myndavél.

Þetta ku vera rafmagnstæki sem hentar einstaklega vel til tónlistarflutnings af hljóðsnældu eða bara móttakari fyrir ljósvakamiðla. Ég skellti græjunni ægilega hróðugur á borðið og stakk draslinu í samband og fálmaði í takkann við hliðina á ljósinu sem stendur ON við hliðina á, þrýsti þéttingfast á hann og hvað? ekkert hljóð og ekkert suð og ekkert ljós á on ljósið? Helvítis drasl tuðaði ég og pakkaði öllu ofan í kassann aftur. Daginn eftir eyddi ég kaffitímanum mínum í að keyra út í bæ til að skila þessu gallaða dóti. Þegar í búðina var komið skellti ég dótinu á borðið og fór aftur yfir ræðuna í huganum "nei það á ekki að gera við tækið því það er gallað og ég vil fá nýtt" afgreiðslumaðurinn sótti sér snúru undir borð og stakk í samband við tækið svo teygði hann sig í takka FRAMAN á tækinu og víðsfjarri ON ljósinu, viti menn ræðan datt úr huga mér og einhver afsökunarorð og vandræðagangur þyrluðust upp í huganum í staðinn.

Starfsmaðurinn sýndi mér mikinn skilning og sagðist sjálfur hafa sent stráheilt svona tæki alla leið inn á verkstæði sem bilað því hann fann ekki ON takkann á tækinu. Svo það sé á hreinu er On takkinn framan á tækinu en takkinn við hliðina á ON ljósinu er einhver bassatakki og er staðsettur ofan á tækinu.

***********

Mér fannst pínu merkilegt að heyra í útvarpinu í morgun að það kostar nánast það sama að senda bíl með flugfrakt og skipi frá Ameríku, ég er ekki á leið að flytja bíla milli landa en það hlýtur eitthvað að vera að verðskránni hjá annaðhvort flugfélaginu eða skipafélögunum í það minnsta hefði maður haldið að það ætti að vera mun ódýrara að flytja með skipi.

fimmtudagur, febrúar 17, 2005

Muna: Læra að þegja þegar við á

Já ég held ég verði að fara að læra að hafa munninn lokaðann svona öðru hvoru. Ég gaspraði aðeins í dag á óheppilegum tíma. Þannig var að ég stóð við eldgamla borvél á eina staðnum sem er nokkuð hlýtt á í vinnunni, einn vinnufélagi minn var eitthvað að grobba sig af að fá að vinna á þessum tiltekna stað og tók fram að það væri svo heitt þarna í kompunni að hann hafði þurft að opna hurðina til að leka ekki niður úr hita. Ég sperrtist allur upp við þetta grobb í honum og hóf upp raust mína með þeim orðum að það væri ekki nóg með að maður þyrfti að kaupa sér bíl til að fá að vera í verkinu heldur væri skít kalt í húsinu líka, um leið og ég sleppti orðinu leit ég til hliðar og sá þá hvar framkvæmdastjórinn stóð við hliðina á mér. Ég veit ekki hvort hann heyrði ræðuna en hann horfði á borvélina í forundran og spurði hvar við hefðum fengið þessa eldgömlu vél, ég svaraði í sama raddstyrk og áður að sennilega hafi þjóðminjasafnið verið að losa sig við hana svo brunaði ég í burtu.

miðvikudagur, febrúar 16, 2005

Þessa mynd rakst ég á á netinu í gær, spurning um að kaupa eina svona kaffistofu á Hyundai? Posted by Hello

geiiiiiissssssspppppp

Mér er sama um vestur-íslendinga ég skil ekki hvað er svona merkilegt við að nokkrar hræður voru með krónískan hroll og fluttu til útlandsins. Mér finnst umræðan vera jöfn allt árið en ég fæ ekki skilið afhverju menn eru endalaust að velta sér upp úr búferlaflutningi nokkurra einstaklinga. Eins og þetta hafi verið heimsviðburður.

**********

Ég hlustaði á útvarpið á svokölluðum valentínusardegi og komst þá að því að svokallaður valentínusardagur er alls ekki amerískur siður.
Það breytir því ekki að mér er jafn mikið í nöp við daginn.Siðurinn er kaþólskur og var tekinn upp árið 400 og eitthvað eftir krist. og hana nú ég er ekki kaþóskur og tek ekki þátt í helgisiðum þeirra. Ef fólk vill taka upp kaþólska siði bendi ég því á að sitthvoru megin við hús foreldra minna eru klaustur og kaþólsk kapella og ef maður teygir þetta aðeins lengra þá var eða er önnur kaþólsk kapella í fárra metra fjarlægð frá stofuglugganum þeirra líka.

***********

Mikið assgotans rok var í allan dag og kuldinn maður lifandi, ég var kominn í bol, tvennar peysur, síðar nærbuxur, tvenna ullarsokka, trefil og vinugalla utan yfir allt saman og þó vinn ég inni. Gallinn vil þetta allt saman er að þegar ég byrjaði í verkinu kom ég með 5 hitablásara með mér, þeim var dreift út um allt vinnusvæðið en ekkert lagt að þeim hvorki heitt vatn né rafmagn þannig að það stafar litlum hita af þeim. Þessir andskotans lágþrýstipíparar láta ekki sjá sig þrátt fyrir að hafa verið marg beðnir að tengja draslið.

************

þriðjudagur, febrúar 15, 2005

Þessi mynd er bara til að vekja öfund hjá þeim sem búa erlendis! Harðfiskur og bjór Posted by Hello

mánudagur, febrúar 14, 2005

Árlegt fjör

Þá er aðalfundur húsfélagsins afstaðinn, kallinn niðri tuðaði ekkert og hafnaði frekari framkvæmdum við húsið, öðruvísi mér áður brá því á öllum öðrum fundum hefur hann heimtað framkvæmdir.
Ég hélt embætti sem endurskoðandi reikninga þriðja árið í röð. Held að ein kellingin í næsta stigagangi sé treg því hún skilur ekkert hvað fer fram á fundinum en fróðleiksfús er hún því hún spyr um allt sem búið er að ræða.

************

Eins og einhver hefur tekið eftir hér á síðunni geri ég stundum athugasemdir við málfar útvarpsmanna. Einn auglýsti oft á dag fyrir helgi að einhver leikur færi fram á Séltjarnarnesi. Bó auglýsir oft Améríkann idle hvað svo sem það er?

sunnudagur, febrúar 13, 2005

Úti á lífinu

Sá fáheyrði atburður átti sér stað í gær að við Meinvill fórum í bíó. Síðast fórum við í bíó í ágúst til að sjá Shaun of the dead sem var ranglega nefnd hryllingsmynd af íslenskum þuli sem lýsti Bafta verðlaunahátíðinni. Held samt að Shaun of the dead hafi ekki fengið nein verðlaun sem er synd því ég sá Simon Pegg sem leikur aðalhlutverkið var í salnum tilbúinn að taka við grímunni.
Í gær sáum við Clint Eastwood gráta í myndinni million dollar baby, held að Dirty Harry hafi aldrei tárast áður.

***********

Amazonið mitt er lagt af stað frá breska heimsveldinu og kemur þá vonandi til mín einhverntíman í vikunni, ég er svoooo spenntur að opna kassann að það mætti halda að jólin væru í næstu viku. Ef það næst ekki samband við mig í vikunni er ég sennilega að hlusta á white zombie, Emiliönu Torrini, Meat Beat manifesto/orb eða Modest Mouse. Ef ekkert verður í eyrununum verð ég sennilega ferkanntaður fyrir framan einhverja þeirra 7 dvd mynda sem ég náði mér í á útsölunni. Mér reiknast til að 7 dvd og 5 cd kosti komið til mín 14600 kall, ég þori ekki að reikna hvað þetta myndi kosta í skífunni.

***********

Framdrifinn bíll er mér ekki að skapi, ég lýsti því einhverntíman yfir að ég ætlaði aldrei að fá mér bíl sem ekki er fjórhjóladrifinn, ég er að vísu búinn að ganga á bak orða minna að nokkru leiti með því að kaupa kóreulöduna. Hefði kannski átt að kaupa mér súbarú. Með hækkandi sól ætla ég að kaupa jappa þannig að við Meinvill komumst í jeppó með orkuveitustarfsmanninum og spússu hans.

**********

Nú þarf maður að fara að huga að sumarbústaðapöntunum fyrir sumarið. Spurning um að finna sér eitthvað skemmtilegt veiðivatn og velja út frá því?

************

Las skítablaðið Birtu(blaðið er geymt við koppin) á föstudaginn, þar var skrípamynd af Mugison og einhver grein sem hefur hugsanlega átt að vera fyndin.Í greininni var útlistað hvað maður þyrfti til að hljóta íslensku tónlistarverðlaunin, í greininni voru allskonar hárgeiðslur, skeggsafnanir og fatagerðir tíundaðar og sagt að ef maður væri svona klæddur með svona hárgreiðslu og í svna lopapeysu ætti maðuir verðlaunin vís. Greinilegt var að greinarhöfundurinn var eitthvað svekktur út í Hjálma og Mugison því það skein allsstaðar í gegn að þeir hafi bara unnið út á skrýtinn klæðaburð og einlægni. Fíbbl þú þarna greinarhöfundur, það hjálpar sennilega mest að semja bestu plötur ársins ef maður ætlar að hljóta TÓNLISTARVERÐLAUN.

miðvikudagur, febrúar 09, 2005

Sniðugt

Ég náði mér í eitthvað forrit til að geta sett inn myndir á síðuna mína, var búinn að naga neglur og reyta hár yfir einhverju sem átti að vera ofur einfalt að gera til að fá myndir með á síðuna en allt kom fyrir ekki, þá datt ég um pínulítið forrit sem gerir þetta fyrir mig.

*********

Europris er sniðug búð, það er hægt að kaupa ALLT þar. Segjum sem svo að þú skreppir út í búð til að kaupa gos og snakk fyrir partýið, þú ert á leið á kassann til að borga en finnst eitthvað fleira vanta en gos og snakk. Hvað gerir maður þá annað en að fara í diskódeildina og kaupir sér diskókúlu og diskóljós og partýið er tilbúið.
Ef maður er að keyra einhversstaðar uppi í sveit og bíllinn bilar er gott að vera með lágmarks öryggisbúnað í bílnum. Ég lét mér alltaf duga pumpu, tjakk og spotta en eftir að hafa labbað gegnum europris komst ég að því að til er nauðsynlegur búnaður.Það mun vera vasaljós með sjónvarpi jamm þið lásuð rétt, vasaljós með sjónvarpi. Eftir miklar vangaveltur í kaffitímanum í dag komumst við að því að þetta væri nauðsynlegt í jeppann(sem ég á ekki) því ef hann bilar fer maður út með vasaljósið til að reyna að sjá hvað er bilað, maður hefur ekki hundsvit á biluninni og fer þá inn í bíl og horfir á sjónvarpið meðan björgunarsveitin kemur sér á staðinn. Alveg er ég viss um að Hemmi Gunn verður endursýndur í maraþonútgáfu meðan ég verð í bilaða jeppanum að bíða eftir björgunartittunum.

*********

Mér finnst soldið kjánalegt þegar fólk er svo ánægt með sjálft sig að það setur á markað matvæli með mynd af sjálfu sér á umbúðunum, Jói Fel og Ágústa Johnson hafa bæði fallið í þessa gryfju. Ég verð bara að benda þeim á að það væri nóg að setja nafnið sitt á umbúðirnar því flestir eru nógu læsir til að skilja einföld nöfn ef letrið er skýrt. Krárnar í London heita skrýtnum nöfnum eftir myndum sem voru hengdar á krárnar í gamladaga þegar fáir voru læsir, en nú er myndin bara til skrauts og til minningar um fyrri tíma. Þessu hafa egóistarnir sennilega ekki áttað sig á og klína mynd af sér á flest sem frá þeim kemur, hver verður að dæma fyrir sig hvort þær eru til skrauts eður ei.


Ég sá líka spædermann Posted by Hello

þriðjudagur, febrúar 08, 2005

Ofurmenni

Lítið vöðvabúnt leit hér inn áðan með mömmu sinni, litla barnið sem á sunnudag var nokkuð eðlilegt í vexti var orðið að tröllslegu kraftatrölli með rauða hettu og snuð innan undir. Ætli öskudagur sé ekki á morgun?


**********

Olli til hamingju með íbúðina, þarf að fara að drullast í grafarvogshérað til að skoða herlegheitin.

fimmtudagur, febrúar 03, 2005

Jamm og jamm og jú

Er nafnið á fyrsta laginu á Hjálmaplötunni hljóðlega af stað. Dómnefndin var sammála mér í vali á plötu ársins og því fengu Hjálmar vellaun fyrir bestu plötu ársins eins og ég hef sagt síðan platan kom út.

Þeir sem hlustuðu á Poppland í dag heyrðu kannski þar sem Óli Palli sagði að Björk hafði bara fengið ein verðlaun á tónlistarverðlaunahátíðinni í gærkvöld, sennilega vegna þess að hún vanrækti Íslenska markaðinn og fólk væri þar af leiðandi farið að gjalda líkum líkt.
Ég held þetta sé rétt hjá kallinum, ef ég man rétt hefur Björk ekki haldið tónleika fyrir AÐDÁENDUR sína á Íslandi í níu ár. Hún hélt einhverja tónleika í Háskólabíói fyrir nokkrum árum og það kostaði 7900 kall inn og hún hélt einhverja tónleika í Þjóðleikhúsinu fyrir vini og vandamenn..... já og forsetann. En hún hefur ekki séð ástæðu til að spila fyrir okkur pupulinn á almennilegum tónleikum þar sem kostar ekki hvítuna úr augunum inn. Hún kemur ekki einusinni á þessar uppákomur þar sem verið er að verðlauna hana trekk í trekk hér heima.

Ég er búinn að vera í fýlu út í Björk síðan hún hélt Háskólabíótónleikana um árið því það hafði kostað okkur 16000 kall að sjá tónleikana og það er meira en maður tímir að borga fyrir eina tónleika.

************

Mamma láttu þér batna af flensunni. Annars kemur þessi og sprutar þig í rassinn.

Nurse
************

Meinvill sendi mér þennan á tölvupósti um daginn og ég get ekki setið á mér að setja þetta inn.

Þriggja ára stelpa kom heim af leikskólanum og sagði við mömmu og pabba. Heyrru.
Hvernig var ég til? Var ég ættleidd, í glasi eða rídd?


************

Damn hvað mig er farið að lengja eftir Amazoninu sem ég pantaði fyrir langa löngu, ég stækkaði pöntunina aðeins um daginn því Emiliana Torrini var að gefa út eitt stk disk sem ég held að sé tilvonanadi plata ársins og svei mér þá ef það er ekki bara tilbúið pláss í spilaranum fyrir diskinn hennar.

Singer