sunnudagur, desember 04, 2005

Fyrir réttum sólarhring þagði ég í minnst tuttugu mínútur án þess að vera sofandi. Þetta afrekaðist vegna ofáts á jólahlaðborði. Metið frá í fyrra, níu ferðir, stendur enn þrátt fyrir góða tilraun upp á fimm ferðir í gær. Síðasti bitinn átti í vandræðum með að rata niður í maga og var fastur einhversstaðar milli munns og bringu, þegar hann sýndi ekki á sér neitt fararsnið ákvað ég að renna honum niður með vænum sopa af jólaöli, það varð til þess að bitinn fór niður í maga en jólaölið bólgnaði út í annars yfirfullum maga. Fyrst varð mér illt, svo óglatt, svo illt, svo ropaði ég og allt lagaðist. Ég fór samt ekki aðra ferð.
Grand Hótel fær margar, margar stjörnur fyrir frábæran mat og fína þjónustu, það hefði reyndar mátt bjóða upp á kaffi og taka síðasta diskinn, að öðru leyti var þetta fullkomið. Ekki skemmdi svo félagsskapurinn fyrir.

***

Litli frændi fékk nafn í gær, hann heitir Flosi. Við heimsóttum familíuna í dag bæði til að fá það sem við lánuðum þeim til veisluhaldsins og til að gefa Flosa skírnargjöfina sína. Mér tókst í fyrsta sinn að fá hann ekki bara til að brosa heldur líka til að hlæja, ég setti bara í fávitagírinn og hljómaði eins og búskmaður þar sem ég smellti í góminn og frussaði til skiptis með þeim árangri að í stað þess að bresta í grát, hló hann. Og ég líka.

***