þriðjudagur, febrúar 28, 2006


Ég henti lifrarkæfuafgangnum þrátt fyrir að síðasti neysludagur sé ekki runninn upp. Bæ ðe vei þetta er frá Borgarnes kjötvörum

Ég veit ekki hvað ég á að gera, ég hef ekki fengið tölvupóst síðan í fyrradag, ég er ekki á leiðinni á fund, ég er ekki að vinna og ég hef ekkert að gera. Það er svo langt síðan ég hef haft svona lítið að gera.

Okkur tókst að plata ríkisstjórnina til að hjálpa þeim sem ættleiða börn frá útlöndum. Heimurinn er ekki fullkominn og þessvegna lendum við að öllum líkindum utan styrkja vegna þess að styrkveitingar hefjast ekki fyrr en 2007. Við ætlum reyndar ekki að gefast alveg strax upp, ætli við skipuleggjum okkur ekki aftur og látum svo vaða í ríksstjórnina aftur þannig að við fáum aur eins og hinir sem á eftir koma.

***

Þegar ég ætlaði heim úr vinnunni á föstudag og var búinn að öllu nema að stimpla mig út, stoppaði verstjórinn mig við stimpilklukkuna og spurði hvert ég væri að fara "ekkert" svaraði ég og vann fram á kvöld, laugardagur fór í vinnu og sunnudagur þannig að helgarfríið sem ég lagði af stað í á föstudag varð að engu. Hann er alltaf jafn tímanlega í því að biðja mann að taka aukavinnu

***

Á laugardagskvöldið fórum við á Humarhúsið með vinnufélögum Meinvills, ég borðaði hálft kíló af humri, andasalat og brulé. Hrikalega gott fimm stjörnu kvöld.

miðvikudagur, febrúar 22, 2006

Brúnkukrem er ekki málið. Mér finnst helmingi verra þegar fólk ofnotar brúnkukrem en þegar fólk er hálf skorpið af ljósabekkjalegu. Sennilega er ástæðan sú að mér finnst eins og fólk sé skítugt í framan þegar það er með þennan jafna lit yfir alla grímuna.

Svo er nú ekkert bannað að vera eins og næpa.

mánudagur, febrúar 20, 2006

Ekki átti ég von á að ég myndi leggjast flatur í sófann til að horfa á undankeppni júróvisíon í svartholinu, en viti menn ég horfði. Ég lét reyndar athugasemdir falla við hvert lag, þannig að það liti ekki út fyrir að ég skemmti mér mikið.

Silvía Nótt átti kvöldið skuldlaust. Ég datt næstum fram úr sófanum þegar hún þakkaði upphitunnarhljómsveitunum fyrir og sagði að sér þætti óþægilegt að taka við verðlaunum úr hendi fyrrverandi kærasta (útvarpsstjóra) með núverandi sér við hlið.

***

Í dag kom maður til mín í vinnunni og bað um að fá lánaðan tommustokk, það svosem gerist á hverjum degi að einhver kemur til mín og biður um að fá lánuð hjá mér verkfæri EN það er ekki á hverjum degi sem Jón Ársæll kemur og biður mig um verkfæri. Mér þótti mikið til koma og ég held bara að ég myndi lána honum verkfæri hvenær sem er því hann bæði skilaði tommustokknum og þakkaði fyrir lánið. Það er allnokkuð meira en segja má um vinnufélagana.

***

Ég er svoooooo illkvittinn að mig langar meira að sjá hvað perrunum sem NFS plataði brá en hverjir þetta eru. Ég veit þetta er ekkert til að gera grín að en kommonn maður gæti nú alveg borgað fyrir að sjá svipinn á þeim þegar myndavélin kom svífandi og fréttamaðurinn kynnti sig móður og másandi.

***

Í gær sprakk á bílnum mínum, ef það væri komið aðeins meira vor myndi ég henda þessu grautfúna dekki með báðum höndum á haugana en afþví þetta er vertardekk og varadekkið sumardekk neyðist ég til að láta bæta það.

laugardagur, febrúar 18, 2006

Ég veit við hvað pappalöggurnar starfa í dag, þær eru kynnar fyrir júróvisjón. Þvílíkir spýtukallar sem þetta fólk er.

***

Mér finnst gott af sofa yfir fasteignasjónvarpinu. Fyrir tíu árum fannst mér best að sofa yfir national geography sjónvarpsstöðinni. Við brósi skiptumst á að sofa yfir stöðinni, hann var með á hreinu ástæðu þess að það var svo gott að sofa yfir þessu sjónvarpsefni, hún er að þulurinn talaði svo lágt til að fæla ekki dýrin sem verið var að fjalla um.

þriðjudagur, febrúar 14, 2006

Áðan horfðum við á alþingissjónvarpið, ástæðan var ekki áhugi á skattahækkunum ríkisstjórnarinnar heldur þetta.

Segið svo að kvabbið í manni skili engum árangri.

***

Til að halda fólki uppfræddu þá er ég búinn að reka yfirmanninn en sit samt uppi með hann í einhvern tíma. Þess ber að geta að þessi yfirmaður er flokkstjóri en ekki fastur verkstjóri. Ég talaði við verkstjórann í dag og sagði honum að mig langaði ekki að vinna lengur með þessum manni, hann tók vel í þetta hjá mér og sagðist ætla að kippa málinu í lag við tækifæri. uss maður er alltaf kvartandi.

Einusinni var mér kennt að ofurjákvæðni og ánægja með hlutina stæði í vegi fyrir framförum, ég held það sé rétt að hluta til.

laugardagur, febrúar 11, 2006

Ég átti röngu setninguna á ranga tímanum í gærkvöld. Þannig var að ég fór til að lesa yfir reikninga húsfélagsins hjá konu á neðstu hæðinni. Ég spurði út í eitthvert atriði sem mér fannst vert að spyrja um svo það liti út fyrir að ég hefði eitthvert vit á reikningunum. Konan dró eitt blað út úr bunkanum og sagðist ekki muna alveg hvar sú tala sem ég spurði um væri. Ég náttúrulega brosti út að eyrum og spurði stundarhátt um leið og ég benti á hausinn á mér hvort allt væri komið í einn graut í þeim gráa. Konan horfði hvasst á mig og sagðist hafa fengið heilablóðfall í janúar. Sennilega hefur komið skrýtinn svipur á mig því mig sárvantaði orð í smástund en blóðið lét sig ekki vanta fram í andlit því ég held ég hafi sótroðnað.

föstudagur, febrúar 10, 2006

Ég er búinn að skrifa nafnið mitt á ársreikning húsfélagsins. Þá má halda húsfund mín vegna, gjaldkerinn stakk upp á að ég tæki við af henni því hún veiktist fyrir mánuði og treystir sér ekii til að halda áfram. Ég afþakkaði gott boð og sagði henni að ég ætlaði að bjóða mig fram annarsstaðar. Ég er samt ekki viss hvort ég á að bjóða mig fram eða leggja öðrum frambjóðanda lið til að koma honum að. Þar liggur efinn.

****

Eftir morgundaginn ætla ég að reka yfirmann minn. Ég get ómögulega unnið með honum, því samskiptaerfiðleikarnir eru algjörir þannig að ég þegi aldrei þessu vant í vinnunni. Þessi mann fýla hefur sennilega horft á Office til að læra hvernig á að vera leiðinlegur yfirmaður. Hann þarf að gefa fyrirmæli um allt sem gert er, niður í smæstu smáatriði. Hann labbar líka á eftir manni til að athuga hvort maður hafi ekki gert mistök sem mætti tuða yfir. Ef maður spyr hann um eitthvað spyr hann á móti "hvað finnst þér?" ég fæ hroll.

Ef hann þekkti mig ekki með nafni og starfsmannanúmeri myndi ég endurtaka leikinn úr Hagkaup og snúa hann niður og beita hann líkamlegum pyntingum. Í dag langaði mig að reka skrúfjárn einhversstaðar í hann en svo hætti ég við og ákvað að vinna einn dag með honum og fá mig svo færðann.

föstudagur, febrúar 03, 2006

Áfram með Kína, ég eldaði kínverskan mat í kvöld, mu shu svín. Það er svín með allskonar gúmelaði og allskonar grænmeti, borið fram á pönnu og svo vafið inn í pönnukökur augnabliki fyrir átu. Ég fór í Samkaup til að kaupa það sem vantaði í réttinn, ég fann allt nema pönnukökurnar. Fyrir þá sem ekki vita hvernig kínverskar pönnukökur eru: þær eru litlar og mjög þunnar hvítar og nánast bragðlausar en nauðsynlegar til að moka svona mat upp í sig með. Allavega, ég labbaði fram og aftur meðfram frystinum og starði á frosnu pizzurnar, fiskflökin og hryggina en sá engar pönnukökur. Ég spurði starfsmann hvort hann vissi til þess að þetta væri til í búðinni, hann horfði á mig smá stund vantrúaður og spurði svo: ertu að meina mexíkanskar? Ég: Nei kínverskar. Það hafði hann nú aldrei heyrt fyrr.

Ég mátti því bruna í Fjarðarkaup, búðina sem selur bæði samkvæmisföt og matvöru. Þar voru allar kellingar bæjarins mættar, hver með sína innkaupakerru tóma og búnar að koma sér vel fyrir þar sem þær voru fyrir öllum og töfðu sem mest þær máttu fyrir fólki sem álpaðist þangað inn til að versla. Engar pönnsur þar.

Ég mátti gera þriðju tilraun og nú skyldi reynt við Hagkaup í hinum vonlausa Garðabæ. Þar króaði ég starfsamann í kjötborði af, konu á miðjum aldri, ég spurði hana hvar finna mætti pönnukökurnar þunnu. Hún horfði á mig spyrjandi en jafnframt tómum augum "ertu að meina mexíkanskar?" nei ég er að meina Kínverskar og þessvegna bað ég um kínverskar. Hún vísaði á annan starfsmann sem varla stóð fram úr hnefa. Hann var ekki mikið eldri en bíllinn minn, ég bar spurninguna aftur upp og reyndi að stilla mig því mér var farið að leiðast mikið að ræða við þetta annars ágæta fólk.
Ég: Veist þú til þess að þið seljið kínverskar pönnukökur hér?
Stráksi: Já, svona tortillur (glaður í bragði)
Ég: Nei kínverskar, þær ættu að vera í frysti.
Stráksi tekur á rás í átt að frystinum og ég á eftir.
þegar við komum að frystinum snar snerist stráksi á hæl og tók u-beygju inn eftir einhverri snakkhillu sem var greinilega ekki frystir.
Stráksi: Er það ekki bara svona sem þig vantar og rak framan í mig mexíkanskar tortillur.

Þar sem stráksi hálf kraup við hillurnar lá hann vel við höggi og þessvegna hrinti ég honum í gólfið og setti hnéð í eyrað á honum þar sem hann lá og engdist um.

Ég öskraði á hann að Kína og Mexíkó væri ekki sama landið, það væri langt á milli þessara landa og pönnukökurnar frá kína hétu ekki tortilla. Því næst geip ég tabascosósuglas og hellti í augun á honum svo ég gæti komist úr úr búðinni áður en hann gæti bent á í hvaða átt ég forðaði mér.

Þannig var nú það, nokkurnvegin.

p.s ég fékk pönnsurnar í Hagkaup í smáralind, en fyrst ég var búinn að leita svona víða ákvað ég að kaupa allar pönnsurnar þeirra,án þess að spyrja starfsmann til vegar.

miðvikudagur, febrúar 01, 2006

Ég er byrjaður að læra kínversku. Í haust keypti ég margmiðlunardisk með kínverskunámskeiði. Ég byrjaði á að opna forritið og þá blasti við mér myndband með heilum setningum og hörku samræðum. Ég fylltist skelfingu og lokaði forritinu, í gær ákvað ég svo að reyna aftur og þá gekk betur því ég fann allskonar æfingar og raddprófanir. Því má segja að ég sé formlega byrjaður að læra, ég ætla að byrja á að læra já, nei og að telja svo kemur hitt með vorinu.