Sniðugt
Ég náði mér í eitthvað forrit til að geta sett inn myndir á síðuna mína, var búinn að naga neglur og reyta hár yfir einhverju sem átti að vera ofur einfalt að gera til að fá myndir með á síðuna en allt kom fyrir ekki, þá datt ég um pínulítið forrit sem gerir þetta fyrir mig.
*********
Europris er sniðug búð, það er hægt að kaupa ALLT þar. Segjum sem svo að þú skreppir út í búð til að kaupa gos og snakk fyrir partýið, þú ert á leið á kassann til að borga en finnst eitthvað fleira vanta en gos og snakk. Hvað gerir maður þá annað en að fara í diskódeildina og kaupir sér diskókúlu og diskóljós og partýið er tilbúið.
Ef maður er að keyra einhversstaðar uppi í sveit og bíllinn bilar er gott að vera með lágmarks öryggisbúnað í bílnum. Ég lét mér alltaf duga pumpu, tjakk og spotta en eftir að hafa labbað gegnum europris komst ég að því að til er nauðsynlegur búnaður.Það mun vera vasaljós með sjónvarpi jamm þið lásuð rétt, vasaljós með sjónvarpi. Eftir miklar vangaveltur í kaffitímanum í dag komumst við að því að þetta væri nauðsynlegt í jeppann(sem ég á ekki) því ef hann bilar fer maður út með vasaljósið til að reyna að sjá hvað er bilað, maður hefur ekki hundsvit á biluninni og fer þá inn í bíl og horfir á sjónvarpið meðan björgunarsveitin kemur sér á staðinn. Alveg er ég viss um að Hemmi Gunn verður endursýndur í maraþonútgáfu meðan ég verð í bilaða jeppanum að bíða eftir björgunartittunum.
*********
Mér finnst soldið kjánalegt þegar fólk er svo ánægt með sjálft sig að það setur á markað matvæli með mynd af sjálfu sér á umbúðunum, Jói Fel og Ágústa Johnson hafa bæði fallið í þessa gryfju. Ég verð bara að benda þeim á að það væri nóg að setja nafnið sitt á umbúðirnar því flestir eru nógu læsir til að skilja einföld nöfn ef letrið er skýrt. Krárnar í London heita skrýtnum nöfnum eftir myndum sem voru hengdar á krárnar í gamladaga þegar fáir voru læsir, en nú er myndin bara til skrauts og til minningar um fyrri tíma. Þessu hafa egóistarnir sennilega ekki áttað sig á og klína mynd af sér á flest sem frá þeim kemur, hver verður að dæma fyrir sig hvort þær eru til skrauts eður ei.
<< Home