miðvikudagur, október 05, 2005

Það eru svo sannarlega stórmál sem koma upp á Alþingi í þingbyrjun. Einn flokkur hefur það sem sitt helsta baráttumál að útrýma kanínum og lögleiða haimabruggun. Svo trommar herðatréð að norðan upp í pontu og þakkar borgarstjóra fyrir að fjarlægja steypuklumpa sem hafa haldið uppi fallegum myndum Raxa á Austurvelli. Ekki nóg með það því þessi sami Halldór Herðatré Blöndal steig í ræðustól alþingis og sagði að Slippstöðin á Akureyri væri traust fyrirtæki. Hvurnig er það, eru þingmenn hættir að fá dagblöðin ókeypis heim til sín eða hefur bara farið fram hjá Halldóri Herðatré að Slippstöðin fór á hausinn á föstudaginn? Eftir því sem ég best veit fara traust fyrirtæki ekki á hausinn.
Mér finnst samt eins og fjölmiðlar hafi fyrst farið á límingum við að einhver óþekk(t)ur þingmaður steig bindislaus í pontu. Væri ekki rétt að fresta þingi aftur og taka ekki úr lás fyrr en búið verður að finna eitthvað þarft að gera fyrir þingmenn.

****

Bölvað vesen var að komast heim í dag úr vinnunni. Öll umferðarljós voru óvirk með þeim afleiðingum að bílstjórar urðu ráðviltir og örvinlaðir því þeir vissu ekkert hvað þeir ættu að gera.
Ég komst með góðu móti alla leið að gatnamótum Kringlumýrarbrautar og Miklubrautar þar sem allt sat fast. Þrír strætóar lokuðu gatnamótunum og enginn komst leiðar sinnar. Þegar ég var búinn að bíða þarna smá stund og sá að ekki ætlaði að greiðast úr flækjunni ákvað ég að smella mér niður Miklubraut og niður í Lönguhlíð. Þar tók ekki mikið betra við, ljósin þar voru líka óvirk en það hefði verið í lagi því maður hefði getað beygt inn í Lönguhlíðina. Þegar ég var búinn að bíða stundarkorn duttu ljósin í gang og rautt kom á mig og bílana þrjá á undan, það hefði svosem verið í lagi ef rauða ljósið hefði ekki logað á mig næstu 6 mínúturnar. Bílarnir þrír á undan mér laumuðu sér yfir á rauðu en innan við hálfri mínútu eftir að þeir fóru yfir kom grænt á mig en þá lögðu þeir sem voru orðnir óþolinmóðir í Lönguhlíð af stað á móti sínu rauða ljósi og í veg fyrir mig og hina sem voru á grænu.

Alveg undarlegt að um leið og eitthvað smávægilegt kemur upp á í umferðinni fara allir á taugum og hætta að hugsa rökrétt, bara af því að þeir vita ekki hvernig á að höndla þær aðstæður sem upp eru komnar. Mér finnst með ólíkindum að þessir kjánar sem komu úr Lönguhlíð sáu ekki að umferðin á Miklubraut var stopp og komið grænt á beygjuakrein. Svona er þetta og ég komst nærri árekstri.