sunnudagur, október 09, 2005

Við fórum alla leið upp í Grafarholt í dag til að vera við skírn nýasta afkvæmis Guðnýjar og Sævars. Drengurinn fékk nafnið Baldur Páll og lét sér vel lynda, í það minnsta mótmælti hann hvorki vatnsaustrinum né nafninu.
Ég þurfti að stoppa tvisvar á leiðinni til að taka bensín því bæði er langt upp í Grafarholt úr Hafnarfirði og svo var maður svo þungur á sér eftir veitingarnar að það kom niður á eyðslu bílsins, og þá sérstaklega í brekkunum á heimleiðinni.

***

Ég keypti þessa bók í gær. Í henni eru margar flottar uppskriftir, margar eiga það sameiginlegt að innihalda dass af hrísgrjónavíni. Ég fór því á heimasíðu ÁTVR til að leita mér að þessu matargerðarefni. Ég veit ekki afhverju rauðvín kom upp í leit minni að hrísgrjónavíni, en þó veit ég að ég ætla ekki að kaupa svona vín vegna lýsingarinnar á bragði þess. Ef útihúsakeimur heillar ykkur skulið þið drífa ykkur niður í ríki. Ég ætla aftur á móti að halda áfram að leita að Shaoxing hrísgrjónavíni.

Ekki veit ég hvaða landasullari er í smakkinu hjá Ríkinu. Hann sannfærir mig ekki um hvað skal kaupa því þetta er líka með útihúsakeim. Hvað ætli sé næst hjá honum, mildur fúkki, hnakkur og bensínstöð?