Þetta er allt saman lygi, lygi segi ég og skrifa.
Ég er búinn að vera að velta fyrir mér íþróttafréttum að undanförnu. Ég hef mest orðið var við þessar sem koma í lok allra fréttatíma á öllum útvarpsstöðvum og í lok allra sjónvarpsfréttatíma, hinar fletti ég einfaldlega yfir.
Ef þið sem fylgist með þessum svokölluðu íþróttafréttum haldið að þær snúist um íþróttir, hafið þið ekki hlustað nógu vel. Þetta er eins og versta sort af rausi þess sem hefur ekkert að segja og fer því að segja manni hver í kringum hann/hana er: veikur, í meðferð, brotinn, atvinnulaus, næstum dáinn og hver sagði hvað og uppskar andúð.
Ég ætla hér að taka dæmi af öllum fyrirsögnum á mbl.is/mm/sport klukkan 11:04 í dag til að sýna fram á að þetta snýst að litlu leiti um íþróttir.
Newcastle hyggst áfrýja rauða spjaldinu: Þetta er um eftirmál íþrottaleiks.
Eiður Smári segist vilja skora 100 mörk fyrir Chelsea: En ekki hvað? Hann vinnur jú þarna.
Nba: Bryant og Carter leikmenn síðustu viku. Hver er leikmaður dagsins? eða mínútunnar?
Wigan og Portsmouth bítast um Tekke: Sennilega vilja þessi fyrirtæki fá manninn í vinnu.
Kiel vann stórleikinn gegn Gummersbach: Þetta er eina fréttin af úrslitum.
Tungumálavandræði hjá Portsmouth: Það var nú líka á síðasta vinnustað sem ég vann á, án þess að því væri slegið upp í íþróttafréttum.
Henry bestur í Frakklandi, enn einusinni: Hann fékk viðurkenningarskjal.
Þetta var uppi á forsíðunni á íþróttasíðunni á mbl áðan.
Svo er það kaflinn um þá sem spiluðu einusinni fótbolta, það er að segja voru hættir áður en ég fæddist, ekki að það sé einhver gríðarlegur mælikvarði, en engu að síður er aldarþriðjungur síðan það gerðist.
Það mætti alveg semja lag um þá:
Einn datt á hausinn
Annar varð fyllibytta
Sá þriðji klessti bíl
Og fjórði horfði á
Það mætti líka telja puttana með lagstúfnum, það mætti þá jafnvel koma því inn hjá börnum að keppnisíþróttir eru á engan hátt mannbætandi, í lagstúfnum.
Ég held það mætti alveg að ósekju henda flestum íþróttafréttamönnum út af fréttastofunum, þeir geta þá stofnað blað á sama grunni og Hér og nú og Séð og heyrt. Sjáið flottu takkaskóna og þau eiga von á barni.
<< Home