Bíllinn minn
Ég er með bílinn minn á heilanum og eyddi helginni hjá honum, hehe ég er nú ekki svo sjúkur en ég fékk allaveg heilmikla hjálp við að skipta um tímareim og framhjólaleguna á laugardaginn og svo plataði ég rafvirkjann pabba minn til að mæla alla spottasúpuna í mælaborðinu í gær svo ég geti hlustað á mússík á morgnana á leið í vinnuna.
**********
Rétt skal vera rétt Dettifoss er ekki stærsta kaupskip íslenska kaupskipaflotans, stærsta kaupskip íslenska flotans mun vera fyrrverandi togari sem var breytt í kaupskip. Öll önnur kaupskip sem heita íslenskum nöfnum eru skráð annarsstaðar en á landinu bláa vegna skattamála.
*********
Vinnan mín ætlar til útlandsins næsta haust í árshátíðarferð, valið stendur milli margra skemmtilegra staða ég valdi 1.Berlín 2. St. Petersburg 3. Barcelona. Svo er bara spennandi að sjá hvað hinir velja, ég vona bara að það verði ekki Köben því ég hef komið oftar þangað en til Akureyrar.
***********
Aftur að bílnum, ég komst að því á laugardaginn að bíllinn stóð á tveimur michelin dekkjum og tveimur fúnum húggíbúggí sóluðum dekkjum, annað húggíbúggídekkið var vírslitið svo skipta þarf um það við tækifæri. Ég tuðarinn sjálfur hringdi í búðina þar sem ég keypti bílinn og sagði þeim að ég væri nú ekki alveg sáttur við að fá bílinn hálf berfættan frá þeim og vildi að þeir splæstu á mig tveimur michelin dekkjum með mörgum nöglum til að spæna malbik upp með, þeir voru ekki alveg tilbúnir að hlaupa út í búð fyrir mig eftir þessu og vísuðu mér á dekkjakallinn sinn. Ég talaði við mannin sem brást vel við og stakk sér inn í dekkjahauginn sinn en kom dekjalaus út, þá skoðaði hann hvert dekkið á fætur öðru en án árangurs. Ekkert michelin handa mér, ég var farinn að halda að ég fengi ekkert dekk hjá honum þegar hann allt í einu skaust út úr haugnum með fjögur dekk af einhverri sort sem ég þekki ekki og spurði mig hvort ég væri til í að fá fjögur dekk á felgu í stað þessa eina sem er ónýtt, ég reyndi að fela brosið þegar ég sagði að ég skyldi taka þetta fyrst ekkert annað býðst.
Það skal tekið fram að ég var alsæll þegar ég keyrði með 5 varadekk á felgum og full af lofti frá búðinni.
Maður á aldrei að sleppa góðu tuði.
<< Home