föstudagur, janúar 20, 2006

Ussum fuss maður gæti eins lokað síðunni eins og að skrifa svona sjaldan.

****

Fljótlega eftir að ég skrifaði síðast hér inn hringdi Orkuveitustarfsmaðurinn í mig og bauð mér í jeppó. Það stóð ekki á svari frá mér. Næst tók fátið við því ég hafði stuttan tíma til að ferðbúast og ferðabúnaðurinn dreifður tvist og bast út um alla íbúð. Við fórum örstutt uppfyrir bæinn, festum okkur ekkert en löbbuðum samt næstum til byggða því við fundum hvert hverasvæðið á fætur öðru og ekki mátti hætta leitinni að því næsta. Hörku fjör og ekki laust við að mig langaði í jeppa eftir þennan túr.

***

Ég var sendur í Helguvík á miðvikudag til að laga eitthvað í sorpeyðingarstöðinni. Ég hafði ekki komið þangað inn síðan ég datt þar og braut á mér hnéð fyrir næstum tveimur árum. Það var rétt sem þáverandi flokkstjóri sagði mér að það eru málningarslettur upp um allan vegg eftir mig, ég hélt nefnilega á málningarbakka þegar ég lagði af stað niður, en einhverra hluta vegna náði ég að skilja hann eftir uppi á syllunni sem ég var að príla upp á. Alveg magnað því öll lögmál segja að ég hefði átt að fá bakkann framan í mig í lendingunni.

***

Meinvill átti afmæli á miðvikudag, ég rétt marði að komast heim á undan gestunum.

***

Ég sá mynd frá borg í Rússlandi áðan, undir henni stóð " ís hylur tré í Yekaterinburg 1440 km austur af Moskvu" þetta gæti ekki verið mikið nákvæmara, þetta er sama vegalengd og milli Reykjavíkur og Kritiansund í Noregi.

Þessi mynd er á galleríi sem Ap uppfærir á hverjum virkum degi, Íslenskir blaðamenn þýða margar fréttir af Ap þannig að það verður spennandi að sjá hvort þessi mynd dúkkar ekki upp með sömu nákvæmnis staðsetningu og Ap gefur upp í mogganum eða fréttablaðinu.

***

Ég hef átt samskipti við tvö fyrirtæki síðustu daga, bæði eiga það sameiginlegt að sýsla með póst og sendingar. Ég held ég hrósi báðum í hástert fyrir góða þjónustu. Annað þeirra er hinn Íslenski Póstur sem er að ég held með frambærilegasta þjónustuver sem um getur, hitt er Breska útgáfan af Amazon sem er líka með gott þjónustuver.

Mig var farið að lengja eftir pöntun frá Amazon, hún hafði lagt af stað frá þeim þann 6. jan en ekkert bólaði á henni í gær. Ég hringdi því í póstinn til að vita hvort hún hefði tafist í tollinum, svo var ekki og mér var bent á að tala við sendandann. Ég svitnaði því ég hafði heyrt að ómögulegt væri að hafa samband við Amazon, það væru endalausar "hjálpaðu þér sjálfur" blindgötur hjá þeim og ekkert netfang. Eftir smá ráp og marga smelli á "þetta svaraði ekki spurningu minni" komst ég inn á eitthvað svæði þar sem hægt er að senda fyrirspurnir. Ég klambraði saman fyrirspurn á minni fátæklegu ensku, þar sem ég rakti raunir mínar og viðraði þá skoðun mína að sendingin væri týnd. Ég bjóst ekki við svari frá þeim fyrr en í fyrsta lagi í næstu viku þ.e ef það kæmi nú á annað borð.

Tuttugu og einni mínútu og sautján sekúndum seinna kom átta síðna svar frá Amazon þar sem fyrstu sjö og hálfa síðan fór í að biðjast afsökunnar fyrir hönd konunglega póstsins og svo hálf þar sem ég var beðinn um að smella á tengil ef sendingin birtist ekki innan sólarhrings. Í dag hringdi ég svo aftur í Póstinn til að vera viss um að mega smella á tengilinn og tilkynna sendinguna týnda. Fyrir svörum hjá Póstinum varð mjög þjónustulunduð kona sem tók sér smá tíma til að leita að sendingunni, hún tilkynnti mér að sendingin hefði skriðið inn til þeirra klukkan 12:23 í dag og búið væri að tollskoða hana og hún tók meira segja á sig krók til að finna út hvenær kassinn kæmi til mín. Mér fannst bölvað að kassinn kemur ekki fyrr en á mánudag, en það er fyrir öllu að hann er fundinn og ég er væntanlega laus við vesenið sem hefði fylgt því að tilkynna hann týndann.