fimmtudagur, nóvember 10, 2005

Betur fór en á horfðist, er fyrirsögnin sem fréttamenn nota þegar ekki fór eins illa og þeir hefðu viljað. Á eftir þessari fyrirsögn kemur oft lýsing á atburðarrás sem fréttamaðurinn vildi að hefði gerst svo fréttin hefði slagkraft. Betur fór en á horfðist þegar ekkert gerðist, ef eitthvað allt annað hefði gerst hefði farið allt öðruvísi. Eða þannig.....

****

Ég stoppaði eins og oftast við umferðarljósin á Kringlumýrar og Miklubraut í dag á leið heim úr vinnunni. Ég var á mið akreininni á eftir Benz, ég taldi víst að Benzi myndi skjótast af stað og ég gæti staðið allt flatt til að gefa sem flestum tækifæri á að komast yfir gatnamótin. Þar misreiknaði ég mig, bölvaður níðingurinn á Benzanum keyrði svo hægt af stað, að ég skipti ekki í annan gír fyrr en ég var kominn yfir gatnamótin. Þess ber að geta það það er bannað að skipta um akrein á gatnamótum og það var heldur ekki hægt vegna umferðar, það var ekki heldur hægt að skipta um akrein á kaflanum við Suðurver. Þegar ég kom að Listabraut hafði þetta samferðaróféti ekki komið bílnum sínum í nema 60 kílómetra hraða og rétt við Bústaðavegsbrúna hafði hann slefað í 70 (Lágmarkshraðinn þar er 80) en þá kom að því að taka fram úr dráttarbíl sem silaðist á 30 þá tók Benzræksnið sig til og snarbremsaði svo hann færi nú ekki glannalega hratt fram úr dráttarbílnum og lét sér nægja að fara á 50 fram úr. Eftir þetta komst ég framúr Þýska brakinu og sá hann ei meir því ég náði að koma spíttkerrunni nær þriggja stafa tölu og umferðarhraða.
Afhverju er svona fólk sem er fyrir öðrum ekki sett í strætó?

***

Mp3 spilarinn minn er búinn að standa sig með prýði síðustu daga í vinnunni. Það rann upp fyrir mér um daginn að ég átti 10 góða diska sem ég hafði lítinn tíma til að hlusta á en langaði gríðarlega að hlusta rækilega á, því brá ég á það ráð að skella mússíkinni á spilarann. Ég er ekki frá því að dagarnir líði hraðar með skemmtilegri tónlist.