þriðjudagur, febrúar 22, 2005

Betra er seint en aldrei

Amazonið kom á fimmtudaginn og ég er búinn að vera sveittur við að horfa á bíó og hlusta á mússík síðan. Ég er búinn að horfa á 3 dvd af 7 og hlusta á 5 geisladiska í leiðinni því mér heyrist ég hafa hitt á rétta diska í þetta sinn.

*******

Ég gerðist barnapía (jafnréttisfrömuðir gefið mér karlkynsorð yfir barnapía) strax eftir vinnu. Ég var búinn að búa mig undir mikil átök við barnið því mér skildist að ég ætti að passa fram á nótt en svo var þetta bara rúmur klukkutími sem leið eins og korter. Ég undirbjó mig vel með því að fara í europris og kaupa púða með myndum af böngsum og svo keypti ég eitt silkiblóm, jamm það kann að hljóma fáránlega handa eins og hálfs árs barni en í gær sat ég sveittur við að teikna blóm handa þessu sama barni þannig að ég var nokkuð viss um að eitt ekta gerfiblóm hitti í mark.

******

Djöfull hefði maður átt að hlusta á Kidda kanínu fyrir 10 árum þegar hann var að reyna að selja manni Modest Mouse diska, huh modest mouse fuff hvað er nú það! Ég held að fáir diskar hafi komið mér meira á óvart en einmitt þessi, ég sleppi jafnvel einum og einum fréttatíma til að heyra hann betur. Ef maður ætti að lýsa tónlistinni myndi ég segja bland af Pixies, Deus og dass af Pulp eða einhverjum andskotanum.

*******

Meinvill minntist eitthvað á að hafa horft á The man who wasn´t there með lokuðum augum á laugardaginn og náð söguþræðinum, mér fannst þetta nú vera eins og að horfa á dvd með pabba en hann einmitt sest niður með manni, horfir á fyrstu mínúturnar meðan poppið er enn til svo fer hann að gera eitthvað annað og kemur svo í blálokin og spyr hvað hafi orðið um þennan og hinn og fær stuttan úrdrátt úr söguþræðinum og finnst hann hafa náð flestu markverðu úr ræmunni.

******

Ég gerðist rómantískur á konudaginn og fór í bæinn til útréttinga til þess eins að gleðja spússuna. Mér datt ekki í hug að kaupa gróður á uppsprengdu verði úr hendi sveitts blómasala sem er bæ ðe vei búinn að heilaþvo menn með þeim áróðri að ekkert sé rómantískt annað en að kaupa einmitt blóm sem lifa ekki bílferðina heim af. jæja ég fór í eina af Baugsbúðunum og fann það sem Meinvill hefur talað stanslaust um að hana vantar síðan hana hætti að vanta myndavél.

Þetta ku vera rafmagnstæki sem hentar einstaklega vel til tónlistarflutnings af hljóðsnældu eða bara móttakari fyrir ljósvakamiðla. Ég skellti græjunni ægilega hróðugur á borðið og stakk draslinu í samband og fálmaði í takkann við hliðina á ljósinu sem stendur ON við hliðina á, þrýsti þéttingfast á hann og hvað? ekkert hljóð og ekkert suð og ekkert ljós á on ljósið? Helvítis drasl tuðaði ég og pakkaði öllu ofan í kassann aftur. Daginn eftir eyddi ég kaffitímanum mínum í að keyra út í bæ til að skila þessu gallaða dóti. Þegar í búðina var komið skellti ég dótinu á borðið og fór aftur yfir ræðuna í huganum "nei það á ekki að gera við tækið því það er gallað og ég vil fá nýtt" afgreiðslumaðurinn sótti sér snúru undir borð og stakk í samband við tækið svo teygði hann sig í takka FRAMAN á tækinu og víðsfjarri ON ljósinu, viti menn ræðan datt úr huga mér og einhver afsökunarorð og vandræðagangur þyrluðust upp í huganum í staðinn.

Starfsmaðurinn sýndi mér mikinn skilning og sagðist sjálfur hafa sent stráheilt svona tæki alla leið inn á verkstæði sem bilað því hann fann ekki ON takkann á tækinu. Svo það sé á hreinu er On takkinn framan á tækinu en takkinn við hliðina á ON ljósinu er einhver bassatakki og er staðsettur ofan á tækinu.

***********

Mér fannst pínu merkilegt að heyra í útvarpinu í morgun að það kostar nánast það sama að senda bíl með flugfrakt og skipi frá Ameríku, ég er ekki á leið að flytja bíla milli landa en það hlýtur eitthvað að vera að verðskránni hjá annaðhvort flugfélaginu eða skipafélögunum í það minnsta hefði maður haldið að það ætti að vera mun ódýrara að flytja með skipi.