laugardagur, september 24, 2005

Dagur tíðindanna

Ég fór of snemma á fætur í morgun og skildi ekki afhverju klukkan hringdi ekki, ég var farinn að rifja upp hvar síminn væri svo ég gæti boðað trassaskap og látið vita að mér seinkaði. Ég spurði Meinvill með þjósti: Afhverju hringdi klukkan ekki á réttum tíma? Ískalt nefið gægðist undan sænginni og mjög þreytuleg rödd spurði "hvað er klukkan?" Hún er rúmlega hálf átta. Meinvill benti mér þá á að hún ætti ekki að hringja fyrr en hálf níu. Þá varð ég nú aldeilis hissa og skildi enn síður hvað væri í gangi. Neeei klukkan hringir alltaf klukkan hálf sjö og hún hefði átt að gera það líka í dag, eða hvaða dagur er annars? Þá fattaði ég að ég átti ekki að fara að vinna. En gaman! Fyrst ég var vaknaður og í þokkabót sársvangur fór ég á bleiku inniskónum með dúskunum fram í eldhús og hóf rútínuna, opna ísskáp sækja súrmjólk (súrgað mjólk á færeysku) taka appelsínusafa út og lýsi, loka skáp, labba tvö skref og sækja disk með vinstri, snúa hálfhring og leggja á borð, snúa kvarthring til hægri og taka tvær gerðir af múslí út úr skápnum. Svo er sest niður og morgunverður hefst rétt um það leyti sem fjarstýringunni er sveiflað hálfhring aftur fyrir bak til að kveikja á gufunni.


Venjulega heyrir maður hvað gerðist í Ammiríku meðan maður svaf og ef maður er heppinn kemur stutt veðurlýsing. En í morgun var þetta öðruvísi, þetta var ekki ósvipað því þegar einvher góðhjartaður útvarpsmaður segir mér að það sé byrjað að gjósa. Ég hætti að tyggja og lagði frá mér skeiðina, hvað sagði maðurinn?

Er mogginn bara flæktur í málið? Og líka flokkurinn sem styður öll frjálsu viðskiptin? Og líka hæfi hæstaréttardómarinn? Og líka leikfimiskennarinn?

Uss ég er svo aldeilis hissa. Svo hélt ég bara áfram að tyggja og kyngja til skiptis. Reyndar skil ég eitt í þessu máli og það er að mogginn skuli taka að sér að þýða hin ýmsu skjöl fyrir tilvonandi áskrifendur því það er dýrt að láta þýða fyrir sig, það vitum við sem höfum þurft á því að halda. verst að maður lét ekki bara moggann um þetta fyrir sig því þá hefði sparast 4000 kall pr síðu. Og ekki hefði verið verra ef maður hefði fengið mánaðar áskrift með.