Voðalega langar mig aftur til útlanda, þangað sem hlýrra er. Ég er búinn að draga ullarsokkana fram aftur og er því komin með táfýlu og græjur. Varasalvinn er kominn í vasann og húfan niður í augu.
****
Cocorosie er til þess fallin að hlýja manni um hjartaræturnar, Antony syngur með þeim og Devendra Banhart gaular einhversstaðar á plötunni þeirra, ég á eftir að finna hann.
Voðalega er vinahópurinn hans Antony flinkir tónlistarmenn og konur.
***
Ef ég fer einhverntíman í framboð til borgarstjóra Hafnarfjarðar ætla ég að hafa uppi á fyrrverandi skólastjóra Iðnskólans í Reykjavík og biðja hann um að skrifa upp á auglýsingu þess efnis að ég hafi fallið með sóma í bókfærslu, leikfimi, stærðfræði og félagsfræði. Ég var bara að sinna almannatengslum og reykja sígarettur á kaffihúsi niðri í bæ og ekki síst að reyna að hafa ofan af fyrir hinum lötu vinum mínum. Ekki mátti þeim leiðast í skólanum.
Reyndar þarf ég ekki að ljúga neinum prófskírteinum upp á mig því ég á útskriftarskírteini í fleirtölu.
****
Rosalega finnst mér lítið varið í þá tónlist sem boðið er upp á í útvarpi þessa dagana. Það er ekkert spennandi að gerast hér á landi nema kannski Hjálmar, en ég er hræddur um að eftir meistaraverkið "hljóðlega af stað" komi plata sem nær ekki upp í þær væntingar sem maður gerir til þeirra.
Annars býður talstöðin enn upp á hinn mikla menningarvitaþátt "Glópagull og gisna skóga" með Auði Haralds á fimmtudögum, það styttir manni stundir í vinnunni. Ég er reyndar ekki búinn að tékka á Rás eitt sem á það til að spila eitthvað skrýtið og skemmtilegt sem aðrir þora ekki að setja yfir geislann.
<< Home