mánudagur, desember 26, 2005

Mig langar að flytja annaðhvort upp í sveit eða til útlanda. Þetta kemur alltaf öðru hvoru yfir mig og þá aðallega þegar mikið er búið að vera að gera og mig langar að slappa af.
Jólin eiga að vera þannig að maður liggur flatur með konfekt sér við hlið og góða bók í fanginu, á nokkurra tíma fresti stendur maður upp, labbar út í bíl og brunar heim til einhvers sem nennir að elda. Þannig hefur þetta verið, þar til nú. Öll jólin hef ég staðið í eldhúsinu án þess að nokkur matarlykt komi upp úr pottunum hjá mér, ég er nefnilega búinn að koma mér í þá aðstöðu að bjóðast alltaf til að malla eftirréttina. Þessvegna er ég ekki búinn að liggja neitt uppi í sófa með bók og konfekt, í gær bar ég fram mascarpone trifle með jarðarberjum í magnaðri veislu heima hjá mömmu og pabba. Í kvöld bar ég fram Créme Brulé heima hjá tengdaforeldrunum.

***

Eins og ég skrifaði hér nokkrum fæslum neðar er ég í fríi þar til á næsta ári, það þýðir ekki konfekt og bók því Meinvill er búin að koma mér í endalausar bílaviðgerðir, með glannalegum akstri á þýska ruslahaugnum, ég held þetta sé sprottið af gengdarlausri öfund yfir öllu fríinu sem ég ætlaði að nota í sófanum. Látið mig vita ef þið hafið séð bláan bíl með grænum ljósum keyra upp á kant og í allar holur til að beygja stýrisenda.

***

Nýjasti frændi minn setti Evrópuheimsmet í jólagjöfum á aðfangadag, hann fékk hrúgu sem var ekki mikið minni en sæmilegasti fjóshaugur (án arfa og gorkúla). Þvílík heppni að pabbi hans er bóndasonur og kann að koma fjóshaugum í burtu í fáum handtökum. Á meðan foreldrarnir unnu á vöktum við að rífa utan af gjöfunum svaf drengurinn í bílstólnum sínum bakvið stólinn sem ég sat í. Ég er að spá í að gera svona á næstu jólum.