Stóra svarið
Á föstudag kom stóra svarið í póstkassann hjá okkur. Svarið er jákvætt þannig að við getum nú fyrir alvöru farið að safna vottorðum um andlegt og líkamlegt heilbrigði og fá vinnuveitendur til að skrifa upp á vottorð um að við höldum vinnunni eitthvað áfram og óteljandi önnur vottorð og pappíra.
*****
Lélegasti trommuleikari landsins býr í næsta húsi við okkur. Hann lemur tilviljanakennt á bumburnar og diskana af djöfulmóð í nokkrar mínútur og svo gefst hann upp. Svo er djöflast í nokkrar mínútur og svo gefist upp en aldrei kemur lag úr þessum tunnum og dósum hans.
Fólki þætti sennilega þreytandi ef gítarleikari djöflaðist á gítarnum sínum daglangt án þess að kunna eitt grip.
Hann er þó skárri er bílaþvottabjáninn sem býr í sama húsi og trommarinn. Sá hefur ekkert að gera fyrr en seint á kvöldin, þá fer hann út með háþrýstiþvottatækin sín og bunar á bíla með tilheyrandi hávaða.
****
Við fórum á Kabarett á föstudag, það var mjög gaman. Meinvill var ekki meira en svo viss um að ég myndi skemmta mér að hún tók afþreyingu fyrir mig með sér. Hún rétti mér grænan pakka sem hringlaði í og hvíslaði að mér að ef mér leiddist ætti ég að fá mér úr þessum pakka. Mér leiddist ekki en fékk mér samt smá tóbas.
Við sátum svo langt frá sviðinu að maður greindi ekki nema skörpustu andlitin á leikurunum og helst ekki nema maður þekkti leikarana. Þetta kom sér vel því sonur biskupsins leikur í sýningunni og ég veit ekki hvor þeirra feðga fer meira í taugarnar á mér.
****
Þeir sem sáu Fréttablaðið á laugardag sáu kannski mann halda á lundapysju. Það var hann Steini sem vinnur með mér. Fréttablaðið sagði að Steini hefði fundið pysjuna fyrir utan Lýsi, það er bull, vitleysa og þvættingur því ég fann hana og kallaði í Steina því hann er Westmanneyingur og kann á svona kvikindi.
Ég var að sækja mér kaffi þegar mér varð litið til hliðar og sá þá pysjuna standa úrræðalausa ofan í gryfju. Ég stökk inn til að hóa í Steina því ég var ekki viss um að ég næði henni einn. Ég sagði honum að mig vantaði Westmanneying í ákveðið verkefni. Hann taldi víst að nú þyrfti að klifra eitthvað en varð svo gapandi hissa þegar hann sá hvert verkefnið var.
Sagan af pysjunni fékk farsælan endi úti við Gróttu þar sem Steini gerði heilmikla fjölskylduferð úr sleppingunni. Pysjan flögraði áleiðis út á haf þar sem hún skellti sér í kaf til þess að ná sér í æti.
<< Home