þriðjudagur, október 11, 2005

Ég sá viðtal við Thelmu Ásdísardóttur í Kastljósi áðan. Hún var að segja frá kynferðislegu ofbeldi sem pabbi hennar og vinir hans beittu þær systur árum saman. Ég verð að segja að hún kom rosalega vel fyrir þessi kona. Pabbi hennar hefur verið hreinn óþokki.

Þegar ég var lítill var mér bannað að ganga nálægt húsinu sem þau bjuggu í. Það vissu allir hverslags óþokki bjó í þessu húsi en ég veit ekki til að neitt hafi verið gert. Ég held að allir sem bjuggu í hverfinu hafi vitað hvaða mann pabbi þeirra hafði að geyma. Öðrum börnum var bannað að fara í heimsókn til þessara stelpna, því það vissu allir að pabbi þeirra misnotaði börn. Það vissu líka allir að hann væri fyllibytta og ofstopafullur. En þrátt fyrir allt þetta var ekkert gert.

Nú kann einhver að hugsa, þetta var fyrir hátt í 30 árum síðan og svona gerist ekki í dag. Ég held það sé ekki rétt, ég held þetta gerist á hverjum degi úti um allan bæ og við gerum ekki neitt.
Sennilega teljum við ekki skyldu okkar að tilkynna þegar okkur grunar að eitthvað gruggugt sé á seyði, sennilega erum við að bíða eftir að einhver taki af skarið, stigi út úr hópnum og geri eitthvað. Það er óþægilegt að taka af skarið en ég held það sé enn óþægilegra að gera það ekki til lengri tíma litið.

Þessi ólánssama fjölskylda bjó í næstu götu fyrir neðan okkar götu þannig að ég átti oft leið þarna framhjá húsinu þeirra. Ein systranna var í bekk með systir minni en flosnaði snemma upp úr skóla. Hún hætti að mæta í 8. bekk.

Ég vona að saga þeirra verði til þess að fólk hugsi sig ekki um heldur hringi og láti vita ef það veit um svona hrottaskap. Þetta er ekki flókið fólk á bara að taka upp símann og hringja á lögguna því ofbeldi er ofbeldi hvar sem það er framið.

Í okkar samfélagi er lögð ofur áhersla á að uppræta fíkniefnaneyslu, gott mál EN afhverju getur mönnum liðist að eyðileggja líf annara með ofbeldi án þess að nokkuð sé gert. Í fyrri viku var maður dæmdur í eins og hálfs árs fangelsi fyrir að drepa mann með hnefahöggi. Þetta kalla ég umburðarlyndi í lagi. Ef viðkomandi hefði verið með 5 gr af fíkniefnum í vasanum hefði hann fengið þyngri dóm fyrir dópið en morðið.

Ég vona að þetta fari að breytast.