fimmtudagur, október 27, 2005

Voðalega langar mig aftur til útlanda, þangað sem hlýrra er. Ég er búinn að draga ullarsokkana fram aftur og er því komin með táfýlu og græjur. Varasalvinn er kominn í vasann og húfan niður í augu.

****

Cocorosie er til þess fallin að hlýja manni um hjartaræturnar, Antony syngur með þeim og Devendra Banhart gaular einhversstaðar á plötunni þeirra, ég á eftir að finna hann.
Voðalega er vinahópurinn hans Antony flinkir tónlistarmenn og konur.

***

Ef ég fer einhverntíman í framboð til borgarstjóra Hafnarfjarðar ætla ég að hafa uppi á fyrrverandi skólastjóra Iðnskólans í Reykjavík og biðja hann um að skrifa upp á auglýsingu þess efnis að ég hafi fallið með sóma í bókfærslu, leikfimi, stærðfræði og félagsfræði. Ég var bara að sinna almannatengslum og reykja sígarettur á kaffihúsi niðri í bæ og ekki síst að reyna að hafa ofan af fyrir hinum lötu vinum mínum. Ekki mátti þeim leiðast í skólanum.
Reyndar þarf ég ekki að ljúga neinum prófskírteinum upp á mig því ég á útskriftarskírteini í fleirtölu.

****

Rosalega finnst mér lítið varið í þá tónlist sem boðið er upp á í útvarpi þessa dagana. Það er ekkert spennandi að gerast hér á landi nema kannski Hjálmar, en ég er hræddur um að eftir meistaraverkið "hljóðlega af stað" komi plata sem nær ekki upp í þær væntingar sem maður gerir til þeirra.

Annars býður talstöðin enn upp á hinn mikla menningarvitaþátt "Glópagull og gisna skóga" með Auði Haralds á fimmtudögum, það styttir manni stundir í vinnunni. Ég er reyndar ekki búinn að tékka á Rás eitt sem á það til að spila eitthvað skrýtið og skemmtilegt sem aðrir þora ekki að setja yfir geislann.