föstudagur, september 16, 2005

Hraustur eins og við var að búast

Já þá hafið þið það. Ég er búinn að fá skjalfest að ég er ekki með aids, lifrarbólgu, berkla eða annað sem gæti talist óþægilegur sjúkdómur. Þetta fékk ég skjalfest með læknisskýrslu í gær. Skýrslan kostaði 1200, skoðunin 700 og rannsóknin 1000 kall. Þetta er að verða góð upphæð sem við erum búin að eyða síðustu daga í allskonar vottorð og stimpla, þessi þrjú dæmi eru bara brot af öllu vottorðafarganinu.

*****

Ég sá gamlan kunningja í dag á flugi yfir Reykjavík í dag. Það voru Harrier þotur sem hræddu næstum líftóruna úr okkur vinnufélögunum. Ég var viss um að einhver tankurinn væri að koma hrynjandi gegnum húsið en Gasi hélt að hann væri að fá einhvern vélbúnað í hausinn. Svo voru þetta bara fulltrúar breska heimsveldisins á ferð í leit að heppilegum lendingarstað. Þess ber að geta að þoturnar flugu á c.a 30 km hraða inn til lendingar og útskýrir það hávaðann, þær geta nefnilega bæði stoppað í loftinu og bakkað þessar þotur. Ég sá eina svona þotu sýna listir sínar yfir Silverstone brautinni fyrir tímatökur í formúlunni 1999. Þá þurfti ég að vega og meta hvort ég ætti að taka mynd af henni eða setja í mig eyrnatappa.(ég gerði bæði, fyrst tappar svo mynd)

Ég kynntist Harrier fyrst í gegnum Sinclair spectrum 48k. Pabba hafði áskotnast leikurinn einhversstaðar og gaf mér hann. Þetta var 2D leikur og ég fann eina skjámynd úr honum, hana má skoða hér. Þetta var annaðhvort fyrsti eða annar tölvuleikurinn sem ég náði að klára, hinn er manic miner námuverkamannatölvuleikur.

****