fimmtudagur, september 22, 2005

Land og vernd

Já já já, ég er enn einusinni búinn að hreyfa við mönnum vegna náttúruspjalla sem hafa verið unnin. Þannig var að Orkuveitustarfsmaðurinn sendi mér hlekk á skýrslu um mat á umhverfisáhrifum virkjunnar sem er ekki við nein hnjúk, heldur fell. Ég las skýrsluna og sendi svo tölvupóst á einhverja sem ég hélt að ættu að sjá um svona mál. Skemmst er frá því að segja að báknið gerði ekkert annað en að segja: fínar myndir hjá þér, en ljótt sár og við höldum að það hafi ekki verið gefið leyfi fyrir veglagningunni. Svona svör duga mér ekki, helst vil ég sjá verktakann kviksettann í veginum meðan vatnsborðið verður hækkað yfir hausinn á honum. Ef leyfi fæst ekki fyrir kviksetningu gæti dugað að hann geri að æfistarfi sínu að raða stuðlaberginu aftur upp í skriðuna sem hann er búinn að eyðileggja.

Plan B. allur hagnaður af virkjuninni verði notaður til að laga skemmdir sem valdið hefur verið á viðkvæmri náttúru.

Landvernd ætlar að gefa kallinum á baukinn opinberlega á næstunni þannig að ég er dæmdur til að hlusta á alla fréttatíma næstu daga.

****

Meinvill liggur í sófanum með hor vellandi úr nös, ég skildi ekki í þegar ég kom heim, þákom hún kom labbandi afturábak á móti mér, ég skildi það þegar ég sá að það var til að spóla ekki í horinu.
Hóst og stuna

*****

Ég fer ekki til að sjá Antony and the Johnsons því miðarnir seldust á tveimur mínútum á þriðjudag. Opinberi tíminn er sjö mínútur en tónleikahaldarinn segir á heimasíðu sinni að mínúturnar hafi verið tvær, svo tók við fimm mínútna bið meðan hreinsað var upp.

****

Ég rakst á lélegustu röksemdarfærslu gegn stækkun álversins í Straumsvík í gær. Hún var svo hljóðandi "hey - ég var að ræða álversstækkun og múvið hjá þér við gott fólk hér í Vesturbæ Reykjavíkur um daginn. Sitt sýndist hverjum þar til ég líkti stækkun álvers við það að það ætti að byggja álver hér úti í JL húsi og við fengjum ekki að hafa neitt um það að segja... þá kom hljóð í strokkinn... vá.. og í alvöru... eiga Hafnfirðingar ekki að fá að kjósa um það hvort þeir hafa grængrátt vatn í klósettunum sínum vegna álvers í bakgarðinum?????"
Undir þetta skrifar Laganeminn

Þetta er svoo stjúpit að það nær ekki nokkurri átt. Það er ekki eins og þetta blessaða álver hafi risið viku á eftir Vallahverfinu. Ég skil ekki fólk sem kaupir sér hús við hliðina á álveri og kvartar svo undan að það sé álver í nágrenni við húsið þeirra. Þetta eru sennilega sömu bjánar og búa í miðborginni og kvarta undan lífi í henni.

Það er greinilega rétt sem fasteignasalar ráðleggja að fólk eigi að skoða fasteignir í björtu.