mánudagur, febrúar 20, 2006

Ekki átti ég von á að ég myndi leggjast flatur í sófann til að horfa á undankeppni júróvisíon í svartholinu, en viti menn ég horfði. Ég lét reyndar athugasemdir falla við hvert lag, þannig að það liti ekki út fyrir að ég skemmti mér mikið.

Silvía Nótt átti kvöldið skuldlaust. Ég datt næstum fram úr sófanum þegar hún þakkaði upphitunnarhljómsveitunum fyrir og sagði að sér þætti óþægilegt að taka við verðlaunum úr hendi fyrrverandi kærasta (útvarpsstjóra) með núverandi sér við hlið.

***

Í dag kom maður til mín í vinnunni og bað um að fá lánaðan tommustokk, það svosem gerist á hverjum degi að einhver kemur til mín og biður um að fá lánuð hjá mér verkfæri EN það er ekki á hverjum degi sem Jón Ársæll kemur og biður mig um verkfæri. Mér þótti mikið til koma og ég held bara að ég myndi lána honum verkfæri hvenær sem er því hann bæði skilaði tommustokknum og þakkaði fyrir lánið. Það er allnokkuð meira en segja má um vinnufélagana.

***

Ég er svoooooo illkvittinn að mig langar meira að sjá hvað perrunum sem NFS plataði brá en hverjir þetta eru. Ég veit þetta er ekkert til að gera grín að en kommonn maður gæti nú alveg borgað fyrir að sjá svipinn á þeim þegar myndavélin kom svífandi og fréttamaðurinn kynnti sig móður og másandi.

***

Í gær sprakk á bílnum mínum, ef það væri komið aðeins meira vor myndi ég henda þessu grautfúna dekki með báðum höndum á haugana en afþví þetta er vertardekk og varadekkið sumardekk neyðist ég til að láta bæta það.