þriðjudagur, janúar 10, 2006

Þar sem Nfs ætlar sér að græða heilmikið á neyð fjölskyldu mannsins sem Dv tók af lífi í morgun, finnst mér ekki nema sjálfsagt að þeir greiði fyrir útför hans. Hvert er siðferði þessa fyrirtækis? Fyrst flytja Dv og Fréttablaðið frétt um fatlaðan mann sem einhver kjaftasaga segir að hafi nauðgað drengjum. Seinna sama dag kemur frétt á Vísi um að maðurinn hafi fyrirfarið sér í morgun vegna fréttarinnar og auglýsingu komið inn í fréttina um frétt af málinu í Fréttatíma Nfs.Þetta er tekið af visir.is "Karlmaður á sextugsaldri svipti sig lífi í morgun, eftir að DV birti mynd af honum á forsíðu og bendlaði hann við kynferðislegt ofbeldi gegn ungum piltum. Ásakanirnar gegn honum hafa ekki verið sannaðar og bróðir mannsins segir að DV hafi nánast rekið hann í dauðann. Nánar verður sagt frá þessu í fréttum NFS klukkan hálf sjö". Svo kjamsar þessi brjóstumkennanlega fréttastöð á málinu. Afhverju labbaði ekki einhver af Nfs yfir á Dv og gaf þeim sitthvorn á baukinn fekar en að velta sér upp úr þessu máli sem mér finnst ekki fréttamatur fyrr en búið er að gefa út ákæru og menn hafa eitthvað í höndum sem byggja má málssókn á.

Ég þarf ekki að setja fram þá spurningu hvort ritstjórar blaðsins hafi sómatilfinningu, þeir hafa það ekki og ritstjórar fréttablaðsins eru bullandi samsekir í málinu með því að stoppa ekki birtingu þessarar myndar af manninum.

Ég segi bara: Ritstjórar og starfsmenn 365 prentmiðla þið eruð sek um morð á manni sem fékk ekki tækifæri til að svara fyrir sig eftir lögformlegum leiðum. Skammist ykkar. Mér varð líka flökurt að sjá uppgerðar samúðarsvipinn á puntdúkkunum í Ísland í dag þegar þær fylltu upp í galtóman þáttinn sinn með kjaftavaðli um málið.