sunnudagur, febrúar 27, 2005

Sunnudagur

Þá er kominn sunnudagur. Í gær fórum við í bæinn til að skoða föt á mig. Það er skemmst frá því að segja að ég fann föt sem ég ætla að skoða betur á föstudag eða laugardag og ef mér líst enn á þau við aðra skoðun kaupi ég þau bara. Þegar ég var búinn að skoða föt í búðinni sem er staðsett í hverfi sem einna helst var þekkt fyrir bílasölur og bílaverkstæði í den tid fórum við í búðirnar á Laugaveginum, mig langaði svoooo að skoða föt hjá Sævari Karli bara svona til að vita hversu dýr föt eru til, það kom mér nú nokk á óvart að Armani föt kosta bara tvöfalt það sem ég hef hugsað mér að eyða. Ég segi BARA því ég hélt þau kostuðu ekki undir tvöhundruð þúsund kalli. Þegar við vorum búin að skoða í nokkrar mínútur hjá Sævari kom kona með bakka og bauð okkur kaffi meðan við skoðuðum, þetta kalla ég þjónustu. Þegar við komum út sagði ég að þetta minnti mig á þegar við fórum á New Bond street í London til að kaupa smábarnailmvatn í Burberry´s. Við komum í okkar lúðafötum beint af Oxforstreet með bakpoka fulla af almúgatónlist og öðrum ferðamannavarningi, starfsfólkið sneri sér undan í stað þess að bjóða góðan dag og okkur leið eins og boðflennum í fyrirmennaveislu.

Við fundum barnadeildina á annari hæð og skunduðum þangað, þar tók á móti okkur kona sem var ekki eins tortryggin og fólkið á neðri hæðinni. Við bárum upp erindi okkar og fengum ilmvatnið í ægilega fínum gjafaumbúðum, svo kom að því að borga, ég dró upp græna visakortið mitt og rétti það þar sem ég stóð við búðarborðið, konan tók við því og vísaði mér til sætis í stóreflis leðursófasetti sem var fyrir miðri búðinni meðan hún pakkaði kassanum enn betur inn og straujaði kortið, á meðan sátum við Meinvill eins og illa gerðir hlutir í leðursófanum sem kostar sennilega ríflegt bílverð. Svo kom strimillinn og penni tálgaður úr fílabeini, ég kvittaði og tók við pakkanum, að síðustu vorum við leyst út með handabandi og ósk um að við versluðum sem oftast hjá þeim.
Semsagt í gær hugsaði ég að það væri nú gaman að skella sér til London í þessa sömu búð til að kaupa föt til að gifta sig í.

Þess ber að geta að þegar við vorum komin með Burberry´s pokann í hendur sneri starfsfólið sér ekki undan heldur kinkaði kolli og bauð okkur að eiga góðan dag.

************

Við fórum að mestu tómhent af Laugaveginum, bara einn lítill miði í vasanum mínum, ekki bara miði eldur kvittun upp á tvo 14 ct hringa sem verða settir upp þann 26.mars. Við fengum þægilega þjónustu í búðinni sem seldi okkur hringana, það var enginn sem stóð yfir okkur meðan við skoðuðum hringa og enginn sem benti okkur á það sem henni/honum finnst flott og hvað er í tísku. Við fengum bara borð og tvo stóla úti á miðju gólfi þar sem við fengum að vera í friði með ósköpin öll af kössum fullum af hringum. Þegar við vorum búin að finna það sem við vorum sammála um að væri okkur báðum að skapi kölluðum við á konuna sem mældi á okkur puttana og skrifaði niður það sem á að standa inni í þeim svo var bara borgað og skundað út.